04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

82. mál, landsverslunin

Pjetur Jónsson:

Það hafa orðið allmiklar umr. um till. þessa. Jeg bjóst við, að hún kæmist áfram hljóðalaust. Jeg hefi enn ekki heyrt neina mótbáru gegn till., er gæti gefið ástæðu til umr., fram yfir það, sem svarað hefir verið af öðrum nefndarmönnum.

Jeg skal fyrst minnast á brtt. á þgskj. 281. Þar eru sveitarfjelög látin hverfa undir meginregluna. Þótt nefndin vildi ekki bægja sveitarfjelögum með öllu frá afhendingu og útsölu á landssjóðsvörunum, eins og jeg tók fram í skýringu minni á till., þá mundi samþykt á brtt. orsaka gagnstæð áhrif við till. nefndarinnar. Nefndin vill, að það sje meginregla, að verslunarfyrirkomulagið sje eins og gert er ráð fyrir í till. Jeg hygg að vísu, að hjer í nánd við Reykjavík geti sveitarfjelög komist í beint samband við verslunina, án trafala eða vandkvæða. En jeg fæ hins vegar ekki sjeð, að minni háttar sveitarfjelög úti um land geti snúið sjer að versluninni án milliliða. Mjer er vel kunnugt um, að þau hafa þurft að fá húsrúm o. fl. hjá kaupmönnum eða kaupfjelögum, og greiðslan lendir oft hjá þeim líka.

Það er þess vegna lakara fyrir landsverslunina að hafa viðskifti við sveitirnar, og nefndin vildi einmitt losa hana við þau óþægindi. Sjerstaklega álít jeg illa til fallið að leiða sveitarfjelögin til sætis með kaupmönnum og kaupfjelögum, ef jafnframt á að útbola sýslumönnum frá afskiftum af versluninni. Því að þeir eru nauðsynlegir milliliðir fyrir sveitarfjelögin, sem í fjarlægð eru, ef þau ættu að hafa viðskiftin, og þau atvik geta komið fyrir, að þeir sjeu beinlínis ómissandi. Jeg vil t. d. benda á það, að þegar á að sjá ýmsum stöðum fyrir nauðsynlegum vörubirgðum, t. a. m. þá er íshætta vofir yfir eða samgönguteppur, er ekki víst, að kaupmenn eða kaupfjelög eigi tök á að taka eins miklar vörur og nauðsyn krefur og greiða andvirði þeirra þegar í stað. Þegar svo stæði á, væru sýslumenn sjálfsagðir umsjónarmenn á þeim forða, sem landsverslunin legði fyrir til síðari skifta. Þess vegna vildi nefndin ekki bægja þeim með öllu frá versluninni, en ætlaðist þó ekki til, að þeir hefðu beinlínis verslunarstörf á hendi.

Ráðherrarnir hafa nú allir staðið upp og látið í ljós álit sitt á málinu. Og að því er jeg hefi komist næst, — og atvinnumálaráðherrann hefir tekið skýrt fram — álíta þeir till. að vísu tilgangslausa og óþarfa, en hins vegar eigi fara í bág við fyrirætlanir landsverslunarinnar nje stjórnarinnar í þessu máli. Jeg hefi skilið undirtektir þeirra á þá leið, að till. fari í sömu átt og stjórnin og landsverslunin hafa hugsað sjer og eins og jeg skýrði hana í inngangsræðu minni. Þess vegna virðist mjer dálítið kynlegt, að allir ráðherrarnir skuli finna sig til knúða að standa upp og andmæla till., sem er í samræmi við fyrirætlanir stjórnarinnar, jafnvel þótt þeim finnist hún vera óþörf. Eins og mönnum er kunnugt, hafa komið ýmsar óskir til stjórnarinnar, sem henni hefir reynst ofurefli að fullnægja, og þá er eðlilegt, að hún bendi á örðugleikana. En þó að jeg viti ekki, hvað er að sitja í ráðherrasæti, þegar skorað er á stjórnina að gera það, sem hún hafði hugsað sjer að gera, þá hefi jeg þó setið í svipuðu sæti í fjelagsskap, þar sem mjer sem framkvæmdarstjóra var falið, og það brýnt fyrir mjer, að leysa það af hendi, er jeg hafði marghugsað mjer að gera, og hefir mjer þó ávalt þótt ráðlegt og kurteislegt að taka slíkum áskorunum vel. Þess vegna þykja mjer andmæli stjórnarinnar tæplega tilhlýðileg.