23.04.1918
Neðri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Forsætisráðherra (J. M.):

Það hefir ekki verið nein ástæða til þess fyrir ráðuneytið að athuga þetta frv. sjerstaklega, nje heldur verið snúið sjer til stjórnarinnar með það, sem þó hefði virst eðlilegt, því að þegar gera á breytingar á lögsagnarumdæmum landsins, bæta við einum lögreglustjóra o. s. frv., þá væri eðlilegast, að hlutaðeigendur sneru sjer til stjórnarinnar með það. En jeg geri ráð fyrir, að það hafi farist fyrir vegna þess, að það hafi ekki verið tími til þess. Það mun hafa staðið á sýslunefnd, og sýslunefndarfundur, víst rjett nýafstaðinn, svo að ekki hefir verið hægt að fara þessa leið.

En þá er spurningin um, hvort það sje svo nausynlegt að koma þessu frv. í framkvæmd á þessu þingi. Það er víst ekki nema eðlilegt, að kauptún eins og Siglufjörður hefði kaupstaðarrjettindi, þó að hann sje í sjálfu sjer fremur fámennur til þess að eiga heimtingu á slíkum rjettindum, en hjer stendur nokkuð sjerstaklega á. Þess vegna held jeg, að rjett sje, að öllu athuguðu, að Siglufjörður fái kaupstaðarrjettindi, en af því leiðir ekki, að þar þurfi að vera sjerstakur lögreglustjóri, sem hafi Siglufjörð einan og ekkert annað. Þetta þarf að athuga áður en þingið samþ. frv. Það er engin nauðsyn á því að fá nýjan lögreglustjóra. Auðvitað verður Siglufjörður að hafa sjerstakan bæjarstjóra og borga honum, eins og nú er farið að tíðkast.

Það var rjett, sem háttv. flutnm. (St. St.) sagði, að þar er ekki lögreglustjóri árið um kring, en hann er þar þó þegar mannfjöldinn er þar sem mestur. En hjer er um nýtt embætti að ræða, að líkindum allhátt launað, og það eru víst afarmiklar aukatekjur, sem til þess falla. En ef nú á að fara að stofna hjer nýtt bæjarfógetaembætti, í stað þeirrar starfsemi, sem haldið er uppi að sumrinu og til ganga ca. 1.000 kr., þá finst mjer rjettara, að launin sjeu fastákveðin, eins og gert hefir verið við skifting bæjarfógetaembættisins hjer í Reykjavík, en aukatekjur, sem til þess falla, renni í landssjóð. Jeg teldi það býsna athugavert, ef háttv. deild færi nú að rjúka til að stofna hjer nýtt embætti, að minsta kosti á þessu aukaþingi, án þess að það væri nákvæmlega athugað. En að leyfa þessu bæjarfjelagi að fá kaupstaðarrjettindi, finst mjer mætti svara mjög vel.