01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Háttv. þm. Borgf. (P. Ó.) kvaðst ekki geta felt sig við brtt. nefndarinnar, þar sem hún dragi úr gildi frv. En jeg vil benda háttv. þm. (P. Ó.) á, að ef ætlast væri til þess, að hjer ætti að vera um alment eftirlit með vöruverði að ræða, þá hefði frv. þurft að vera miklum mun nákvæmara og ítarlegra. Stjórnin ætti t. d. að hafa heimild til þess að skipa menn sjer til aðstoðar og ráðuneytis. (P. Ó.: Þeir eru þegar skipaðir, sem sje innflutningsnefnd). Það er ekki sagt, að innflutningsnefnd eigi að vera stjórninni til aðstoðar í þessu efni, heldur er að eins bent á það í nál., að hún muni best til þess fallin. í frv. sjálfu er ekkert ákvæði um þetta.

Að innflutningsnefnd hafi svo lítið að gera, að hún geti tekið að sjer alt eftirlit með vöruverði, verð jeg að draga í efa. Jeg hygg, að hún hafi mikið starf. Og þar sem háttv. þm. (P. Ó.) sagði, að henni ætti að veitast auðvelt að hafa eftirlit með vöruverði, þar sem hún tæki við öllum vörureikningum, þá er það að vísu svo, að hún tekur við reikningunum, en eftirlit með vöruverði á öllu landinu er svo umfangsmikið starf, að nefndin gæti ekki afkastað því, þó að hún gæfi sig alla við því og sinti engu öðru. Hygg jeg því, að ekki sje hœgt að leggja þetta starf á hana, heldur verði að skipa aðrar nefndir til þess með sjerstökum lögum.