08.07.1918
Efri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

0819Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Eins og menn muna var 7. gr frv. feld burt við 2. umr., en í henni voru þau ákvæði, að seljendur fengju 3/4 hluta hagnaðarins, ef nokkur yrði.

Og jeg verð að lýsa yfir því, að jeg álít það ekki rjett, að fella það ákvæði burt, af þeim ástæðum, að jeg hefi aldrei viljað viðurkenna það, að hjer væri um „spekúlation“ að ræða, heldur hitt, að bjarga einum af stærri atvinnuvegum landsins.

Þess vegna vildum við, að landssjóður fengi að eins brot af ágóðanum sem borgun fyrir óbeina áhættu.

Við höfum því komið fram með brtt., sem fer þó ekki fram á, að þessu verði kipt í samt lag aftur, heldur að ekki sje útilokuð öll von um, að framleiðendurnir njóti einhvers af hagnaðinum, þannig, að næsta þing ráði hvernig ágóðanum verði varið. Með því móti er ekki tekið fram fyrir hendur þingsins og þá þurfa menn ekki að vera hræddir lengur; þá verða menn annað hvort ánægðir eða óánægðir með úrslitin. Jeg vona því að háttv. deild leyfi þessari nýju 7. gr. að komast inn í þessu formi.

Um brtt. 1, á þgskj. 468 þarf ekki að tala, þar sem hæstv. fjármálaráðherra hefir tekið hana aftur. En jeg hefði helst kosið, að hann hefði tekið brtt. 2, á sama þgskj., aftur líka. En ekki mun jeg þó gera það atriði að neinu þrætuepli.

Það er að vísu rjett að eftir ákvæðum 6. gr. frv. á landsstjórnin að borga út jafnóðum og peningarnir koma inn, og ef svo færi að nægir peningar kæmu fyrir síldina frá Svíþjóð til þess að fullnægja þörfum útvegsins, þá gerið lítið til um ákvæði þessi.

En mjer þykir gjaldfresturinn á síðari helmingnum æði langur, til 1. júlí 1919, og get jeg ekki skilið að landssjóður sje kominn á þá heljarþröm, að svo langan þurfi gjaldfrestinn

En hjer er brtt á þgskj. 469, þar sem farið er fram á að skifta greiðslunni í þrent, þannig, að fyrsti þriðjungur greiðist jafnótt og fjeð kemur inn, annar fyrir árslok og þriðji fyrir lok marsmánaðar.

Er þar miklu vægar og hóflegar farið í sakirnar. og get jeg því miklu fremur felt mig við þá brtt.

Til þess að miðla málum vil jeg styðja brtt. á þgskj. 469, frá háttv. þm. Ísaf. (M. T). Kýs jeg þannig að mæta hæstv. fjármálaráðherra á miðri leið Þetta er sagt frá mínu eigin sjónarmiði, því að við bjargráðanefndina hefi jeg ekki talað um þetta atriði.