11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Sigurður Sigurðsson:

Jeg ráðgerði í gær við 1. umr. þessa frv. um landsstjórnarinnar á síld, að gera grein fyrir aðstöðu minni til málsins.

Mjer hefir skilist, að upphaflegur tilgangur þessa máls og þessa frv. hafi verið sá, að tryggja það, að síldveiðar yrðu stundaðar í sumar, svo að síldarútvegsmennirnir gætu notað og komið í verð því, sem þeir eiga fyrirliggjandi af tunnum og salti. Hjer var verið að hlaupa undir bagga hjá síldarútvegsmönnunum og ljetta af þeim áhættu og ábyrgð. Þá var enn óákveðið um verðið, er fást mundi fyrir síldina, eða það af henni, er flytja má til Svíþjóðar. Það mun því auðsætt, að með því að láta landsstjórnina kaupa fyrir hönd landsins þetta mikið af síld, 100 þús. tunnur, voru síldarútvegsmenn eða síldarútvegurinn nálega úr allri hættu, er síldveiðin ella var undirorpin.

En síðan málið var fyrst flutt hjer á Alþingi, hefir sú breyting á orðið, að fengin mun nokkur vissa um gott verð fyrir það af síldinni, sem leyft er að flytja til Svíþjóðar. Síldarútvegsmenn, hinir stærri að minsta kosti, segja því nú, að áhættan við síldveiðina sje horfin. Og jeg heyri því haldið fram hjer á þingi, að það sje engin áhætta heldur fyrir landssjóðinn að kaupa þessar 100 þús. tunnur af síld.

Frá sjónarmiði síldarútvegsmanna virðist því óþarft, hvað áhættuna snertir, að samþykkja þetta frv. Enda hafa hinir stærri síldarútvegsmenn látið það brjeflega í ljós við Alþingi, að þeir óskuðu ekki eftir að frv. yrði samþykt, úr því sem komið væri, og síst af öllu, ef síldarútveginum yrði ekki ákveðinn allur sá ágóði, er kynni að verða á sölu síldarinnar.

Jeg vil nú strax lýsa yfir því, að þessi upphaflega grundvallarhugsun fyrir frv., að koma allri áhættunni af síldveiðinni og síldarsölunni yfir á landssjóðinn, er lítt forsvaranleg. Og mig undrar það satt að segja, að nokkur þm. skyldi ljá frv. fylgi sitt, meðan svo stóð, að útlit var fyrir, að landssjóði væri bökuð stórábyrgð og áhætta með síldarkaupunum. En þó að þessi áhætta sje nú að líkindum miklu minni, eftir að fengin er von eða nokkur vissa um það verð, er muni fást fyrir þessa síld, sem leyft er að senda til Svíþjóðar, þá á landssjóður samt sem áður nokkuð á hættu, ef frv. verður samþykt og landsstjórninni falið að kaupa síldina.

En sje það nú hins vegar svo komið, að öll áhætta með síldarkaup og síldarsölu sje horfin úr sögunni, þá ætti um leið að vera rutt á braut ástæðunni fyrir því, að samþykkja þetta frv. Og sumir telja einnig, eins og áður er getið, að svo sje. Þeir, sem nú halda því eigi að síður fram, að það beri að samþykkja frv., færa það sem ástæðu, að með því sje trygður rjettur hinna smærri síldarútvegsmanna til sölu á sinni síld móts við hina, eða í rjettu hlutfalli við hina stærri og meiri máttar útvegsmenn. Og jeg skal strax kannast við, að þetta er nauðsynlegt. Það er vitanlega alveg sjálfsagt að tryggja það með einhverjum ráðum, að efnamunurinn og þeir, sem kraftinn hafa, geti ekki undirokað hina í samkepni um sölu á síldinni. Það segir sig sjálft. En það þarf ekki að gera það á þennan hátt, sem hjer er farið fram á, eða með því að samþykkja þetta frv. um kaup landsstjórnarinnar á síld. Það má gera það á annan hátt. Ráðið til þess er ósköp einfalt. Það á að fela útflutningsnefndinni að jafna því niður, hvað hver einstakur síldarútvegsmaður má eða fær að flytja mikið út af síld.

Útflutningsnefndinni er falið að sjá um útflutning á þessum 1.000 hrossum, sem Englendingar — af náð sinni og miskunn — hafa leyft okkur að selja til Danmerkur. Hjer skal ekki rætt um það, hvað smánarlega lítið þetta er móts við þörfina, ekki nema 1/8 eða 1/10 hluti þess, er landsmenn þyrftu nú að selja af þessari vöru. En hvað sem því líður, þá er útflutningsnefndinni falið að jafna þessum útflutningi niður á helstu hrossahjeruð landsins. Og það er síst vandaminna eða ábyrgðarminna en að jafna niður síldarútflutningnum eftir sömu eða svipuðum reglum og gert er ráð fyrir í frv.

Mjer virðist því, að frv. þetta, um kaup landsstjórnarinnar á síld, sje algerlega óþarft, hvað þessa hlið — niðurjöfnun síldarinnar til útflutnings — snertir, en að öðru leyti ekki alveg hættulaust fyrir landssjóðinn að samþ. það.

Enn fremur má benda á það, að frv., ef það verður að lögum, skapar óheyrilegt misrjetti milli atvinnuveganna, bæði beint og óbeint. Beinlínis með því, að síldarútveginum eða sjávarútveginum er gert þarna hærra undir höfði með því að skylda landssjóð til þess að kaupa síldina. Ef jafnrjettis hefði verið gætt, átti landssjóður einnig að kaupa hrossin — 2000 hross — og selja svo annað þúsundið hjer innan lands til manneldis og skepnufóðurs, og jafna síðan verðinu niður milli seljanda.

Óbeinlínis kemur misrjettið fram í því, að hjer er sjerstaklega verið að hlynna að þeim útveginum, sem að undanförnu og enn þann dag í dag er versti keppinautur landbænda, hvað verkafólk snertir. Fólkið þyrpist að síldarútveginum, og það oft svo, að úr hófi keyrir, og sjer jafnvel til skaða og skammar. Bændur sitja svo eftir mannfáir og geta ekki fengið nægilegan mannafla til nauðsynlegra verka, jafnvel hvað sem í boði er.

Þá skal jeg minnast á tvö atriði. Í annari málsgrein 4. gr. er sagt: „Þegar ákveðin er hlutdeild frambjóðenda í sölunni, koma — auk framleiðenda — þeir einir síldarkaupendur til greina, sem hafa greitt minst 20 krónur fyrir máltunnu nýrrar síldar“. Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli á því, að þótt jeg telji 20 kr. fyrir máltunnuna sjálfsagðar, ef gert er á annað borð ráð fyrir, að menn fái að kaupa síld, þá get jeg ekki neitað, að landið er að hlynna að braski þeirra, sem síldina kaupa, að minsta kosti í öðru veifinu. Hjer hefðu ekki aðrir átt að koma til greina en framleiðendur. Ef þessi leið hefði verið farin, sem jeg benti á, ætti þeim að vera innan handar, er síldina kaupa, að selja tunnurnar og salt til framleiðslunnar.

Jeg tel 7. gr. óþarfa og varhugaverða. Varhugaverða tel jeg hana fyrir ákvæðið um, hvernig hagnaðinum skuli skift niður. Jeg hefi litið svo á, að ef landssjóður keypti síld og bæri áhættuna af þeirri verslun, að þá væri sjálfsagt, ef um ágóða væri að ræða, að hann lenti óskiftur hjá landssjóði. Meiri hluti bjargráðanefndar hefir að vísu komið með brtt. um, að væntanlegum arði verði skift að 4/5 og 1/5. En mjer þykir 1/5 í hlut landssjóðs alveg óhæfilega lítið. Til mála gat komið helmingur í hvorn stað. Mjer virðist, að það liggja í hlutarins eðli, að sá aðilinn, sem ber hættu og ábyrgð á sölunni, eigi að njóta arðsins.

Jeg álít því frv. þetta gersamlega óþarft, og mun greiða atkv. móti því.