13.09.1919
Efri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

23. mál, stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn

Kristinn Daníelsson:

Samband starfsmanna ríkisins kom fram með þá málaleitan, að þegar endurgreidd væru iðgjöld úr lífeyrissjóði til embættismanna, vegna þess, að embætti það, er þeir skipuðu, væri lagt niður, væru einnig greiddir sparisjóðsvextir af þeirri upphæð, í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir því, að iðgjaldaupphæðin verði greidd vaxtalaus Þar sem jeg gat ekki annað sjeð en að ósk þessi væri eðlileg og hefði við full rök að styðjast, hefi jeg komið fram með brtt. við frv., er gengur í þessa átt.

Lífeyrissjóðurinn nýtur, þó þetta verði samþykt, mismunarins á þeirri vaxtaupphæð, sem hann fær af fjenu, og sparisjóðsvöxtum. Á sama hátt nýtur hann vaxtavaxta af iðgjöldunum þann tíma, sem embættismaðurinn greiðir í sjóðinn. Þegar þar við bætist, að sjaldgæft mun verða, að embætti sjeu þannig lögð niður, hygg jeg, að bagi sá, er sjóðurinn kann að hafa af þessu, vegi ekki upp á móti sanngirniskröfu embættismannanna.

Skal jeg ekki fjölyrða meir um mál þetta, en vildi að hv. deild skæri úr þessu atriði fyrir sitt leyti.