14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2976)

53. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg býst eigi við, að jeg þurfi mörg orð til skýringar þessu frv. Ástæðurnar eru svo greinilega teknar fram í fylgiskjalinu, sem prentað er með frv. Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir í framsögu sinni um samskonar frv., er hann flytur fyrir Hólshrepp í Norður-Ísafjarðarsýslu, að mestu leyti tekið af mjer ómakið. Það stendur sem sje svo á, að staðhættir í Ólafsfirði eru mjög líkir og þar vestra, í því fyrirhugaða læknisumdæmi hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Munurinn að eins sá, að fólksfjöldinn er þar nokkru meiri. Í Ólafsfirði hagar svo til, að hann er umgirtur háum fjallgarði, sem er illfær á vetrum, sakir fannkyngi og snjóflóðahættu. Og sem bendingu um það, hvernig sú leið muni vera að sumrinu, get jeg skýrt frá því, að þegar jeg var þar á suðurleið 17. júní, þá var umbrotafæri fyrir hesta mína, á eina tiltækilega heiðarveginum, sem til er milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals, þar sem læknirinn er búsettur. En fari menn sjóleiðina eftir lækninum, þá er hún bæði torsótt og hættuleg, þar sem fara verður í haf út, norður fyrir Ólafsfjarðarmúla. Þess utan hagar svo til á Ólafsfirði, að alla vjelbáta verður að setja á land að haustinu, og það jafnvel í byrjun októbermánaðar, því að úr því sá tími er kominn, má búast við því brimi, að alla vjelbáta, er liggja á Ólafsfirði, annaðhvort reki brotna á land, eða þeir sökkvi að öðrum kosti. Undanfarandi haust hefir það nokkrum sinnum komið fyrir, að Ólafsfirðingar hafa orðið fyrir mjög tilfinnanlegu bátatapi á þennan hátt.

Af þessu sjest það allljóst, hver afstaða Ólafsfirðinga er gagnvart lækni og læknisvitjun, að þeim er margoft — hvað sem við liggur — allsendis ómögulegt að vitja læknis. Nú eru í Ólafsfirði um 600 manns, og þar af allur fjöldinn í Ólafsfjarðarhorni, og íbúðirnar mjög misjafnar, eins og víðast mun vera í sjóþorpum. Þar af leiðir, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tók fram., að venjul. er mikið kvillasamara í þjettbygðum sjóþorpum en alment gerist í sveitum. Enda er það svo, að á heilsufari manna er þar alloft mjög mikill misbrestur. T. d. minnist jeg þess, að þegar jeg var þar staddur fyrir tæpum þrem árum síðan, þá urðu þeir að vitja læknis næstum að segja dag eftir dag margoft. En að sækja lækni úr Ólafsfirði inn til Svarfaðardals eða Dalvíkur, er álíka dýrt og það er fyrir Bolvíkinga að sækja lækni til Ísafjarðar. Í fylgiskjalinu, sem þeir senda Alþingi, er það tekið fram, að læknisvitjun kosti jafnaðarlega alt upp undir 100 kr., og mun það ekki of reiknað fyrir bát, mannhjálp og olíu, því auðvitað þarf þráfaldlega að fara tvær ferðir, bæði að sækja lækninn og fara með hann heim til sín aftur.

Það er því ekkert undarlegt, þótt Ólafsfirðingar í þessu fylgiskjali segi, að þessir erfiðleikar á læknishjálp sje þeim þungbærasta áhyggjuefnið. Mundi það og ekki vera þungbærasta áhyggjuefnið fyrir hverjum ykkar, hv. samþingismenn, ef einhver nákominn lægi fyrir dauðanum, og allar bjargir væru bannaðar um það að ná til læknis? Jeg heyrði það líka á mörgum bestu efnamönnum sveitarinnar, að ef ekki yrði úr þessu bætt af löggjafarvaldinu, svo að læknir fengist þau búsettur, væru þeir neyddir til að fara burtu úr sveitinni. Veit jeg, að þeim er þetta full alvara. (E. A.: Er það ekki óbyggilegt hjerað hvort sem er?) Nei, því í fer mjög fjarri. Ólafsfjörður er ein af fegurstu og grösugustu sveitum. Og hvað snertir sjávarútveginn, þá eru fiskiveiðar reknar þar af miklum dugnaði. Fiskimið góð, og hægara á þau að sækja frá Ólafsfirði en úr öðrum verstöðum, þótt utarlega sjeu á Eyjafirði, þegar brim ekki hamlar.

Í vetur sem leið var mál þetta rætt á fjölmennum sveitarfundi, og kom þar fram almenn og eindregin ósk um, að þegar á þessu þingi yrði þar skipað með lögum sjerstakt læknishjerað, og þrír menn voru þá kosnir til að vinna að undirbúningi málsins, bæði með því að skrifa ávarp til Alþingis, og svo að gangast fyrir undirskriftum alþingskjósenda. Eru þessi skjöl fram lögð á lestrarsalnum og þar undirskrifuð nöfn 149 kjósenda.

Þessir þrír nefndarmenn óskuðu eftir því við mig í vetur sem leið, að jeg kæmi á fund til þeirra, til þess að ræða um málið, og það verð jeg að segja, að jeg hefi enn ekki orðið var við eindregnari, þróttmeiri og ákveðnari vilja en þann, sem þeir höfðu á framgangi þessa máls. Jeg fór fram á það, hvort þeir ekki mundu gera sig ánægða með styrk frá landssjóði til læknisvitjunar, en slíkt vildu þeir ekki heyra nefnt. Þeir bentu á, sem og rjett var, að aðalatriðið í þessu máli væri ekki kostnaðurinn við að sækja lækni eða leita hans, þó hann væri að vísu mikill, heldur hitt, ómögulegleikinn á því að ná í hann, hvað sem við lægi. Þá hreyfði jeg því, hvort ekki mundi erfitt að sjá lækninum fyrir bústað, en þeir töldu engin vandkvæði á því, eða í það minsta ekki þá erfiðleika, sem mættu verða eða gætu orðið þessu mikla áhugamáli þeirra til hindrunar.

Í stuttu máli, hvaða tormerki er jeg benti á, eða aðrar leiðir í þessu falli, þá virtust þeir ekki annað vilja heyra en þetta eina, að fá Ólafsfjörð gerðan að sjerstöku læknishjeraði.

Mál þetta var einnig fyrir á sýslufundi Eyfirðinga, og var þar nokkuð rætt og athugað. Og gaf fundurinn því sín bestu og ákveðnustu meðmæli. Jeg hefi hjer sýslufundargerðina við hendina, og er sjálfsagt að leggja hana fram í lestrarsalnum, ef óskað er.

Það er ekki þörf á að fara fleiri orðum um þetta að sinni. Jeg álít það að eins rjett og skylt, að þingið láti fullkomna sanngirni og jafnrjetti ráða í málinu. Að vísu á slíkt stöðugt að ráða gerðum þingsins, en þó engu síður í þessu máli en öðrum. Engin aðstoð til almennings af hálfu hins opinbera getur álitist brýnni en einmitt læknishjálpin, og þar af leiðandi krafan frá einstaklingunum til þjóðfjelagsins um, að enginn sje hafður, hvað þetta snertir, að olnbogabarni, eiginlega rjettmætari en annað það, sem um er beðið.

Að endingu vil jeg leggja til, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, að umræðunni lokinni.