03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Bjarni Jónsson:

Jeg heyri nú og það undrar mig, að hjer er tillaga fram borin, sem eigi verður með öðru varin en yfirskinsástæðum, enda eru ástæður flutningsmanna heldur út í hött. Þetta vildi jeg sagt hafa til inngangs.

Jeg var svo óheppinn, að jeg hlustaði ekki á ræðu háttv. aðalflutn., er mun vera háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). En jeg hefi beðið greinagóðan mann að skrifa upp aðalefni ræðunnar, og hefi það hjer fyrir framan mig.

Skal jeg fyrst drepa á það, er mest bar á í ræðu háttv. flutningsmanns (S. S.). En það var sparnaðurinn. Þeir kveða það fullvíst, að við það sparist mikið fje, ef felt sje niður sendiherraembættið fyrirhugaða. Jeg hefi þó ekki heyrt ástæður færðar fyrir því, að sparnaður verði, nje heldur hve mikill. Þeir halda, háttv. flutningsmenn, að þeir geti haft skrifstofu í Kaupmannahöfn fyrir 12000 kr., eins og skrifstofan þar kostaði áður, er hún var í sambandi við annað. Þó að skrifstofa þessi hafi eigi kostað meira fje áður, er það draumur einn, að þessi kostnaður þurfi ekki að aukast nú. Hjer þarf til nýja menn og fleiri en verið hafa. Forstöðumaður skrifstofunnar hefir áður haft annan starfa með höndum jafnhliða, en hefir eigi þurft að hafa skrifstofuna að aðalatvinnu. Auk þess er hann efnaður maður. En nú er hann alveg horfinn úr þeirri þjónustu. Dettur nú engum lifandi manni í hug, að hann ræki stöðu þessa áfram. Hefir hann fengið aðra stöðu, er með engu móti samræmist þessari, er áður hafði hann.

Allur munurinn verður þá á því, hvort hinn nýi umboðsmaður hefir há laun eða lág. Væri hann að eins skrifstofustjóri, mundu launin lægri. Það sem sparaðist við till. yrði því í hæsta lagi 3–4 þús. kr. En það er sama sem enginn sparnaður. Þess vegna vil jeg ekki, að háttv. þm. gagnist þetta mikla tal um sparnað.

Þá heyrðist það líka, svo sem áður hefir brytt á í viðtali við menn, að það væri vafasamt, hvað sendiherrann ætti að gera. Það er þó eigi svo mjög vafasamt. Í starfi sínu á hann að sameina öll slík störf sendimanna, sem landinu er þörf á, frá sendiherrastarfi niður í konsúla- eða ræðismannastarfið. Hans skrifstofa á að hafa þetta alt á hendi.

Á það má benda, að sá er munur á sendiherra og skrifstofustjóra, að sendiherrann hefir aðgang að sendiherrum annara ríkja, umgengst þá og kynnist þeim. Þess vegna getur hann gert Íslandi ómetanlegt gagn, þar sem enginn skrifstofustjóri fær áheyrn. Auk þess getur hann haft eftirlit með því, hversu Danir reka erindi vor á Norðurlöndum öðrum, Noregi og Svíþjóð, Þýskalandi, og jafnvel Frakklandi og Englandi, betur en stjórnin hjer heima, sem eigi hefir tök á að umgangast neina sendiherra eða aðra útsenda stjórnmálamenn, nema þá fáu, sem hingað eru sendir. Hann gæti, ef á lægi, afstýrt, Íslandi í hag, því, sem ella gæti orðið skaði að, og stuðlað að hagsmunum þess, er hann yrði þess var, sem koma mætti landinu í hag.

Þetta eitt ætti að vera ærið nóg til að sannfæra hvern hygginn þingmann, að hjer til væri hagur að greiða ekki minna fje en stjórnin leggur til, heldur meira; að sendiherrann getur haft umgengni við sendiherra annara ríkja. Það getur orðið Íslandi hinn mesti hagnaðarauki. Þetta er miklu meiri sparnaður en nemur því, sem fjárveitingin verður lægri fyrir það, að maðurinn hefir óveglegra nafn. Þetta er svo mikilsvert, að vafasamt er, að metið verði til peninga. Jeg ætla, að menn hafi rekið sig á það á liðnum ófriðarárum, hvað það kostar landið að hafa enga sendimenn úti, er skip liggur t. d. hirðulaust á höfn í Vesturheimi mánuðum saman, fyrir það eitt, að enginn er sendimaðurinn til að greiða götu þess. Þörfin á slíkum sendimanni er auðvitað meiri á styrjaldartímum en ella. En það er ætíð svo, og fer ekki hjá því, að hver sendimaður borgi 4–5 sinnum kaup sitt með því gagni, er hann vinnur landinu, og það við sjerstök tækifæri, utan daglegra starfa, sem gagnið af eigi verður tölum talið eða reiknað.

Jeg hefi reynslu í þessum efnum. Og ef menn vilja vjefengja orð mín, hefi jeg á reiðum höndum vitnisburð viturra manna erlendra um það, sem jeg tók mjer fyrir hendur þegar jeg var erindreki þessarar þjóðar. Það yrði hinn mesti óhagur þessari þjóð, ef að eins er litið á gjaldið í fjárlögunum, og það verður til þess, að enginn er sendur. En svo er miklu fleira, sem mælir með því, að störf sendiherra muni vera margfalt meira virði en þeir peningar, sem varið yrði til hans.

Jeg heyrði háttv. aðalflutnm. (S. S.) vitna í orð Boga Melsteðs um þetta mál. Hefir hann sjálfsagt talið óhætt að byggja á þekkingju þessa sagnfræðings. Jeg hygg, að þekking hans á þessu máli sjáist einna ljósast á því, er hann sagði í grein sinni, að Íslendingar væri ekki skyldir til að senda sendiherra, þar sem Danir hefði ekki sent hingað sendiherra, heldur ráðgjafa! Við, sem eitthvað höfum lært í latínu, vitum, að „minister“ þýðir eiginlega „þjónn“. Hví segir maðurinn þá eigi, að Danir hafi sent hingað þjón. Annars vitum vjer um þann mann, er Danir hafa sent, að hans titill er: „Overordentlig Gesandt og befuldmægtiget Minister“. Þykir þessi titill einna virðingamestur, þar sem hann veitir sendimanninum fylsta umboð og svo veglegt nafn, að eigi er nema eitt æðra. Sama titil bera sendimenn Dana í Osló og Stokkhólmi. Sendimaður Þjóðverja í Kaupmannahöfn setur nú á nafnspjald sitt „Residerende Minister“. Það er Freiherr v. Neurath, sem jeg er lítils háttar kunnugur. Svo má halda áfram að telja. En flestar þjóðir hafa menn með smærri titlum, er þær senda til smáríkja, eins og Norðurlandaríkjanna.

En að nefna slíkan mann „ráðgjafa“ er annaðhvort hrekkvísi eða barnaskapur svo mikill af fullorðnum manni, að alls ekki ætti að sjást. (E. A.: Það er fáfræði!) Þá hefir hann ekki lesið sambandslögin, því að ella ætti hann að vita, að stjórn danska ríkisins hefir eigi verið hingað flutt, og getur því eigi verið um danskan ráðgjafa að ræða. Vjer Íslendingar gætum eigi heldur sent ráðgjafa til Danmerkur. Íslenska stjórnin á eigi að sitja þar. Það er sagt í stjórnarskrárfrv. því, sem hjer verður samþykt, að íslenskt ríkisráð sje starfhæft og ályktunarfært, þótt eigi sje viðstaddur nema einn íslenskur ráðherra. En að Íslendingar hafi þar í Kaupmannahöfn ráðgjafa, eða Danir hjer, fer beint í bága við sambandslögin og stjórnarskrána. Jeg fyrir mitt leyti hefði því ekki viljað bera fram tillögu, bygða á því, er Bogi Melsteð hefir um málið ritað. Það kann að vera, að háttv. flutningsmaður (S. S.) geti haft þessa grein sjer til rjettlætingar á dómsdegi, en hve vægan dóm hann fær, skal jeg láta ósagt.

Það er því alveg rangt mál, og bygt á vanþekkingu höfundar þessarar greinar eða hrekkvísi, að Danir hafi ekki sent til Íslands sendiherra. En þá hafa Danir sýnt oss þá hæversku, að þótt vjer Íslendingar hefðum aldrei ætlað að senda sendiherra til Danmerkur, væri það ein ærin ástæða til þess, að sá væri upp tekinn. Danir hafa sent hingað sendiherra, og með því sýnt hinu unga íslenska ríki fulla kurteisi, með því að senda því sendiherra, eins og stórveldum heimsins. Er þá sjálfsögð kurteisi, að Íslendingar sendi þeim mann, er eigi beri óæðra nafn en sá, er hingað var sendur; það er sjálfsögð kurteisisskylda. Sumir menn kunna að líta svo á, að hæverska sje eigi nauðsynleg stórveldunum. Þykir hafa brytt á því ófriðarárin, að þau hafi gleymt kurteisinni. En aldrei hefi jeg heyrt, að þess sje eigi þörf fyrir hin minni þjóðlöndin, að sýna fulla hæversku. Og þar sem íslenzka þjóðin hefir nú lengi barist fyrir fullveldi sínu, og nú fengið það viðurkent fyrir tæpu ári, er þess nauðsyn að hún byrji viðskifti sín við ríkin í kring um sig með fullri hæversku. Og þó að jeg vilji eigi hrósa Dönum, eða nefna þá engla, þótt þeir gengi að sáttmálanum, þá verð jeg að segja, að minna er ekki hægt að gera úr sáttfýsi þeirra en að full hæverska komi á móti.

Jeg hefi þá þegar talið tvær ástæður til þess, að vjer sendum sendiherra til Dana, og mundi hvor um sig nægja. Í fyrsta lagi er sú mikla nytsemi, sem landinu má af því verða, að sendur sje til Danmerkur íslenskur maður með sendiherratign. Og í öðru lagi er sú sjálfsagða hæverska við sambandsþjóð vora, sem þegar hefir sýnt í verkinu, að hún vill unna oss allrar sæmdar, og sent hingað sendiherra. Er ekki nema skylt, að við látum annan jafngildan í móti koma.

En svo skal jeg minna á, hvað gerðist hjer á þingi 1918, þegar samningar stóðu um samband Íslands og Danmerkur. Þá varð Alþingi Íslendinga að vinna það til viðurkenningarinnar á fullveldi landsins, að ganga að ýmsu, er mörgum þótti varhugavert. Í fyrsta lagi samþykti þingið að láta Dani fá þau atvinnurjettindi hjer á landi, sem 6. gr. sáttmálans heimilaði þeim í 22 ár, og mega menn muna, að allmikil mótspyrna varð gegn því. Og í öðru lagi gekk Alþingi að því, að heimila Dönum að fara með utanríkismál Íslands í umboði þess. Þótti mjer það miklu meiri ljóður á sáttmálanum en hitt, enda litu allir hinir vitrustu menn landsins sömu augum þar á. Þó gengu þm. að báðum þessum atriðum, með því skilorði, að þeir sjálfir yrðu á verði um heill landsins og hag. Munu þá allflestir þingmenn hafa strengt þess heit, að láta sjer eigi fatast. Enda var og sett í sáttmálanum, að ríkin skyldu sjálf ákveða, hverja fulltrúa þau hefðu hvort hjá öðru. En bæði fullveldisnefndirnar og fulltrúarnir í samninganefndinni töluðu um, að sjálfsagt væri, að bæði ríkin hefðu sendiherra hvort hjá öðru, til þess það væri öllum þjóðum fullljóst, að Íslendingar væru ekki háðir Dönum í neinu. Þá var enginn þingm. á móti því, og kemur mönnum því þetta nokkuð undarlega fyrir sjónir, ef nú á að leggja á móti jafnsjálfsögðum hlut. Mjer er það heldur ekkert leyndarmál, að bæði forsætisráðherra, fjármálaráðherra og við hinir, sem verið höfum landsins erinda í Danmörku síðan sambandslögin voru staðfest, höfum gefið það fullkomlega í skyn, að sendiherra mundi verða sendur hjeðan.

Svo er þess að gæta, að viðurkenningin frá öðrum þjóðum fyrir fullveldi voru er einmitt fólgin í því, að þær hefji þjóðaviðskifti við vora þjóð. Og það gera önnur ríki með því að senda hingað sendiherra, Og nú hafa Danir sýnt það drengilega, að þeir hafa hafið milliríkjaskifti við oss, með því að senda hingað sendiherra, með fullri nafnbót. Norðmenn hafa enn fremur sent hingað ,,Generalkonsul“, sem er þó stigi lægra. En eftirdæmi Dana getur gefið hinum frændþjóðunum tilefni til að senda hingað reglulega sendiherra.

Nú var það ásetningur og vilji alls Alþingis og nefndarmannanna í fyrra, að Íslendingar sleptu aldrei því færi, sem byðist, til að taka utanríkismálin í sínar hendur, svo sem verða mætti án sáttmálsrofa eða illinda. Og hvers vegna á þá nú að sleppa fyrsta tækifærinu, sem býðst? Er því í raun og veru svo varið, að menn sjeu búnir að fá nóg af fullveldinu? Eða hvernig má þeim óheilindum varið vera sem gripið hafa suma háttv. þm. síðan í fyrra? Vjer verðum að vera vel vakandi fyrir fullveldi Íslands. Það er ekki nóg að Danir hafa birt öðrum þjóðum sáttmálann, samkv. 19. gr. hans, og þær hafi sjeð fullveldi voru bregða fyrir sem snæljósi sem snöggvast. Þær mundu þá skjótt gleyma því aftur, ef ekkert minnir þær á það framvegis. Þær verða að sjá einkenni Íslands, fána og skjaldarmerki, á þeim stöðum, sem aðrar þjóðir sýna sín einkenni. Og ekki gleyma þær því, að Ísland er viðurkent fullvalda ríki, ef þessa er gætt, og einkum ef vjer höfum sendiherra hjá þeirri þjóðinni, sem áður var haldin yfirdrotnari vor. Vjer verðum því að fylgja þessu fast fram og neyta allrar orku, þegar færi gefst.

En ef Íslendingar nú ímynda sjer, að fullveldi það, sem brá hjer fyrir eins og snæljósi í fyrra, standi um aldur og æfi, án þess nokkuð sje að hafst af þeirra hálfu til þess að efla það og viðhalda því, þá er fullveldið illu heilli fengið. Hið nýfengna fullveldi vort þarf að fara með eins og hvítvoðung. Að því þarf að hlúa og yfir því þarf að vaka, og ekki síst þar sem þjóðin er jafnfámenn sem íslenska þjóðin. Því að ætíð er vandi að stýra landi, en mestur vandi að stýra litlu landi.

Jeg kann svo ekki að vita, hvort mjer er þörf á að minnast á fleira. Jeg heyri á flutningsmanni tillögunnar, að hann hafi komið fram með hana til þess að draga úr kostnaði og stofna ekki óþörf embætti. Já, sjer er nú hver óþarfinn! Jeg gæti vel skilið það, ef þingmenn stæðu upp og hjeldu ræður af tómri gleði yfir því, að geta sent þenna sendiherra til Danmerkur. Og svo mikið er víst, að ekki verða mörg atkvæði kjósenda með þeim mönnum, sem vilja hindra, að þetta nái fram að ganga. Því að kjósendur eru eins greindir og vjer, sem hjer sitjum, og vjer erum nógu greindir til að sjá, að þetta er þarfasta embættið, sem stofnað hefir verið á Íslandi.