03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Því miður hefi jeg ekki heyrt umr., því jeg komst ekki hjá því að vera í Ed. En jeg hefi heyrt að sumir í háttv. deild vilji ekki fallast á að við höfum sendiherra að umboðsmanni í Danmörku. Jeg get að vísu játað, að það er ekki nauðsynlegt til þess að sanna það, að Ísland sje orðið fullvalda ríki og að eins í þjóðrjettarsambandi við Danmörku. Það er þegar nægilega ljóst. En eins og málinu er komið nú, þá álít jeg ekki rjett að hverfa frá því ráði.

Það hefir verið dregið í efa hjer í sumum blöðunum, að Danir hafi í raun og veru sent hingað sendiherra. Þetta er algerlega rangt. Að vísu er það ekki satt, að þeir hafi sent hingað 1. flokks sendiherra, eða ,,Ambassadör“ enda hafa þeir þá víst hvergi. En maðurinn er sannur sendiherra og viðurkendur af íslensku stjórninni sem sendiherra til þess að vera milligöngumaður að þjóðrjettarsambandi landanna. Nú var það ekki ákveðið í sambandslögunum, að maðurinn yrði sendiherra; Danir gátu líka sent hingað „Generalkonsul“. En eftir því, sem mjer var sagt í Danmörku, var bygt á því í fullveldisnefndunum, að sá maður, sem til Íslands yrði sendur, hefði sendiherranafnbót, og vice versa. Þá gat jeg ekki svarað öðru en því, að jeg byggist við, að Íslendingum mundi þykja vænt um, ef maðurinn yrði sendiherra, og þótti rjett að gera ráð fyrir því, að við mundum senda sendiherra í móti, þegar verið var að útbúa fjárlögin. Jeg skil vel, að menn horfi nokkuð í kostnaðinn. En sá kostnaður ætti þó ekki að vaxa mönnum svo í augum á þessu þingi, sem jeg ímynda mjer að verði óhætt að kalla miljónaþing með fullum rjetti.

Jeg vona því, að við höfum okkar mann í Kaupmannahöfn með sendiherranafni, og látum hann hafa sæmileg laun, en ekkert meira. Það er vitanlegt, að ýmsir hjer á landi vildu gjarnan, að Íslendingar hefðu sjálfir á hendi utanríkismálin. En þegar nú koma mótmæli gegn því, að hafa einn sendiherra í heiminum, hvað hefði þá orðið, ef við hefðum þurft að senda marga sendiherra út um lönd? Við verðum að taka afleiðingunum af fullveldinu, og öll viðurkend upphefð kostar altaf eitthvað. Mjer dettur þá heldur ekki í hug, að brtt. um að fella sendiherraembættið nái fylgi í hv. deild.

Svo skal jeg að eins drepa á 8. brtt. nefndarinnar. Þótt jeg fyrir mitt leyti verði að fallast á, að fjárframlögin sjeu þar hæfileg, þá er það líklega ekki fimti parturinn af því, sem sjávarútvegsnefnd kemur til með að heimta á næstu árum. En jeg hefi gert þá aths. í Ed., að þótt það sje heppilegast að fá strandvarnirnar sem fyrst, þá þarf það mál mikinn undirbúning, og mætti bæta gæsluna smátt og smátt með líkri upphæð og hjer er farið fram á. Hefi jeg svo ekki meira að segja um þetta atriði í bráð.