21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í C-deild Alþingistíðinda. (3520)

36. mál, útflutningsgjald af síld

Magnús Kristjánsson:

Frv. þetta er eiginlega afturganga. — Jeg man ekki betur en mikið væri rætt um þessa hækkun á aukaþinginu 1916–1917, og koma hjer fram nákvæmlega samskonar ákvæði að anda til, sem þá voru í minni hluta, þótt orðalagið sje annað.

Þótt jeg taki þannig til orða, er jeg þó ekki algert á móti hækkun á þessum tekjulið.

En þetta þarf að athugast nokkru nánar.

Fyrst er þess að gæta, að slíkir tollar sem þessi geta ekki átt við, nema þegar alveg sjerstaklega stendur á. — Svo er varið með þessa atvinnugrein, að annað árið er hagur, en hitt ef til vill stóróhagur, og fer slíkt ekki eftir neinum föstum reglum, sem hægt er að gera sjer í hugarlund fyrirfram, og því er nokkuð út í loftið að leggja háan toll á framleiðslu komandi ára.

Hitt væri nær lagi, að hafa vakandi auga á þessa árs framleiðslu, og ef til vill hækka lítils háttar útflutningsgjaldið á henni, ef vel gengur. En það er þó erfitt, því óvist er enn bæði um afla og eins verðið. En þegar lengra líður á þingið, gæti svo farið, að hægt væri að sjá, hverju fram vindur, og ætti því ekki að hrapa að þessu máli.

Jafnframt því, að jeg, af sjerstökum ástæðum, kynni að geta fallist á nokkra útflutningsgjaldshækkun á þessa árs framleiðslu, er jeg eindregið mótfallinn hinu gífurlega háa framtíðarútflutningsgjaldi af síld, sem fjárhagsnefnd Nd. vill lögleiða og stjórnin virðist hafa fallist á. Það getur varla skoðast öðruvísi en banatilræði við hinar smærri útgerðir, sem flestar eru ungar, efnalitlar, stórskuldugar og hafa auk þess margar beðið stórtjón hin síðustu árin, vegna aflaleysis og margvíslegrar erfiðrar aðstöðu.

Þessi atvinnurekstur er nú í sárfárra stóreignamanna höndum; þeir geta keypt afla hinna smærri útgerða, sem ekki hafa efni á að liggja með tunnur og salt og annað, sem útgerðin þarfnast, og geta þannig orðið aðnjótandi alls verslunarhagnaðarins, jafnvel þótt hinir eiginlegu framleiðendur verði fyrir tjóni af útgerðinni. Hinum efnaminni mönnum er gert erfitt fyrir, og jafnvel bægt frá samkepni við stóreignamennina með tunnutolli o. s. frv. Jeg geri ráð fyrir, að ef mjög hátt útfl.gjald verður lagt á síldina í framtíðinni, geti komið til mála að endurgreiða innlendum framleiðendum nokkurn hluta þess, en býst þó við, að sú stefna, þótt rjett sje, eigi fremur erfitt uppdráttar.