15.08.1919
Efri deild: 31. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Magnús Torfason:

Jeg er sammála hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) um lagningu símalínunnar til Grímsness. Þykir mjer styrkveitingin nokkuð há er borið er saman við önnur hjeruð, sem sjálf hafa orðið að kosta síma til sín að mestu leyti, en landssjóður síðan stórgrætt á.

Þá ætla jeg að minnast dálítið á styrkinn til Sigfúsar Einarssonar vegna þess, að mjer finst umsögn nefndarinnar gefa tilefni til þess. Í nefndarálitinu stendur að þessi styrkur eigi að veitast til þess að hann geti farið utan til að nema „til nokkurrar hlítar organslátt“. Get jeg eigi gert að því, að mjer finst nokkuð skrítið að maður, sem er kominn á fimtugsaldur og haft hefir söngkenslu að einkastarfi, skuli þurfa að fara utan til að læra organslátt „til nokkurrar hlítar“. Það lítur helst út fyrir, að engin „hlít“ sje á þessari ment hans. Get jeg ekki sjeð, að til neins sje að senda hann úr því hann hefir ekki getað lært til neinnar hlítar enn. Kirkjusöng hjelt jeg líka að hann gæti lært af söngbókum, án þess að fara utan. Auk þess heyri jeg sagt, að sönglíf sje hjer með daufasta móti nú, og áreiðanlega er það daufara en í fásinninu fyrir svo sem 25 árum.

Jeg get því ekki fallist á þessa tillögu að svo stöddu. Finst mjer mál þetta geta beðið betri athugunar og eiga að geymast til fjárlaganna.

Jeg get heldur ekki fallist á brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.), um dýrtíðaruppbót handa dýralæknum. Það er vitanlegt að margir embættismenn hafa ekki fengið neina uppbót á aukatekjum sínum. Hjá sumum hefir þvert á móti verið skorið af þeim. Get jeg í því sambandi getið þess, að áður fyr hafði jeg í aukatekjur af tollum og skipagjöldum fullar 2000 kr., en nú hefir því verið breytt þannig, að mjer eru borgaðar 600 kr. sem einskonar endurgjald fyrir þessa tekjur.

Dýralæknar hafa yfirleitt feit og náðug embætti. Þeir hafa miklar tekjur af hrossaskoðun og fjárskoðun og fá oft mikið fje fyrir litla sem enga fyrirhöfn. Þar að auki segja menn, að sumir þeirra hafi ekki svo litlar aukatekjur af að gefa svo kölluð „tuddarecept“. Finst mjer ekki ástæða til að landssjóður bæti þau upp á nokkurn hátt.