04.09.1919
Neðri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Einar Arnórsson:

Jeg hafði ekki ætlað að blanda mjer inn í þetta hið mikla málæði, sem nú hefir verið um hríð hjer í deildinni. En út af orðum hv. þm. Borgf. (P. O.) vildi jeg gera stutta athugasemd. Hann er eini hv. þm. í deildinni. sem hefir fundið hvöt hjá sjer til að finna að fjárveitingunni til háskólans, í sambandi við miljónarsjóð hans. Jeg skal upplýsa hv. þm. um það, að í fyrrahaust, í októbermánuði, áður en hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sigldi, voru stjórninni sendar tillögur háskólans um það, hver vera skyldu ákvæði um þennan sjóð og hvernig honum skyldi varið. Þessar tillögur hefir stjórnin haft nægan tíma til að athuga, og hefir nú fengið staðfestingu konungs á þeim, óbreyttum að efni til 29. júní síðastliðinn. Í stefnuskrá sjóðsins er skýrt tekið fram, hvernig honum skuli varið, og er það í 3 liðum, eins og menn geta sjeð.

Háskólaráðið hafði, áður en það sendi tillögur sínar til stjórnarinnar, gert áætlun um, hvernig skyldi varið þeim vöxtum, sem fyrst til fjellu. Um það hefir hv. þm. Borgf. (P. O.) talað. Stjórnin hefir nú fengið staðfestingu konungs á þessari stofnskrá. sem er bindandi fyrir háskólaráðið, þing og stjórn, og eftir henni verður auðvitað að fara. Aftur er það misskilningur að stjórnin hafi lagt samþykki mitt á áætlun háskólaráðsins um fjárhæðir til einstakra atriða ár hvert. Slíkt samþykki þurfti ekki, og hefði líka verið þýðingarlaust. Eftir stofnskránni ræður háskólaráðið eitt, hvernig vöxtum sjóðsins er varið. Stjórn eða þing á þar um engan ákvæðisrjett. Ef eitthvað það er í stofnskránni sem ekki þykir hlýða, þá má breyta því, en til þess að það verði gert. þarf að leita umsagnar og tillagna háskólaráðsins. Enda veit jeg að enginn ráðherra, og síst hæstv. núverandi forsætisráðherra (J. M.), mundi fremja slíkt gerræði, að fara að breyta stofnskránni, án þess að fá til þess samþykki háskólaráðsins. Ef ætti að greiða bæði húsaleigu- og námsstyrk stúdenta af sjóðnum, mundu allir vextirnir fara í það. En það er ákvæði í stofnskránni, sem mælir svo fyrir, að 20% skuli lagt við innstæðuna árlega. Það er skynsamlegt: því að það má búast við, að peningar falli í verði í framtíðinni. Hugmyndin ætti að vera sú með þessari sjóðsstofnun, að háskólinn gæti staðið á eigin fótum eftir 2–3 mannsaldra, svo að hann þyrfti ekki að leita til höfðingjanna hjer á þingi, sem bæði þykjast hafa úr litlu að spila, og auk þess telja alt eftir, sem veitt er til vísinda og kenslumála. Hjer ráða menn því auðvitað sjálfir, hvað þeir sjá sjer fært að veita til húsaleigu- og námsstyrks stúdenta, en verði af því klipið, þá kemur það niður á fátækum, ungum og sumum efnilegum námsmönnum. Sumir þykjast má ske hafa gert svo vel við embættismenn nú, að ekki þurfi lengur að styrkja unga menn til náms. En þó hygg jeg, að margir muni líta svo á, að slíkt sje ekki óþarfi. Því að reynslan mun vera sú, að meiri hlutinn af okkar góðu og gáfuðum embættismönnum eru þaðan runnir, sem lítið fje var fyrir. Margir, sem eru af fátæku fólki komnir, munu hafa fult eins mikið upplag, bæði til náms og embættisgæslu síðar meir. Það er ekki annað fyrir hendi, ef till. hv. þm. Borgf. (P. O.) & Co. verður samþykt, en að fátækir stúdentar fá minni styrk. En það tel jeg ekki ráðlegt. Sjóðnum mun ráðstafað samkvæmt stofnskránni og áætlun háskólaráðs, en þar er hvorki húsaleigu- nje námsstyrkur tekinn með, og verður ekki tekinn með. Hins vegar mun einhver hluti sjóðsins ætlaður til að styrkja kandidata til frekara náms erlendis.

Hv. þm. Borgf. (P. O.) talaði um, að ekki væri ljett af fjárlögunum nema 6,500 kr. fyrir þennan sjóð. Þetta er í rauninni alls kostar rangt hjá hv. þm. Hefðu þeir liðir, er hann mun eiga við, átt að standa í fjárlögum, bókakaupa- og kenslubókaútgáfuliðurinn, þá hefðu þeir orðið að hækka, ef þeir hefðu átt að koma að notum. Þess vegna segi jeg það rangt, að eigi sje meiru af ljett. Því að hefðu liðirnir átt að standa í fjárlögum og koma að nokkrum notum nú hefðu þeir átt að vera mikils til hærri en nú eru þeir, í síðustu fjárlögum. Nú á síðustu árum, síðan stríðið hófst, hefir það verið ógerningur að gefa út kenslubækur, bæði vegna þess, hve ritlaun eru lítil, og eins þess, hve bókagerðarkostnaður allur hefir aukist.

Jeg get sagt hv. þm. Borgf. (P. O.) það að ef þessir tveir liðir ættu að koma af nokkru gagni, þá yrði bókaútgerðarliðurinn að þrefaldast, og hinn líka að aukast að miklum mun. Öll bókaútgáfa er miklu dýrari en áður. Bókaverð fer auðvitað eftir útgáfukostnaðinum.

Háskólaráðið leit yfirleitt svo á að tilgangur þessa sáttmálasjóðs væri fyrst og fremst sá, að efla hjer í landi það, er alment kallast fræði eða vísindi, sjerstaklega þó innan háskólans. Það er ekki við því að búast, að mikið hafi verið gert hjer. Launakjörin svo, að eigi vinst tími til annars verknaðar en þess, sem gefur eitthvað í aðra hönd til þess að framfleyta lífinu. Og annað er það, að lítið hefir verið að hafa upp úr andlegri vinnu hjer til, þar sem bókamarkaður hjer á landi, einkum þó kenslubóka, er mjög takmarkaður.

En svo er annað, sem hv. þm. Borgf. gleymir. Ef þessi sjóður hefði ekki komið í vörslur háskólans, til hans þarfa, er ómögulegt annað en að fjárveitingavaldið hefði hlotið að veita fje handa kennurum háskólans til utanferða í vísindaskyni. Það er margt að sjá á söfnum erlendis og annarsstaðar, sem mikilsvert er íslenskum vísindum. Jeg nefni sem dæmi sögu Íslands og rjettarsöguna. Enn má nefna margt annað. t. d. í læknisfræði. Er nú ætlast til þess, að af sjóðnum sje varið vissum fjárhæðum árlega til þessa. Þeim fjárgreiðslum er því ljett af fjárlögunum.

Í öðru lagi er kandidötum, sem utan vilja fara til að framast frekar í sinni ment, einnig ætlaður utanfararstyrkur af sjóði þessum. Býst jeg við, að ef þeir fengju ekki styrk þaðan, hlyti hann að vera veittur í fjárlögum.

Annars er þessi áætlun, sem send hefir verið stjórninni, og hv. þm. Borgf. (P. O.) hefir sjeð, ekki nema rjett til bráðabirgða. En jeg get fullvissað hv. þm. (P. O. um það, að það verður aldrei rúm á þeirri áætlun fyrir þær upphæðir, er þarf til húsaleigustyrks og námsstyrks stúdentum. Það getur aldrei komið til mála.

Ef þingið lækkar tillag landssjóðs til háskólans frá því, er nefndin leggur til, þá verður það stúdentunum í óhag, og ekki öðrum. En það tel jeg engan veginn heppilegt, heldur þvert á móti. Á háskólanum eru margir stúdentar, sem eru hæfir til að fá styrk og hafa hans fulla þörf. Reynslan hefir oft orðið sú, að góðum gáfum hafa ekki jafnan fylgt mikil efni. Þvert á móti hefir landið fengið sína bestu og samviskusömustu starfsmenn úr hópi þeirra, sem fæddir voru og aldir við lítil efni og sjálfir ruddu sjer braut á námsárunum með dugnaði og trúmensku við námið. Slíkir menn hafa styrks þörf og skilyrði til að nota hann. Og þeir munu áreiðanlega, ef þeim endist líf og heilsa, gjalda þjóðfjelaginu aftur margfalt það, sem það hefir af mörkum lagt til að greiða fyrir þeim á námsbrautinni.