27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Sveinn Ólafsson:

Mjer þykja þessar umr. vera orðnar nokkuð langar.

Jeg tók það fram áðan, að fjárveitinganefnd hefði samþykt till. samgöngumálanefndar um 60,000 kr. til samgöngubóta, en nú hefir hv. frsm. fjárveitinganefndar (M. P.) komið mjer í opna skjöldu og sagt, að hún hefði að eins lagt samþykki sitt á það með því skilyrði, að styrkurinn væri hækkaður upp í 80 þús. krónur. Þetta hefi jeg aldrei skilið. Fjárveitinganefnd hefir einmitt lagt samþykki sitt á tillögu samgöngunefndar um 60,000 kr. styrk, þótt hún óski fremur, að veittar sjeu 80,000 kr., en það er ekki sett sem neitt skilyrði af hennar hálfu.

Svo var það annað atriði hjá hv. frsm. fjárveitinganefndar (M. P.), sem jeg hnaut um. Það var um þessa 2 ára styrkveitingu til flóabátsins við Ísafjarðardjúp. Jeg skal taka það fram, að mjer fyndist það rjettara að binda þann styrk, sem aðra, við eitt ár, því að sjálfsagt virðist að láta eitt yfir alla bátana ganga, nema alveg sjerstaklega standi á, og ætti stjórnin að hafa frjálsar hendur til þess að ráða fram úr þeim málum eftir því, sem best hentar.