28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Sigurjón Friðjónsson:

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) mintist á það, að meiri hluti samgöngumálanefndar hefði viljað sporna sem mest við fjárveitingum. Vil jeg minnast nokkuð á 5. og 8. lið. Raunar þarf ekki að líta á þessa liði sem nýjar fjárveitingar, því eins og menn vita, voru á síðasta þingi veittar 100 þús. kr. til ferða fyrir Norðurlandi, en þær ferðir fjellu niður. Eins hefir orðið nokkur afgangur af því, sem ætlað var Suðurlandi. Nú vill svo til, að þeir staðir, sem styrkurinn átti að ganga til, hafa nú sótt um hann á ný, eins og t. d. Ísafjörður um 11 þús. kr. viðbótarstyrk o. s. frv.

Nú er málið komið í það horf, að 11 þús. kr. eru ætlaðar til vjelbátaferða um Ísafjarðardjúp, en fyrir nefndinni lágu ekki fjárbeiðnir um meira en 70 þúsund. Hugsa jeg mjer, að þessi liður geti komið undir 8. lið, og mun jeg greiða þannig atkvæði mitt.

Um 7. lið a vil jeg taka það fram, að mjer finst ekki geta komið til mála, að kennarar geti fengið launaviðbót, nema frá þeim tíma, sem þeir eru ráðnir fastir kennarar. B-lið get jeg aftur á móti fyrir mitt leyti fallist á.