01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

76. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Einar Árnason:

Af því jeg býst við að greiða atkvæði móti rökstuddu dagskránni, vil jeg gera örlitla grein fyrir atkvæði mínu. Jeg vil ekki láta það skiljast svo, sem jeg sje mótfallinn efni dagskr., um að skora á stjórnina að undirbúa löggjöf um fasta tekjustofna handa sýslu- og sveitarsjóðum. En jeg er mótfallinn því, að þessu frv. sje vísað frá fyrir þá sök, að þingið ætlist til, að slíkt verði framkvæmt. Mál þetta hefir nú gengið gegnum Nd., og á mjög lítið eftir til þess að komast gegnum þingið, og þætti mjer illa farið, ef það yrði nú svæft, þar sem bæjarstjórn Akureyrar hefir einmitt athugað mál þetta nákvæmlega og er einhuga á því, að fá lögleiddan skattstofn þann, er frv. fer fram á. Og jeg sje ekkert á móti því, þótt samfeld löggjöf yrði samin um þetta efni síðar, að þetta frv. gangi fram nú. Jeg skal geta þess, að jeg álít svona lagaðan skattstofn ekki nauðsynlegan fyrir hreinar landbúnaðarsveitir. Niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum er þar allajafna rjettlátasti og besti grundvöllurinn, vegna þess, að hreppsnefndirnar munu venjulega hafa sæmilega glögt yfirlit yfir ástæður manna og efnahag í sínu sveitarfjelagi. Alt öðru máli er að gegna með fjölmenn kauptún og kaupstaðina. Jeg mun því, eins og jeg hefi tekið fram, greiða atkvæði gegn dagskránni, af því að hún er sett í samband við þetta mál.