03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

31. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg hefi ekki mörgu að svara, en skal þó gera nokkrar athugasemdir við þau ummæli, sem fram hafa komið.

Hv. frsm. (Þór. J.) gat þess, að ómögulegt væri að segja, hvort endurskoðunin hefði nú verið framkvæmd eins og áður, eða ekki, og er það rjett, en þó ættu að minsta kosti að vera líkur fyrir því, að svo sje, þar sem sumir sömu menn höfðu hana á hendi nú og áður. Út af athugasemdinni um gjald Íslandsbanka, skal jeg geta þess, að drátturinn á því, að málið væri lagt undir dómstólana, stafar af því, að aðiljar þurfa fyrst að vera sammála um það, hversu munurinn sje mikill, en hann mun vera 60–70 þús. kr. Hefi jeg nú heyrt einhvern ávæning af því, að bankinn mundi, ef til vill, ætla að greiða þetta án málssóknar, þó að málið sje annars frá stjórnarinnar hendi fengið í hendur málfærslumanni. Það er ekki svo, að vanrækt hafi verið að reikna út mánaðarlega hvað mikið væri úti af seðlum; það sjest í seðlabókum bankans. Ágreiningurinn er ekki heldur um það, heldur um það, hvernig reikna skuli gjaldið af seðlunum.

Sjálfsagt er að stuðla að því, að eftirstöðvarnar, sem hv. frsm. (Þór. J.) gat um, verði sem minstar, enda er nú mjög lítið óinnheimt.

Um Hvanneyrarskólann er það að segja, að mismunur sá, sem hv. frsm. (Þór. J.) talaði um. stafar af því, að ekki eru allir liðir skólafjárveitinganna tilfærðir hjá yfirskoðunarmönnum, en ekki af því, að neitt standi inni hjá skólastjóra, enda koma athugasemdirnar að því leyti ranglátlega niður, að þessi maður mun vera einn besti reikningshaldari fyrir ríkissjóð.