19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3456)

142. mál, tekjustofnar handa sveitarsjóðum, sýslusjóður og bæjarsjóðum

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Það var nokkuð minst á þetta mál hjer í hv. deild, er breyting á lögum um bæjarstjórn á Akureyri var til umræðu, og þar sem svo var að heyra þá, að háttv. deildarmenn teldu brýna þörf á lögum um fastar tekjur handa sjóðum þeim, sem till. ræðir um, býst jeg naumast við, að hún mæti mótstöðu nú.

Jeg hygg, að það hljóti að liggja ljóst fyrir öllum hv. deildarmönnum, að sjálfsagt sje að flýta setningu þessara laga sem mest, því að þegar þingið er búið að afgreiða ný lög um fasteignaskatt og tekju- og eignaskatt, sem fella úr gildi ábúðar- og lausafjárskatt, má heita, að engin ákvæði sjeu til um tekjustofna fyrir sveitarsjóði og sýslusjóði, nema ef telja má gjald af verkfærum mönnum. Hið sama verður reyndar ekki sagt um bæjarsjóði, því að allir bæirnir hafa lög um þetta efni, en þau lög eru svo mismunandi fyrir hina ýmsu kaupstaði, að full þörf mun að breyta þeim að einhverju leyti, og einkum þó að samrýma þau.

Af því að nú er þannig ástatt í hv. deild, að jeg heyri illa til sjálfs mín og því síður munu aðrir heyra þessi orð mín, hlýt jeg að hætta að fara fleiri orðum um málið.