17.03.1921
Neðri deild: 25. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (3765)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er ekki rjett hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að það sje bæði óþinglegt og óþekt að viðhafa þá aðferð um vantraustsyfirlýsingu, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir gert. Hv. þm. Dala. gleymir því, að það er ekki lengra síðan, að þessi sama aðferð var notuð, en á þinginu 1911. Raunar var hv. þm. (B. J.) ekki ánægður með þá niðurstöðu, er þá var fengin, en jeg hygg, að um óánægju hans hafi þá ráðið meiru niðurstaðan en aðferðin.

Þá gat hv. þm. (B. J.) um það í ræðu sinni áðan, að þeir þm., sem dirfðust að greiða atkvæði með þessari dagskrá, mundu þar væntanlega skáka í því skjólinu, að þeim tækist að slá ryki í augun á fáfróðum kjósendum sínum, þegar heim kæmi. Mjer datt í hug þá, hve undarlega oft bregður við, er kosningin er hjá liðin, þar sem ávarpið til kjósenda, sem hjá flestum er „háttvirtur“ fyrir kosningu, breytist hjá sumum hv. þm. í „fáfróður“, undir eins og kosningin er búin.

Jeg tel annars nóg komið af ræðum um þetta mál, og jeg hefi enga löngun til að vera langorður eða illorður í garð andstæðinga minna. Jeg skal taka það fram, að jeg tala ekki um dagskrá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Jeg hefi lýst áður áliti mínu á aðferð þessa hv. þm. (Gunn. S.). Aftur á móti skal jeg láta þess getið um dagskrá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að jeg læt mjer hana vel lynda, og eins þótt brtt. hv. þm. Str. (M. P.) á henni verði samþykt.

Annars læt jeg mjer vantraustsyfirlýsinguna í ljettu rúmi liggja, hvort hún verður samþykt eða feld. Og hvort hún stingur upp höfðinu aftur eftir lengri eða skemri tíma, þá er mjer sama, því ekki skal jeg syrgja það, þótt jeg yrði að víkja úr þessu sæti.