09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

35. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Það er gerð svo góð grein fyrir frv. þessu í aths. stjórnarinnar við frv., að ekki virðist ástæða að fara neitt verulega út í einstök atriði þess.

Styrktarsjóði kennara, sem stofnaður var með lögum 1919, hefir nú verið breytt í lífeyrissjóð, sem bygður er á sama grundvelli og lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra. Stofnfje hvorttveggja sjóðanna er jafnhátt, 50.000 kr., því að samkvæmt brjefi fræðslumálastjóra og þeirra manna, er undirbjuggu frv., er styrktarsjóður barnakennara nú orðinn 50 þús. kr. Gjald til sjóðsins er hið sama og hjá embættismönnum, en í lífeyri er útborgað eftir þessu frv. 25‰, en útborgun úr lífeyrissjóði embættismanna er 27‰.

Þetta stafar, að því er jeg held, af því, að sumir eldri kennarar fá greitt eftir eldri ákvæðum, og af hlífð við sjóðinn, og er hann því að þessu leyti betur trygður.

Breyting sú, er háttv. Ed. hefir komið fram með, er að fella burtu hámarkið af fje því, sem greiða skal af í lífeyrissjóð, en það er kr. 3000. Samskonar breyting var gerð á frv. um lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra.

Þá er og sá munur á þessum tveim frv., að í frv. um lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra er haldið í dálitlar leifar hins gamla eftirlaunafyrirkomulags, þannig, að auk lífeyrisins er ekkjum embættismanna og börnum þeirra ákveðinn dálítill styrkur úr ríkissjóði. Nú hefir háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) flutt brtt. um að koma þeim ákvæðum inn í frv. þetta. Um þetta ákvæði er það að segja, að allshn. vildi helst að allar þessar gömlu eftirlaunaleifar væru burtu numdar, en hefir þó ekki enn gengið lengra í þessu efni en það, að hún hefir gert till. um að fella burtu styrkinn til ekknanna, en láta styrkinn til barna halda sjer, og þar þá upphæð, sem stjórnin lagði til, en sem háttv. Ed. tvöfaldaði. Það sjest á brtt. háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), að honum hefir þótt ósamræmi milli þessara tveggja frv., en það ætti nú að hverfa að miklu leyti við till. allshn. Það sjest á greinargerð stjórnarinnar við frv., að henni hefir hrosið hugur við að binda ríkissjóði slíkan bagga, með því að taka þessi ákvæði upp í frv. Bæði er hjer um mjög fjölmenna stjett að ræða, sem í hlut á, og svo eru kennarar ekki nema að nokkru leyti starfsmenn ríkisins, þar sem þeir fá nokkurn hluta launa sinna úr bæjar- og sveitarsjóðum, og er nefndin stjórninni sammála um það, að ekki geti komið til mála að taka þessi ákvæði upp í frv.

Jeg held svo, að jeg þurfi ekki að fjölyrða frekar um þetta frv. Það liggur ofurljóst fyrir, og jeg vænti þess, að frv. verði samþ. óbreytt.