05.04.1921
Efri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekki mikið að athuga við meðferð hv. allshn. á þessu frv. Jeg sje, að hún hefir lagt mikla vinnu í það, enda hefir það tekið hana talsvert langan tíma. Jeg býst, sem sagt, ekki við, að mikill ágreiningur verði milli mín og nefndarinnar. En af því, að jeg fekk ekki nál. fyr en í morgun, og hefi ekki haft tíma til að athuga það eins vel og jeg hefði viljað, vildi jeg mega biðja hæstv. forseta (G. B.) að fresta umr. til morguns.

Jeg var byrjaður að lesa nál. og brtt. nefndarinnar, og virtust mjer vera nokkur atriði, sem vert væri að athuga nánar. Orðabreytingarnar geta jafnan verið álitamál. Sumir hafa talið það rjett að reyna að finna eitt orð fyrir hugtak, eins og Jón rektor Þorkelsson, en aðrir íslenskumenn, svo sem Konráð Gíslason, hafa einatt mörg orð um hugtak. En það er annað, sem þarf að athuga. Stundum getur það, sem að eins virðist vera orðabreyting, falið í sjer efnisbreytingu, og svo virðist mjer vera um sumar orðabreytingar hv. nefndar. Jeg skal fyrst nefna 8. brtt. nefndarinnar. Sú brtt. er við 16. gr. og gerir að vísu ekkert annað en flytja orðin „nema óþunguð sje af völdum bónda síns“ aftur fyrir. Í frv. er hugsunin þessi: Ekkja má ekki giftast fyr en 10 mánuðir eru liðnir frá láti bónda hennar. Það er aðalreglan. Þó má ekkjan giftast áður en þessir 10 mánuðir eru liðnir, sje hún óþunguð af völdum bónda síns, eða samvistum þeirra hafi verið slitið áður en bóndi hennar ljest, og 10 mánuðir liðnir frá samvistaslitum. Í brtt. er þessari hugsun ruglað þannig, að reglan um 10 mánaða bið frá samvistaslitum er sett við hliðina á hinni 10 mánaða biðinni, og undantekning gerð frá báðum ákvæðunum, ef kona er óþunguð. En þessi undantekning á ekki að vera frá reglunni um 10 mán. frá samvistaslitum, því að það verður að skoða jafnt forsönnun (præsumptio) fyrir því, að konan sje ekki þunguð af völdum manns síns, hvort sem liðnir eru 10 mánuðir frá dauða hans eða frá samvistaslitum.

Þá leggur nefndin til, að síðari málsgr. 10. greinar falli burt. Jeg efast um, að það sje rjett. Samskonar ákvæði mun vera í sænsku lögunum, og er sett með ráðnum huga. Og ekki virðist athugavert að hafa þessa heimild til undanþágu, ef læknadeild Háskólans álítur það hættulaust in easu. En jeg legg samt ekki mikla áherslu á þetta.

Jeg legg meiri áherslu á, að 19. gr. fái að standa óbreytt. Þar eru talin upp öll skilyrði þess, að lýsing megi fara fram. Og jeg held að það sje ágætt. Greinin er líka í samræmi við samskonar ákvæði annarsstaðar á Norðurlöndum. í Svíþjóð voru, áður en nýju lögin komu í gildi, gefin út giftingarbrjef og þar talin upp öll skilyrði. Hygg jeg, að það sje mikilsvert, að þetta sje nákvæmlega fram tekið. Frv. byggir minna en áður á svaramönnum, en vígslumönnum hefir stundum orðið hált á því, að þeir hafa ekki í tíma gætt nógu vel vígsluskilyrðanna.

Jeg er ekki viss um, að 13. brtt. nefndarinnar sje vel athuguð. Þar er það sagt ógilt, ef hjón eru gefin saman „af öðrum en lög standa til“. Þetta mætti skilja svo, að það væri annar en sá, sem ætti að gefa þau hjón saman, og gæti hann samt verið löglegur vígslumaður. En tilgangurinn er eflaust ekki sá að gera slíkt hjónaband ógilt. Nú er t. d. nóg, að það sje sóknar- eða safnaðarprestur, sem gefur hjón saman, enda þótt það sje ekki sá prestur, sem það verk ber að rjettu.

Annað vildi jeg ekki segja að sinni, en mjer þætti vænt um, ef hæstv. forseti (G. B.) sæi sjer fært að fresta umræðum til morguns.