30.03.1922
Efri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (1123)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Við síðustu umr. þessa máls hjer í deildinni var á það bent, að með því að samþ. þetta frv., sem hjer liggur fyrir, mætti spara eða mundi mega spara 14–16 þús. kr.

Hinsvegar var engin fjöður dregin yfir það, að það væri verulegum vandkvæðum bundið að hætta prentun umræðuparts Alþingistíðindanna, og það mundi víða vera óvinsælt, að landsmenn ættu engan aðgang að því, sem sagt væri hjer í þinginu.

Að vísu er því haldið fram af ýmsum, að Alþingistíðindin sjeu mjög lítið lesin, en ekki felst í því nein úrslitasönnun þess, að hætta beri að gefa umræðurnar út. Umr. koma venjulega alt of seint út, þá fyrst er áhugi manna á þeim málum, er þau ræða um, er mjög farinn að dofna, og þetta veldur mjög miklu um það, að þingtíðindin koma ekki að fullum notum. Úr þessu þarf að bæta og byrja prentun umræðupartsins þegar á þinginu og hraða henni sem mest, en til þess þyrftu að vera til aðgengilegir samningar um þessa prentun í byrjun hvers þings.

En nú verður ekki sagt, að þessi áhugi á efni þingtíðindanna sje svo afar lítill með þjóðinni. Á það bendir það, að stöðva varð útsölu tíðindanna frá fyrra ári nú fyrir nokkru, af því upplagið var á þrotum.

Það skiftir hins vegar miklu máli, að spara sem mest allan útgáfukostnaðinn, bæði pappír og prentun. Skrifstofa þingsins hefir nú með ráði forsetanna tekið sjálf pappírskaupin til þingtíðindanna í sínar hendur, og hefir orðið að því stór sparnaður á þeim lið, en örðugra gekk að fá hæfilega niðurfærslu á prentuninni. Við síðustu umr. hjer í deildinni gat þó nefndin lýst því, að fengist hefði 5% afsláttur á allri prentun þingtíðindanna — líka skjalapartsins — frá því, sem fengist hafði meðan málið var til meðferðar í hv. Nd. Þetta þótti nefndinni þó ekki nóg, og vildi fá enn þá 5% afslátt, eða alls 20% afslátt frá því, sem var í fyrra. Nú hefir þetta tekist og liggur fyrir um það skjalleg yfirlýsing frá prentsmiðjustjórunum.

Auk þess má ekki um of líta á hinn geypilega útgáfukostnað þingtíðindanna síðastliðið ár, sem stafaði af því, að þingið var með lengsta móti og hafði til meðferðar stóra lagabálka, sem þá voru flestir afgreiddir. Eftir því, sem jeg hefi komist næst, má gera ráð fyrir, að útgáfukostnaður þingtíðindanna þurfi ekki að þessu sinni að fara neitt verulega fram úr helmingi tilkostnaðarins 1921, og munar okkur um minna. Þingtíðindin verða nú miklu styttri, — skjalapartur alt að helmingi styttri —, pappír er miklu ódýrari en í fyrra, og við þetta bætist 20% afsláttur á allri prentuninni.

Sú viðleitni til sparnaðar, sem hjer hefir verið sýnd, hefir því orðið til mikils gagns og bendir til þess, að hægt muni vera að spara á fleiri liðum prentunarkostnaðarins fyrir almanna fje.

Þykir oss nefndarmönnum sem nú sje sæmilega í hóf stilt og ekki sje ástæða lengur til þess að grípa til þess örþrifaráðs að hætta prentun umræðupartsins með öllu, enda hefir það verið sýnt og sannað með fullum rökum, að mikill aukakostnaður yrði því samfara, svo gróðinn yrði lítill, en óhagnaður og óþægindi veruleg.

Jafnvel gæti svo farið, að gróðinn yrði miklu minni en enginn, ef einhverntíma yrði farið að prenta þær umræður síðar, er menn nú af fjárhagsástæðum ljetu falla niður að prenta.

Nefndin telur því, að vel og hagvænlega hafi skipast um þetta mál, og leggur því til, að frv. þetta verði felt.