17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (1129)

35. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Frsm. (Jón Þorláksson):

Það er svipað að segja um þetta frv. og hið fyrra, að efni þess er til athugunar hjá bæjarstjórninni í Reykjavík og hefir verið vísað þar til nefndar, en nefndin hefir ekki skilað nál. enn, því að tími sá, er hún hafði, er enn ekki liðinn.

Þetta eitt var nú nægilegt til þess, að meiri hl. allshn. sá enga þörf á því að afgreiða þetta frv. nú, enda sýnist fara best á því, að bæjarstjórnin fái að undirbúa þau lög, sem hana varða, áður en þau eru borin undir Alþingi. En auk þess voru allir nefndarmenn ósamþykkir um efni frv., sem gerir allmiklar breytingar á núgildandi lögum.

Nefnd manna í bæjarstjórninni var falið að semja frv. um kosningarrjett og kjörgengi til bæjarstjórnar, en frv. þetta náði ekki samþ. bæjarstjórnarinnar, en af því má ráða, hvernig meiri hl. nefndarinnar leit á þetta mál. Aðalatriðið var það, að kosningarrjettarskilyrðin væru hin sömu og til Alþingis. Hefir þetta allmikla þýðingu og mikil þægindi í för með sjer. Nægir þá að semja eina kjörskrá á hverju ári, og er það til talsverðs sparnaðar og mikill vinnuljettir, því að samning kjörskrár er erfitt verk, einkum ef kosningarrjettarskilyrðin eru mjög mismunandi. Nefndin hefir öll verið sammála í því að leggjast gegn frv., en einn af nefndarmönnum hefir skrifað undir með fyrirvara, vegna einstakra atriða.

Jeg finn ekki ástæðu til að ræða um hvert kosningarrjettarskilyrði nú, og geri það ekki nema einhverjir gefi mjer tilefni til þess.