17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (1130)

35. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Í fyrra lá hjer fyrir þinginu frv. um þetta efni. Var það samþ. í deildinni, en þó raunar mikið breytt frá því, sem það var, er það var lagt fyrir þingið, þannig, að það tók til alls landsins, í stað þess, að þetta frv. snertir að eins Reykjavík eina.

Breytingarnar, sem frv. gerir á núgildandi lögum, eru talsverðar. Fyrst er það, að aldurstakmarkið er fært niður í 21 ár. Bendir margt á, að löggjafinn telji menn þá hafa náð sæmilegum þroska, því að þá eru menn orðnir fjárráðir, mega kvongast og geta tekið að sjer kenslu samkvæmt fræðslulögunum. Sýnist því engin ástæða til þess að meina mönnum að þessu leyti að taka þátt í meðferð opinberra mála.

Önnur breytingin er sú, að eftir frv. sviftir veittur sveitarstyrkur manninn ekki kosningarrjetti.

Löggjafinn hefir nú líka áður viðurkent þetta, bæði með berklavarnalögunum frá síðasta þingi og breytingu þeirri á fátækralögunum, sem þá var gerð, en þetta nær að eins til nokkurra manna, en ekki nærri því til allra, sem nú eru sviftir þessum rjetti, t. d. þeirra, sem missa hann sökum elli, vanheilsu og ómegðar. Veit jeg, að flestir hv. þm. eru samþ. breytingum í þá átt, sem frv. fer fram á, að eins ef hægt er að búa nógu hyggilega og tryggilega um.

Þá hefir einnig verið feld niður klausan, sem nú stendur í öllum kosningalögum, að þeir skuli ekki hafa kosningarrjett, sem sekir hafi orðið um verk, sem svívirðilegt er að almenningsáliti.

Hv. allshn. hefir nú skýrt þessi orð svo, að þá sje óspilt mannorð ekki lengur kosningarrjettarskilyrði. Má vel vera, að þessi skýring sje lögfræðilega rjett, en allur almenningur á bágt með að gera sjer fulla grein þessarar skýringar. Alþýða manna áfellir oft þá, sem ekki hafa verið dæmdir af dómurum landsins, og þeir eru líka oft sýknaðir af almenningsálitinu, sem dæmdir hafa verið af yfirvöldunum, svo að það virðist ákaflega erfitt, frá almennings sjónarmiði, að gera sjer grein fyrir, hve nær menn ættu að missa borgaraleg rjettindi eftir þessum ákvæðum kosningalaganna. Mætti rekja hjer til mörg dæmi og sýna og sanna, hversu heimskuleg þessi ákvæði eru.

Um skattgjald til bæjarsjóðs er það að segja, að það er að vísu skilyrði fyrir kosningarrjetti nú sem stendur, að mönnum sje gert að greiða skattgjald til bæjarsjóðs. En það sýnist fullkomlega sanngjarnt, að þetta skilyrði sje felt niður, bæði sökum þess, að ekkert gjald er heimtað sem skilyrði kosningarrjettar til Alþingis, og oft getur líka staðið svo á, að gamlir og góðir borgarar, sem mikið hafa goldið til bæjarsjóðs, verði ófærir til þess að bera útsvar vegna fátæktar.

Á þá ástæðu hv. allshn., að frv. sje flutt gegn vilja meiri hl. bæjarstjórnar, get jeg alls ekki fallist. Jeg sje ekki, að jeg sem þm. sje á neinn hátt bundinn við vilja bæjarstjórnarinnar í þessu máli. Og út af brjefi borgarstjóra, viðvíkjandi hinu frv., sem hjer var áðan til umr., skal jeg geta þess, að jeg læt ekki borgarstjóra fyrirskipa mjer, hvað jeg skuli gera í málum, er snerta Reykjavík, heldur fer þar eftir sannfæringu minni.

Skal jeg svo láta þetta nægja, en legg áherslu á það, að hjer er um rjettlætiskröfu að ræða, sem á engan hátt á að bíða uns lokið er væntanlegri endurskoðun á löggjöf Reykjavíkur.