16.03.1922
Neðri deild: 24. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1142)

30. mál, fjárhagsár ríkissjóðs

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi litlu við að bæta greinargerð frv. og nál. Ástæðan fyrir framkomu þess er sú, að á síðastliðnu þingi komu fram sama sem tvenn fjárlög, fjáraukalög að eins með útgjaldahlið og fjárlög bæði með tekjuhlið og útgjaldahlið. En þetta kom til af því, að nærri heilt ár var á milli þingtímans sjálfs og þess tímabils, er það setti fjárlögin fyrir. Útgjaldahlið þessara fjáraukalaga nam sem næst 1 milj. kr., en engar tekjur til þar á móti. Þegar annað eins og þetta kemur fyrir, fer ekki hjá því, að slíkt geri mikla röskun á hag ríkissjóðs, eins og líka greinilega sýndi sig í fyrra. Í ár hefir að vísu verið sneitt hjá þessu með því, að stjórnin lagði ekkert frv. til fjáraukalaga fyrir þingið. Og munu líklega allir hv. þm. vera á einu máli um, að það hafi verið rjett gert af stjórninni eins og fjárhag vorum er nú komið. En ef lagaákvæðum um þetta mál verður haldið óbreyttum, og ef fjárhagur ríkissjóðs kann að rýmka, þá er ekki ólíklegt, að aftur verði það upp tekið að bera fram frv. til fjáraukalaga. Allshn. lítur svo á, að mjög örðugt sje að halda fjárhag ríkissjóðs í sæmilegu horfi undir núverandi fyrirkomulagi, jafnvel þó eitthvað kunni að rætast úr fjárhagsvandræðunum. Að vísu sjer nefndin, að nokkur óþægindi geta af þessu hlotist fyrir einstaka menn, en hún telur þau óþægindi ekki svo tilfinnanleg, að hún þess vegna vilji leggjast á móti frv., ef menn á annað borð vilja halda því grundvallaratriði að halda þing á hverju ári og að vetrinum.

Önnur nefnd hjer í þinginu hefir borið fram þál. í Sþ., sem ekki hefir enn komið til umræðu. Sú till. fer fram á það að taka upp endurskoðun á stjórnarskránni, þannig, að Alþingi skuli að eins háð annað hvert ár. Og ef þingið hverfur að því ráði, þá er ekki gott að segja, hvaða breytingu slíkt kunni að hafa í för með sjer, einnig um þetta mál. Þessi breyting er miklu víðtækari en sú, sem frv. þetta fer fram á, og því er ekki tímabært að afgreiða þetta frv. nú, ef menn hugsa til slíkra breytinga, sem þál. í Sþ. fer fram á.

Jeg hygg mig vera í samræmi við hv. meðnefndarmenn mína, þó að jeg segi, að okkur er ekkert kappsmál að halda frv. áfram, ef þál. verður samþ., en við sjáum ekkert á móti því, að því verði leyft til 3. umræðu og stöðvað þar, þar til útsjeð er um hvort þál. í Sþ. verður samþ. eða ekki.