03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (1302)

40. mál, hæstiréttur

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal verða mjög stuttorður. Jeg er ekki í sparnaðarflokknum, en jeg sje þó, að nauðsynlegt er nú að spara alstaðar þar, sem hægt er. Þó að eins þar, sem sparnaðurinn verður til hagnaðar — því að öllu má of mikið gera — og jafnvel sparnaður getur orðið til ills, ef hann gengur út í öfgar eða beinist í skakka átt. En á einu verð jeg að furða mig á þessu þingi. Flestir hv. þm. ganga í tvo sparnaðarflokka, kjósa nefnd til að koma fram með sparnaðartill., en hundsa svo allar sparnaðaruppástungur einstakra manna og sparnaðarnefndar, þegar þær koma fram. (Jak. M.: Þetta frv. er ekki borið fram af sparnaðarnefndinni). (B. J.: Það er þvert á móti gripið hjer fram fyrir hendur hennar). Jeg tel víst, að þessu máli verði vísað til allshn., en einn úr sparnaðarnefndinni er þó í þeirri nefnd. Jeg skal annars taka það fram, að jeg tel það ekki ógerlegt, að dómurunum við hæstarjett verði fækkað niður í 3, sjerstaklega ef miðdómstóll verður settur, því að það álít jeg bráðnauðsynlegt að gert verði bráðlega. Annars skal jeg ekki ganga neitt inn á málið við þessa umr., en vil að eins leggja það eindregið til að vísa málinu til nefndar.