24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (1449)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg stend upp eingöngu til að bera af mjer ósönn ámæli hv. samnefndarmanns míns og flm. frv. (St. St.). Það er ekki rjett mælt, að jeg hafi lofað að flytja frv. þetta. En til þess að skýra rjett frá málinu vil jeg leiðrjetta þegar ummæli hans, svo að hv. þd. viti, að jeg hefi ekki í þessu máli brugðist neitt ódrengilega við gagnvart samnefndarmönnum mínum.

En sannleikurinn er þessi:

Einu sinni, þegar jeg kom á sparnaðarnefndarfund, var mjer sýnd till. þessi, og farið þess á leit við mig, að jeg gerðist flm. hennar. Og sagði jeg þá, að fljótt á litið mætti sýnast, að þetta horfði til sparnaðar. Og þar sem jeg taldi sjálfsagt að styðja hverja rjettmæta sparnaðarviðleitni, taldist jeg ekki undan því, að ef annar vildi gerast meðflm., myndi jeg fús til þess að flytja hana, þótt hún fjallaði um sparnað í mínu eigin hjeraði.

En af því, að jeg hjelt, að jeg væri ekki kosinn í sparnaðarnefnd til þess að hætta að hugsa, þá tók jeg till., stakk henni í vasann og kvaðst ætla að athuga málið nánara, áður en jeg tæki fullnaðarákvörðun. Og fanst mjer það sóma mínum nær en að flýta óhugsuðum till. inn í þingið, mjer og þinginu til lítils sóma, eins og því miður hefir við brunnið hjer. Og fyrirverð jeg mig alls ekki fyrir það, þó að jeg hugsi mál mín áður en jeg ber þau fram í hinu háa Alþingi.

Þá sagði hv. frsm. (St. St.), að jeg mundi hafa orðið fyrir utan að komandi áhrifum síðan þetta gerðist, og get jeg ekki neitað því, að svo hafi verið; því að undir umr. eins máls hjer í hv. þd. sagði þessi hv. þm. (St. St.), í svarræðu til hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), þegar rætt var um styrkveitingar til Eyjafjarðarhjeraðs, að hann skammaðist sín ekki fyrir það, þó að hann vildi spara fyrir ríkissjóð, og teldi sjer enda skylt að verða við öllum rjettmætum kröfum kjósenda sinna, og þar sem mjer var það ljóst, að þessi hv. þm. (St. St.) hugsar altaf heiðarlega, þótt hann hugsi ekki á valt að sama skapi rjett, þá sá jeg, að í þetta sinn bar mjer að feta í hin hreinu fótspor hins kjósendakæra heiðursmanns, sem ávalt mun þó laus við alt kjósendadaður, þó fastur sje hann og trúr hjeraði sínu. Og þakka jeg honum handleiðslu þessa.