27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (1469)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Það mátti heita heldur mögur niðurstaða hjá milliþinganefnd þeirri í launa- og eftirlaunamálinu, sem átti að rannsaka það, hvort ekki mætti fækka sýslumönnum hjer á landi, er hún kom með þessa einu till., að tjóðra þær saman, Dala- og Strandasýslu. Þetta var þeim mun undarlegra, sem þá var á ferðinni ýmislegt fleira, sem gera átti við Dalasýslu. Furðaði mig og ýmsa fleiri stórum á þeim stefnivargi, sem þá virtist stefnt á sýslu þessa. Þó var þetta skiljanlegt þá og við að búast, af þeim mönnum, sem um málið áttu að fjalla. En á hinu furðar mig meir, að hv. þm. Str. (M. P.) skuli endilega vilja nauðga nágrönnum sínum, Dalamönnum, á þennan hátt, því að þeirra hefir jafnan verið gott í millum. Má hann og best vita, að þetta er Dalamönnum þvert um geð.

Nú er það kunnugt, að Dalasýsla er ein af merkustu sýslum þessa lands, og hefir verið svo alt frá landnámstíð. Þar var Þórður gellir, og ýms önnur stórmenni hafa búið þar — þótt jeg sleppi að nefna Sturlunga. Hefir þessi sýsla altaf verið hjerað út af fyrir sig, og er hún fyrir allra hluta sakir alt of góð til að vera hnýtt aftan í aðra sýslu, sem hún kærir sig ekki um að sameinast. Er vilji Dalamanna í þessu efni gersamlega óbreyttur frá því er mál þetta var síðast til umræðu hjer á Alþingi. Skal jeg nú lesa hjer upp tvær fundarsamþyktir, sem jeg las hjer upp á þinginu 1919. Sýna þær ljóslega vilja Dalamanna í þessu máli. Þær hljóða svo, hin fyrri:

„Fundurinn er því algerlega mótfallinn, að Dalasýsla sje sameinuð Strandasýslu, og skorar á þingmanninn að fylgja því fram, að svo verði eigi.“

Og hin síðari:

„Fundurinn mótmælir harðlega sameiningu Stranda- og Dalasýslu í eitt lögsagnarumdæmi.“

Þetta hefir ávalt verið ítrekað síðan, í hvert sinn sem mál þetta hefir komið til umr. í Dölunum, og er það því víst, að hugur Dalamanna er ákveðinn móti samsteypunni. Eins og menn vita, urðu þær endalyktir á máli þessu á þinginu 1919, að það var afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem hljóðar svo:

„Með því að eigi hefir verið leitað álits sýslunefnda Dalasýslu og Strandasýslu um frv. til laga um sameining sýslna þessara, telur deildin ekki rjett, að því verði ráðið til lykta að svo stöddu, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Nú hefir ekki síðan verið leitað umsagnar Dalamanna um þetta mál. Veit jeg þetta með vissu, því jeg hefi fyrir stundu síðan átt tal við þá um þetta, hjer á ganginum, prófastinn úr Dalasýslu og fyrverandi sýslumann Dalamanna. (Um Strandamenn er mjer aftur á móti ókunnugt). Það ætti því ekki að geta komið til greina, að þessu máli verði ráðið til lykta áður en þetta er gert. Annars eru þeir nú báðir staddir hjer, sýslumaðurinn og prófasturinn úr Dalasýslu, og geta þeir, ef menn efast um, að jeg fari með rjett mál, vottað það, að jeg hefi þetta rjett hermt. — Mætti það harðræði heita af hv. þm. að kljá svo enda á þetta mál, að sýslubúum sje ekki gefið tækifæri til mótmæla, eins og ráð hafði verið fyrir gert. Skal jeg nú leyfa mjer að lesa upp brjef, sem jeg hefi nýlega fengið frá prófasti og sýslumanni Dalamanna.

Hljóðar það svo:

Á dagskrá Nd. Alþingis í dag er frv. til laga um sameining Dalasýslu og Strandasýslu, flutt af alþm. Magnúsi Pjeturssyni.

Þetta sameiningarfrv. hefir ekki verið borið undir sýslunefnd Dalasýslu, og henni því ekki gefinn kostur á að láta í ljós álit sitt um það. Af því að við erum hjer staddir og okkur er vel kunnugt um vilja Dalamanna í þessu efni, þá getum við vottað það, að Dalasýslubúar eru eindregið á móti því, að þessi sýslusameining nái fram að ganga.

St. í Reykjavík, 27. febr. 1922.

Ásgeir Ásgeirsson, prófastur.

Þorst. Þorsteinsson, sýslumaður.

Jeg læt mig engu skifta, hvort sett verður nefnd eða ekki í þetta mál, en jeg verð að gera þá kröfu, að það verði ekki látið fara lengra áður en sýslubúum er gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós.

Vænti jeg þess, að það sjeu sparnaðarhvatir, sem liggja hjer að baki, en ekki nein ástríða, endilega að bregða kutanum á þessa einu sýslu.