22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

23. mál, prestsmata á Grund í Eyjafirði

Frsm. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg vildi bara geta þess, að jeg er algerlega sammála háttv. þm. Ak. (M. K.) um það, að hjer standi sjerstaklega á. Það má segja, að þessi kirkja sje að nokkru leyti bygð fyrir þjóðina. Hún hefir vakið athygli allra, sem hafa sjeð hana, og jafnt innlendir menn sem erlendir hafa dáðst að henni. Enda er hún eitthvert veglegasta musteri guðs hjer á landi. Til hennar hefir líka verið varið meira fje en til venjulegrar sóknarkirkju, og má því segja, að hjer hafi verið bygð kirkja fyrir 2–3 söfnuði. Þetta var líka upphaflega meining kirkjueigandans; hinsvegar vilja hinir söfnuðirnir ekki ganga að sameiningunni, nema aukið verði fjeð til viðhalds kirkjunni. Vil jeg nú vona, að þetta verði, því þótt þessi eigandi sje svo fjárhagslega staddur, að honum geri þetta ekki mikið til, þá er óvíst, að eins verði um næsta eiganda kirkjunnar.