11.04.1922
Efri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

37. mál, dýraverndun

Forsætisráðherra (S. E.):

Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, er frv. þetta komið frá Dýraverndunarfjelagi Íslands. Jeg hafði hugsað mjer að koma fram með brtt. við frv. þetta, en jeg fjell frá því.

Bak við frumvarp þetta liggur mjög lofsverður áhugi á að bæta úr hinni mjög ógeðslegu slátrunaraðferð, að skera sauðfjenaðinn, sem enn er viðhöfð víða um land.

Jeg vil því lýsa því yfir, að stjórnin mun láta framkvæma ákvæði þessa frumvarps með gætni, og láta standa í reglugerðinni ákvæði um, að aflífa megi búpening bæði með skoti og rothöggi.