22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Hákon Kristófersson:

Mjer þykir rjett að geta þess í sambandi við það mál, sem hjer er til umræðu, að vel getur verið að landið muni einnig eiga silfurbergsnámu fyrir vestan. Jeg hitti fyrir skömmu mann þaðan, sem tjáði mjer, að ferðamenn hefðu haft það fyrir reglu í mörg ár að fara upp í námu þessa og taka þaðan steina. Jeg vildi nú skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort hún vildi ekki láta rannsaka þennan stað og koma í veg fyrir, að ferðamenn notuðu sjer þetta framvegis. Með rannsókn á þessum stað kæmi það þá í ljós, hvort um nokkuð verðmæti væri þar að ræða, og ef svo væri, þá teldi jeg sjálfsagt að gera ráðstafanir til þess, að ekki væri hægt fyrir vegfarendur að nota sjer þetta, t. d. með því að byrgja fyrir námumynnið.

Þessi maður gat þess einnig, að Guðmundur nokkur Jakobsson mundi hafa keypt eða fengið námurjett þarna til 20 ára hjá stjórninni. En þó hann hafi keypt þennan rjett, þá sýnist mjer, að hann hafi glatað honum, þar sem hann hefir ekkert skift sjer af námunni í mörg ár. (Atvrh.: Hvar er náman?). Jeg vildi hafa þegar getið þess, að hún er á jörð, sem heitir Miðhús í Gufudalssveit í Barðastrandarsýslu, og mun hafa verið seld af stjórninni síðastliðið sumar.

Hvað mikið kann að vera af silfurbergi í námu þessari, hefi jeg ekki vit til að segja um. En jeg hefi, sem aðrir ferðamenn, sem þar fara um veginn, sjeð, að öll hlíðin glitrar af þessum steinum. En Frímann nokkur Arngrímsson, sem mörgum er kunnur og vit mun hafa á þessum efnum mörgum fremur, kvað þarna vera mundu allmikið silfurberg. Væri því rjett af stjórninni að láta athuga þetta. Sú rannsókn ætti helst að fara sem fyrst fram, enda sýnist það vel hægt, þar sem við höfum mann í landsins þjónustu, sem starfið gæti vel int af hendi og er þar á ofan vel trúandi til rjettdæmis í þeim efnum. Með þessum orðum mínum á jeg við Helga Hermann, sem nú hefir, eins og kunnugt er, umsjón með starfrækslu á silfurbergsnámunni í Helgustaðafjalli.