10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Jakob Möller:

Jeg ætla eigi að blanda mjer í umr. um þetta mál, en ætla aðeins að segja nokkur orð af því að mjer er kunn saga annarar þeirra jarða, sem háttv. þm. Borgf. (P. O.) talaði um. Held jeg, að það dæmi sje svo sjerstakt, að eigi sje hægt að nota það í þessu sambandi, því ef rjett er getið til hjá mjer, er að ræða um jörð, sem lenti í braski. Hún var keypt alt of háu verði af manni, sem svo ekki gat haldið á henni: afnot hennar voru ekki einu sinni nægileg til að borga vextina af verðinu. Slíkt getur komið fyrir um jarðir hvar sem vera skal, að þær sjeu sprengdar upp í okurverð, svo að þær geti ekki borið sig, og er þetta dæmi því engin sönnun á máli háttv. þm. Borgfirðinga.

En jeg held, að ef á að koma í veg fyrir, að jarðirnar fari í eyði vegna þess, að slægjurnar sjeu leigðar út, þá sje hjer verið að fara þveröfuga leið við það, sem vera á. — Leiðin er einmitt sú, að leggja á jarðeigendurna sem leigja út jarðirnar. Mætti haga því þannig, að afraksturinn yrði fyrir útsvarinu og stæði beinlínis að veði fyrir því. Með því móti mætti koma í veg fyrir, að altof mikið yrði leigt út af slægjum, en alls eigi með því að leggja á þá, sem notuðu slægjurnar. Það mundi aðeins valda því, að heyið yrði dýrara. En sannleikurinn er sá, að verð á slægjum hjer í nágrenni Reykjavíkur er svo sprengt upp úr öllu valdi, að síst er á það bætandi.

Hitt get jeg vel skilið, að sveitunum sje það þyrnir í augum, að svo fer um jarðirnar, en leiðin til að koma í veg fyrir það er að leggja á jarðeigendurna sjálfa. — Sje jeg ekki betur en að dæmi háttv. þm. Borgf. styðji það álit mitt.