12.04.1922
Efri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Forseti (B. Sv.):

Þá liggur frv. sjálft fyrir, ásamt brtt. á þskj. 238. Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) ljet þess getið, að brtt. þessi mundi varla mega komast að hjer í deildinni sakir ákvæða þingskapa, þar sem hún hefði verið feld hjer við síðustu umr., ásamt tillögu þeirri, er hún hafði verið skeytt við.

Ákvæðið í 32. gr. þingskapanna, er mælir svo fyrir, að „breytingartillögu um atriði, sem búið er að fella í deild, má eigi bera upp í sömu deild á sama þingi“ hefir vafalaust verið sett til þess að aftra því, að bornar yrðu fram tillögur hvað eftir annað, er komið hefði í ljós, að deildin væri andvíg. Slíkt væri einungis ástæðulaus tímatöf. En um brtt. á þskj. 238 er nokkuð öðru máli að gegna. Málsatriði það, sem fólgið er í tillögunni, var samþykt út af fyrir sig hjer í deildinni við síðustu umræðu þessa máls. Það liggur því skjallega fyrir, að deildin hefir verið þessu atriði fylgjandi.

Að vísu fjell síðan brtt. sú, er þetta málsatriði hafði verið felt inn í, og þar með var það einnig fallið, — en það er alveg ljóst, að brtt. í heild sinni fjell sakir annara atriða, er í henni voru fólgnar, en ekki vegna þessa atriðis, er deildin hafði samþykt.

Þegar svo stendur á sem hjer, finst mjer hart að leggja svo strangan skilning í fyrgreint ákvæði 32. greinar þingskapa, að tillögunni skuli vísað frá. Virðist mjer það gagnstætt tilætlun þingskapa að taka svo fram fyrir hendur deildar, að aftra henni að ganga þann veg frá tillögum sínum eða frumvörpum, er ætla má af því, sem fram hefir komið, að hún telji best henta. Því er það úrskurður minn, að brtt. á þskj. 238 megi koma hjer til atkvæða.

Brtt. 238 feld með 14:13 atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

já: M. K., M. P., Ó. P., Þorl. G., Gunn. S., Jak. M., J. A. J., J. B., J. S., J. Þ., M. G., M. J., B. Sv.

nei: P. O., P. Þ., S. St., St. St., Sv. Ó., Þorl. J., Þorst. J., Þór. J., B. H., E. Þ., E. E., H. K., Ing. B., L. H.

Einn þm. (B. J.) fjarstaddur.

Frv. samþ. með 14:12 atkv. og endursent Ed.