09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

139. mál, fjáraukalög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg á eina brtt. á þskj. 606, um ferðastyrk handa sögukennaranum við háskólann, til þess að sækja sagnfræðingafund í Kristjaníu. Svo er mál með vexti, að tveimur mönnum úr hverju landi á Norðurlöndum hefir verið skrifað, og skyldu þeir vera í stjórnarnefnd fundarins og boða hann. Hjer hefir próf. Páli Eggert Ólasyni og dr. Jóni Þorkelssyni verið skrifað. Það hefir nú orðið að samkomulagi, að dr. Páll færi, því að óviðkunnanlegt væri, að hvorugur þeirra kæmi á fundinn. Jeg er nú á því, að það sje ekki gerlegt að sinna ekki þessu boði, og því hefi jeg borið fram þessa styrkbeiðni og vænti þess, að hv. deild samþykki hana, þar sem hjer er að ræða um að koma fram fyrir landsins hönd. Jeg bar hjer fram við 2. umr. fjáraukalagafrv. svipaða styrkbeiðni fyrir berklalækninn, til þess að sækja fund til útlanda, og var hún samþykt.