12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (1994)

19. mál, vitabyggingar

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg skal aðeins geta þess, út af ræðu háttv. 2. þm. Skagf. (JS), að jeg tók þetta fram sjálfur mjög greinilega við 1. umr. málsins hjer í deildinni. (JS: Jeg var þá ekki viðstaddur). Jeg taldi einmitt vafasamt, hvort jeg ætti að leggja frv. fram eins og það er, af því að farið er út fyrir fjárveitingarvaldið, en þótti þetta þó ekki ógerlegt, þar sem búið var áður að gera slíkt hið sama með brýr og síma. Jeg benti einnig á það, að taka mætti samskonar upphæðir upp tekjumegin í fjárlögin á hverju ári, og getur þá þingið þar með ráðið fyrir málinu í einstökum atriðum, en frv. hins vegar skapað betra heildaryfirlit um vitakerfið yfirleitt.