03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

55. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Í lögum um útflutning hrossa frá 1907, er ákvæði um, að eigi megi flytja hross á þilfari nema á tímabilinu frá 1. júní til ágústmánaðarloka og eru sektir ákveðnar 10–1000 krónur, ef út af er brugðið. En 1915 er sú breyting gerð á lögunum, að það er algerlega bannað að flytja út hross á tímabilinu frá 1.nóv.–1. júní. Síðan lög þessi komu í gildi hefir allur útbúnaður í skipunum, sem flytja hross, stórum batnað. Eftirlitsmenn hafa verið skipaðir til þess að athuga ástand hrossanna á hverjum útflutningsstað, og kyn og meðferð þeirra hefir talsvert verið bætt, og meðferð hrossanna á skipum er nú miklu betri en áður. Að þetta ákvæði laganna hafi eigi reynst heppilegt, sjest best á því, að landsstjórnin hefir á síðustu árum oft neyðst til að veita undanþágu undan útflutningsbanninu. En tilgangurinn með frv. því, er hjer liggur fyrir, er sá, að koma í veg fyrir, að oft þurfi að veita undanþágu frá lögunum, enda er fullkomlega ástæða til þess, því að búast má við, að landsstjórnin haldi áfram uppteknum hætti um undanþágur, þegar þeirra er óskað. Er í mesta máta óviðkunnanlegt að vera þannig sí og æ að veita undanþágur undan skýlausum ákvæðum laga. Nefndin, sem hafði frv. til athugunar, var sammála um það, að með því væri stefnt í rjetta átt, og leggur til, að hv. deild samþykki það með breytingum þeim, sem eru á þskj. 238. 1. brtt. stafar af því, að frv. er nú aðeins ein gr., en eftir 4. brtt. nefndarinnar er ætlast til, að greinarnar verði 2, og er 1. brtt. nauðsynleg af þeim ástæðum. Nefndin hefir eigi getað fallist á tímatakmark frv., og hefir hún því komið fram með breytingu á því, þannig, að hún hefir lengt það að framan um hálfan mánuð, en leggur til, að eigi sje algerlega bannað að flytja út hross í apríl og maí. Komst það ákvæði inn í frv. í Nd., að aldrei mætti flytja hross út í apríl og maí, en slíkt er í mesta máta fáránlegt. Álít jeg eigi meiri hættu að flytja hross út á þeim tíma heldur en á öndverðum vetri eða seint á haustin. Nefndin vill, að tíminn, sem hannað er að veita undanþágu, sje helst enginn, en ef hann er nokkur, þá um miðjan vetur, er mestra veðra er von, og álítur, að aldrei verði bundið við neinn sjerstakan mánaðardag, hve nær heppilegt sje að flytja út hross eða ekki. Auðvitað er ætlast til, að allrar varúðar sje gætt um það að taka eigi illa útlitandi hross til útflutnings. Á Norðurlandi eru hross síst lakar útlitandi í apríl–maí en í júní, en vel má vera, að þessu sje öðruvísi farið á Suðurlandi. Getur vel komið til mála, að ef hrossin væru flutt út snemma á vorin, þá tækju þeir menn hrossin inn, sem ætluðu sjer að selja, en það eru mörg dæmi til þess, að hrossin sjeu eigi í góðu ástandi í júní, og er útflutningurinn þá eigi tryggari en þó fyr sje. En auðvitað á að vera eftirlit með þessu.

Það hefir komið fram brtt. frá hv. 4. landsk. þm. (JM), aftan við 4. brtt. nefndarinnar, þess efnis, að lögin skuli aðeins gilda til 31. mars 1924. Jeg skal taka það fram, að jeg gat eigi borið mig saman við hv. samnefndarmenn mína um þetta atriði. En jeg fyrir mitt leyti get eigi sjeð neina nauðsyn á þessum viðbæti; hann lengir aðeins greinina og annað ekki, því ef næsta þing vill breyta lögunum, þá getur það auðvitað gert það án viðbætisins. Yfir höfuð er mjer illa við, þegar verið er að tiltaka, hve lengi lög eigi að gilda; hefir það oft orðið til þess, að þingið hefir breytt slíkum lögum í flaustri, einungis út af þesskonar ákvæðum.