24.04.1923
Efri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (2401)

137. mál, byggingarnefnd landsins

Jón Magnússon:

Jeg ætla ekki að fara langt út í getsakir hv. 5. landsk. þm. (JJ) í minn garð. Það er eins og vant er í minn garð; bæði hjer í deildinni og í blaðinu, sem þessi hv. þm. (JJ) stendur að, er látlaust alið á því, að jeg sje hræddur um að jeg missi spón úr aski mínum, ef jeg hætti að leigja landssjóði. Jeg skal þá upplýsa, að húsaleiga sú, er áfengisverslunin geldur mjer, er ekki tvöföld við það, er goldið var fyrir sömu herbergi fyrir ófriðinn, en flestir húseigendur hjer munu hafa sett leiguna miklu meira upp.

En það er sama sagan. Þessi hv. þm. (JJ) er altaf, með tortryggni, róg og blekkingar í minn garð. (JJ: Ósvífni!). Það er ósvífni hjá hv. 5. landsk. (JJ), en ekki mjer.

Það mun rjett hjá hv. frsm. (SHK), að leyft hafi verið með þeim skilyrðum að setja vöruskýlið Nýborg á þennan stað, að bærinn gæti látið flytja það burt, þegar honum sýndist þörf. Svo er og með önnur skýli á hafnarbakkanum. Það mun hafa vakað fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur, að nokkur aukin brunahætta kynni að stafa af þeirri notkun á húsinu, sem ríkisstjórnin hafði fyrir augum, en loforð eða vilyrði hafði verið veitt brunabótafjelagi því, sem vátryggir hús bæjarins, að ekki væri bygð stór timburhús á ákveðnu svæði. Vitaskuld varð það loforð ekki bindandi, því um líkt leyti sagði umrætt brunabótafjelag upp ábyrgðinni, en byggingarnefnd bæjarins var samt sem áður á móti breytingunni, vegna hræðslu við eldhættu, sem af henni myndi stafa.

En meðal annara orða: landsstjórnin hefir skýlausa heimild til þess að láta gera breytinguna, hvað sem byggingarnefnd segir, og virðist hafa verið því síður áhorfsmál fyrir stjórnina að nota þessa heimild, sem bæjarstjórn var því ekki mótfallin. Hvers vegna notar stjórnin ekki þessa heimild? (JJ: Stjórnin úrskurðaði.) Stjórnin úrskurðaði aðeins um valdssvið bæjarstjórnar og byggingarnefndar þeirra á milli. Hún notaði ekki vald sitt til þess að fella úr gildi úrskurð byggingarnefndar, sem jeg er sammála hv. 5. landsk. þm. (JJ) um, að hafi ekki verið á fullum rökum bygður. Hefði jeg verið ráðh., mundi jeg ekki hafa hikað við að breyta húsinu, þrátt fyrir andmæli byggingarnefndar. Til þess hefði verið ótvíræð heimild. Og til þess að stjórnin geti gert þetta, þarf engin ný lög. Er því frv. þetta óþarft frá þessu sjónaratriði.

Það er ekki að undra, þótt allshn. hafi lagt til, að þessu frv. sje vísað til stjórnarinnar, því að mál þau, sem Reykjavíkurbær hefir beðið um, að afgreidd yrðu á þessu þingi, komast sennilega engin eða sama sem engin fram, vegna þeirrar gagngerðu endurskoðunar á málefnum kaupstaðanna, sem í ráði er að fram fari á næsta þingi. Telur nefndin vera heppilegt, að heildarlög verði samin fyrir Reykjavík en önnur sett fyrir málefni allra hinna kaupstaðanna í sameiningu. Tíðkast þessi aðferð víða erlendis, að höfuðstaðurinn sje sjer, en hinir kaupstaðirnir saman, enda óþægilegt, að sitt hvert ákvæði standi fyrir hvern kaupstað, nema sjerstaklega standi á vegna staðhátta.