12.03.1923
Efri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Jónas Jónsson:

Það verður aðeins örstutt athugasemd. Það er stefnumunur milli mín og andstæðinga minna, sem ljóst kemur fram í þessu máli. Það, sem háttv. 2. þm. S.-M. (SHK) segir, er bygt á algerðum misskilningi. Jeg hefi alls ekki dróttað að læknum, að þeir vildu ekki fyrirbyggja sjúkdóma, en jeg held fram, að margir geri sýnilega ekki neitt til að fyrirbyggja þá, heldur lækna þá, sem þegar eru orðnir sjúkir. Þetta er ofurskiljanlegt. Sumir hugsa fyrst og fremst um að bæta orðið böl, aðrir að fyrirbyggja óorðið böl, sem vofir yfir. Það fer eftir lífsskoðunum hvers og eins.

Hæstv. forsrh. (SE) telur það óþarfa eyðslu að eyða 1500 kr. í að rita greinar um kynsjúkdóma í blöð eða tímarit, en sami ráðherra er ekki hissa á að tala um að kosta lækningar að meira eða minna leyti, það, sem gæti numið 18000 kr. og þar yfir.

Það, sem okkur ber á milli, er, að andstæðingar mínir vilja ekki láta fræða fólk um þessi mál. Þeir um það. Þeir verða að verja þá lífsskoðun sína og það álit sitt, að ekki sje eyðandi nokkrum hundruðum kr. árlega til að sýna þjóðinni, hve mikil hætta henni stafar af þessum sjúkdómum. Það var talað um, að það væri afarmikill vandi að skrifa vel um kynsjúkdóma. En væri heilbrigðisstjórn ekki innan handar að fá annað hvort Guðmund Hannesson eða Steingrím Matthíasson eða aðra þeirra jafnoka til að rita um sjúkdómana? Hvað er ljótt við það að láta menn vita, að veikindin sjeu í landinu? Það eru alt of margir, sem vita lítið um þau. Háttv. 2. þm. S.-M. (SHK) taldi það ekki skemtilegt, að það frjettist um sjóþorpin, að þessi og þessi hefði lekanda. En hvað er skemtilegt við það að láta þann hinn sama smita? Það hvílir talsverður ábyrgðarhluti á þeim, sem mæla leyndinni bót. Jeg get sagt háttv. 2. þm. S.-M., að jeg hefi átt tal við ýmsa lækna í bænum, er hafa verið mjer samdóma um það, að þörf sje á fræðslu í þessum efnum og að öll leynd sje til hins verra. Ef á annað borð á að draga menn fyrir lög og dóm fyrir að hafa smitað, þá skil jeg ekki, hvaða ástæða er til að vera hörundsár, þótt einhver einstaklingur yrði álitinn hafa þessa veiki. Aðalatriðið er, að þjóðin viti, hvaða víti hún hefir að varast.