12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

1. mál, fjárlög 1924

Sveinn Ólafsson:

Jeg á enga brtt. við 16. gr. nje heldur næstu greinar þar á eftir. Þótt jeg hefði í raun og veru tilhneigingu til þess að bera fram till., þá hefi jeg þó látið það ógert, af því að jeg hefi yfirleitt viljað sneiða sem mest hjá öllu því, er hefir í för með sjer aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. En jeg á brtt. við 21. gr., þrjá nýja liði, eða a, b og c. Eins og sjest, er þar ekki um fjárveitingar að ræða, heldur lán til fyrirtækja, sem nauðsynleg mega teljast. Jeg skal þó geta þess um tvo fyrstu liðina, að þó þeir verði samþyktir, þá eru ekki ýkjamiklar líkur til þess, að þessar lánsheimildir verði notaðar, vegna ýmsra örðugleika, sem standa í vegi fyrir bráðum framkvæmdum.

A-liðurinn er lánsheimild vegna stofnunar klæðaverksmiðju á Reyðarfirði, alt að kr. 200000, þó ekki yfir stofnkostnaðar. Stofnun þessa fyrirtækis fjekk lítilsháttar fyrirheit á síðasta þingi um lán, þó ekki nema 50 þús. kr. En nú horfir málið nokkuð öðruvísi við en í fyrra. Er það sjerstaklega vegna álits ullariðnaðarnefndarinnar, sem nú er nýlega framkomið. En þar sem jeg býst við, að fæstir hv. deildarmenn hafi lesið þetta álit, þá skal jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um höfuðniðurstöðu nefndarinnar. Aðalniðurstaðan er þá sú, sem þegar hefir verið nefnd af öðrum háttv. þm., að aðaltillaga nefndarinnar er sú, að rjettast og eðlilegast muni vera að stofna eina stóra ullarverksmiðju, er fullnægt geti þörfum alls landsins og jafnframt unnið eitthvað af dúkum til sölu á erlendum markaði. Þó haldi Gefjun áfram starfi sínu.

Aðalvonin til þess, að þetta komist í framkvæmd, er sú, að allur almenningur væri samtaka að leggja af mörkum til þessa, með því að hver bóndi lofaði nokkru af ull sinni til verksmiðjunnar um 3 ára bil.

Nefndin gerir ráð fyrir, að verksmiðjan kosti um kr. 1800000. Þessi allsherjarhugmynd er mjer að vísu ekki ógeðfeld. Hún er þvert á móti aðlaðandi, og nefndin hefir mikið fyrir sjer í því, að þessi leið væri æskileg, ef byggja mætti á því, að fjöldinn væri svo samvinnuþýður og hrifinn af heildarhugmyndinni, að hann vildi leggja fram fjeð. En jeg efast um, að þjóðin sje svo þroskuð til samvinnu, að hægt verði að koma þessu fyrirtæki í framkvæmd á þennan hátt.

Nefndin miðar í áliti sínu við stofnun Eimskipafjelags Íslands og virðist ætla, að þessi verksmiðjuhugmynd liggi þjóðinni jafnnærri. Þá var þjóðin að vísu samtaka, en líkur til þess, að þessu máli yrði nú eins vel tekið, eru ekki miklar. Enda er komið í ljós, að menn hafa mjög víða týnt trúnni á Eimskipafjelagið, vegna þess að þeim hefir ekki þótt það svara vonum í framkvæmdinni. Vestfirðingar hafa jafnvel viljað koma á öðru eimskipafjelagi hjá sjer, þó þeir hafi haft alment meiri not af fjelaginu en sumir aðrir landshlutar, og raddir hafa heyrst eystra um þetta sama. Menn líta svo á, að þetta sje orðið reykvíkst fyrirtæki, sem menn úti um land hafi engin áhrif á með atkvæði sínu. Býst jeg því ekki við, að þessi ullarverksmiðja komist til framkvæmda á næstu árum á þann hátt, sem nefndin ætlast til. Aðaltillaga nefndarinnar gerir ráð fyrir tveim verksmiðjum, en varatill. fyrir fleirum. Nefndin talar ekki um hvað margar, en nefnir 2 staði á Austurlandi sem tiltækilega staði fyrir ullarverksiniðju. Jeg hefi grenslast eftir því, hvað klæðaverksmiðja eins og Gefjun muni kosta, og fengið það svar, að hún mundi kosta 5–6 hundruð þúsund kr., en þó talsvert fullkomnari en Gefjun, vandaðri og með fleiri vjelum. Jeg býst nú við, að langt verði þangað til menn taka höndum saman um að stofna eina stóra verksmiðju, og því fari svo, að reistar verði 3–4 í landinu. Væri þá sú stærsta hjer nálægt Reykjavík, og mundi láta nærri, að 3 verksmiðjur á borð við Gefjuni kostuðu jafnmikið einni stórri. En væru alls 4 á landinu, mundu þær landshlutunum notadrýgstar, vegna heimilisiðju, og líka fólkinu mest að skapi.

Nú er mjer ekki kunnugt, að byrjað hafi verið að safna fje til svona fyrirtækis annarsstaðar en á Austurlandi. Í fyrra var búið að safna um 80 þús. kr., en þá kom nokkurt hik á fjársöfnunina, vegna þess hve mjög Alþingi þá skar við nögl lánsheimild til fyrirtækisins. Einnig voru þá sjerstakir erfiðleikar um að láta fje af hendi. Nú hefir verið hafist handa af nýju um fjársöfnun 2–3 síðustu mánuðina.

Þegar jeg legg til, að lánið sje bundið við Reyðarfjörð, þó fleiri staðir geti komið til mála, þá er það gert með það fyrir augum, að ekki sje á reiki með staðinn. Jeg hefi áður tekið það fram, og er það líka tekið fram af nefndinni, að þó ekki sje svo mikill munur á aðstöðu til vatnsafls, þá er á ýmislegt fleira fremur að líta, svo sem að greiðar samgöngur sjeu við staðinn o. fl.

Á svæðinu milli Langaness og Skeiðarársands búa um 10 þús. manna, sem mundu hafa not af þessari klæðaverksmiðju, og að minsta kosti geta notið hennar betur en verksmiðju í öðrum landshluta. Eins og kunnugt er, þá hafa tvær verksmiðjur starfað hjer á landi. En Austurland hefir lítil not haft af þeim. Áður — fyrir stríð — höfðu menn þar samband við norskar ullarverksmiðjur, en þau viðskifti fjellu niður á stríðsárunum, en hafa nú verið tekin upp aftur.

Innlendu verksmiðjurnar hafa verið lítið notaðar, vegna erfiðra samgangna, og viðskifti við þær einnig reynst dýrari en viðskiftin við Noreg. Einnig óvandaðri og lakari vinna og verri skil. Þannig höfum við mátt horfa á, að stórupphæðir hafa farið úr landinu, vegna þess að ekki var fært að nota innlendu verksmiðjurnar, nema með afarkostum.

Nú er það tilgangurinn meðal annars með stofnun klæðaverksmiðjanna að styðja heimilisiðnaðinn, með því að menn geti fengið ull sína kembda í lopa eða plötu svo nærri sjer, að sæmilega greiðlegt sje að ná til vjelanna. Nefndin telur kembingavjelar verða of dýrar, nema í sambandi við klæðaverksmiðjur. En í sambandi við þær valdi þær engum kostnaðarauka.

Jeg tók fram í upphafi, að jeg byggist tæplega við því, að lánsheimildin yrði notuð að sinni, þótt samþykt yrði. Veldur því, að engir möguleikar verða á því að afla 2/3 kostnaðar, eða alt að 400 þús. kr., nema því aðeins, að næsta vertíð verði mjög góð, því að á henni veltur getan að næstu. Hins vegar mundi samþykt lánsheimildarinnar verða til þess að efla áhugann fyrir þessu og meira mundi að því unnið. Er jeg ekki vantrúaður á, að fyrirtæki þetta mundi borga sig, því að eftir áætlun glöggra og fjárgætinna manna, þótt ekki sjeu verkfræðingar eða sjerfræðingar, mundi verksmiðjan bera sig vel, ef hún ætti ítökin á áðurnefndu svæði. Er það og ekki ósennilegt, þar sem um 10 þús. manna mundu eiga viðskifti við hana.

Ástæðan til þess, að jeg fór um þetta svo mörgum orðum, er sú, að þessi till. mín sætti mótmælum frá háttv. þm. Dala. (BJ). Raunar held jeg, að ummæli hans muni nú fremur styðja hana heldur en hitt, svo geyst fór hann í mótmælin. Held jeg það af því, að hann var að vega till. mína móti brtt., sem hann á sjálfur. um fjárframlög til ákveðins klæðskera hjer í Reykjavík. Hefir hann og sennilega lagt á móti klæðaverksmiðjunni á Austfjörðum sökum þess, að hann byggir alla von sína á Álafossi. Skil jeg vel, að hann vilji rjetta hjálparhönd þessu fallandi fyrirtæki, einkum þegar þess er gætt, að eftir upplýsingum frá háttv. 1. þm. Skagf. (MG) ætlar Íslandsbanki, sem á 2. veðrjett í Álafossi, að leysa 1. veðrjett, sem ríkissjóður hefir í henni, og reka hana svo fyrir eigin reikning: er því stuðningur háttv. þm. (BJ) í raun og veru stuðningur við Íslandsbanka. Er ekkert nema gott við því að segja, að bankanum verði hjálpað til þess að hafa meira upp úr þessu veði sínu en það er í raun og veru vert, en um almenningsgagn af því skal hjer eigi ræða.

Nú vill háttv. þm., að klæðskeri einn hjer í bænum verði styrktur til að föt úr dúkum þessarar verksmiðju handa innlendum mönnum. Er það líka í þágu bankans, því að dúkarnir munu ekki vel hæfir til útflutnings, og eru yfirleitt varla notandi nema í slitföt, enda fremur óútgengilegir. Meðal annara góðra boða hafði þessi háttv. þm. tilboð frá þessum klæðskera um að selja fötin tilbúin fyrir 85 kr. Eru nú að vísu dæmi til, að útlend föt tilbúin hafa fengist, og fást, fyrir mun lægra verð, og hefir oft orðið til þess, að menn hafa látið glæpast til að taka það ódýra, og er því hæpið, að þessi ráðstöfun fyrirbyggi innflutning fata. Hjálpin til bænda og búenda af þessum skraddarasaum gæti því mishepnast, þótt enginn efist um, að viljinn hjá háttv. þm. Dala. sje góður á sinn hátt. Skal jeg svo ekki tefja tímann meira á því að kljást við háttv. þm. Dala., þótt ýmislegt fleira sje við orð hans að athuga.

Kem jeg þá að 2. brtt. minni, um 40 þús. kr. lánsheimild til að kaupa jarðvöðul fyrir. Á lánið að verða notað eftir till. Búnaðarfjelags Íslands, og þá líklega helst Austanlands, ef Búnaðarsamband Austfjarða vildi ráðast í kaupin.

Skilyrði fyrir vjelyrkju munu öllu betri á Austurlandi en á Vesturlandi, og jafnvel á mörgum öðrum svæðum. Eystra eru stór svæði, einkum á Fljótsdalshjeraði, sem vafalaust eru vel fallin til vjelyrkju, og tel jeg því eigi ólíklegt, ef reynslan á næsta sumri með vjelplógum yrði góð, að Búnaðarsamband Austurlands rjeðist í að kaupa jarðvöðulinn, ef lánsheimildin væri til. En jeg er jafnframt sannfærður um það, að það rjeðist ekki í það fyrirhyggjulaust. Jeg var nú svo óheppinn, eða ef til vill heppinn, að háttv. þm. Dala (BJ) mælti einnig á móti þessari tillögu minni, eins og þeirri fyrri, og vildi aftra kaupum á jarðvöðli til Austurlands. Hann er búinn að söðla um í þessu jarðraæktarmáli og beitir sjer sem fastast á móti kaupum á þúfnabana, sem hann hefir nú skírt um og nefnir búnaðarbana. Telur hann nú þetta áhald, sem hann lofaði svo mjög á síðasta þingi, aðeins vera til tjóns og fordjörfunar, þegar það skal nota austanlands. Jeg held samt að reynslan mótmæli þessu, og líkurnar tel jeg einmitt miklar til þess, að jarðvöðull komi hjer að miklu gagni, þegar meiri reynsla fæst, eins fyrir því, þótt nokkur óhöpp hafi komið hjer fyrir við fyrstu tilraunir.

Jeg vil nú benda háttv. þm. Dala. á það, að einn maður eystra, sem hann mun þó að nokkru meta, síra Magnús Blöndal í Vallanesi, hefir unnið kappsamlegar en nokkur annar að jarðvöðulskaupum til Austurlands. En hann er allra manna þar, og þótt víðar sje leitað, skygnastur á alt, sem að jarðrækt og búnaði lýtur. Jeg bendi á þetta af því, að jeg hygg, að mönnum sje kunnugt, að hann er fremri og athugulli en flestir aðrir um þessa hluti. Kaup á jarðvöðli eystra eru fyrst og fremst komin undir Búnaðarsambandi Austurlands, hvort það vill ráðast í kaupin. En það mun haga sjer eftir reynslu þeirri, sem fæst um hina vjelplógana nú á mesta sumri. Í öðru lagi munu slík kaup mjög fara eftir því, hvernig fer um ræktunarlagafrv. það, sem fyrir þinginu liggur. En einnig mun árferði og afkoma ráða hjer miklu. Verði reynslan góð, má búast við, að Búnaðarsamband Austurlands ráðist í framkvæmdir, en ekki ella.

Jeg tel því hættulaust, að lánsheimildin standi í fjárlögunum; hún eyðir það engu. En þm. Dala. þarf Búnaðarsamband Austurlands ekki að nota fyrir ráðgjafa

Þá kem jeg að e-lið brtt., um 25 þús. króna lánsheimild til viðbótarbyggingar skólans á Nesi í Norðfirði. Jeg var svo lánsamur, að háttv. þm. Dala. (BJ) mælti einnig á móti þessu, og sagði það þó ekki vera af mannvonsku. Má vera, en það mun því síður hafa verið af góðvild. En fyrst háttv. deild var svo sanngjörn í gær að veita dálítinn styrk til skólans, styrk, sem þm. (BJ) mælti einnig á móti, þótt ekki væri nema um 6000 krónur, þá treysti jeg því, að hún ljái einnig þessu fylgi sitt. Þetta er aðeins nokkur hluti þess, sem þarf til að koma upp þessari byggingu — líklega tæpur helmingur. Háttv. þm. Dala. bygði mótmæli sín gegn þessari lánsheimild á því, að ríkissjóði væri hætta búin af svona fordæmi, því að margir mundu á eftir koma. Það er dálítið óvenjulegt að heyra þennan háttv. þm. tala um fordæmi af þessu tægi. Hann mun með tillögum sínum fyr og síðar hafa skapað urmul slíkra fordæma.

Jeg þykist ekki hafa verið ógætinn í fjárkröfum fyrir mitt hjerað, en mjer finst reyndar skylt að líta á það, að hjer á í hlut stærsta kauptún austanlands og fjölmennasta þorp í þeim landshluta, og að það má teljast nær skólalaust, eða rjettara sagt, miklu ver sett um þessa hluti en flest öll önnur kauptún og bæir. Þetta kauptún hefir setið hjá og beðið mörg ár, á meðan ríkissjóður hefir fullnægt kröfum og þörfum annara, og á nú alls ekki að gjalda þess, að svo hefir verið um tíma, sakir kyrstöðu í skólabyggingum. Hjer er heldur ekki um neina hættu eða útgjöld að ræða fyrir ríkissjóð. Hjer er aðeins um lán að ræða, og svo er hamingjunni fyrir að þakka, að kauptún þetta er líklegt til að geta valdið þessu láni auðveldlega. Hins vegar er byggingarstyrkurinn, sem háttv. þingd. veitti í gær til skólans, svo lítill, að líklega nemur aðeins 1/10 af byggingarkostnaði, móts við 1/3 sem venjulega hefir verið veitt til slíkra bygginga. Vænti jeg, að háttv. deild styðji þessa ósk og geri ekki ókleift að koma upp byggingunni, með því að neita um lánið. Það væri fullkomið ósamræmi við niðurstöðurnar frá í gær.

Jeg hefði að sjálfsögðu, eins og aðrir, getað minst hjer á brtt. nefndarinnar, og hafði líka hugsað mjer það, en dagur er að kvöldi kominn, svo að jeg verð að takmarka mig um þetta og fella margt niður, sem jeg vildi sagt hafa. Hæstv. atvrh. (KIJ) gat þess, að lánsheimildir þessar, sem farið væri fram á, væru þýðingarlitlar, vegna fjárskorts, og að ýmsum eldri heimildum væri ófullnægt. Jeg skil það vel og veit, að margar af þessum lánsheimildum koma aldrei til framkvæmda eða verða notaðar, vegna þess, að ekki verður fullnægt þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir þeim; t. d. um fjárframlög á móti þeim, eða þvílíkt. En þau lán þyngja þá heldur ekki á viðlagasjóðnum.

Undanfarið hefir sá fyrirvari verið hafður í fjárlögunum, að lánin veittust, ef fje væri fyrir hendi. Þeim fyrirvara er nú slept. En þá verður væntanlega að líta svo á, að stjórnin meti lánin eftir þörf og áreiðanleik lánþega. Og við það mat vil jeg í þessu tilfelli sætta mig, ef til kemur.

Þá var það till. á þskj. 330, sem ástæða væri til að minnast á, en jeg ætla að fresta því um stund og minnast á annað.

Einhver háttv. þingdeildarmaður taldi skinnasútunarverksmiðju þá vafasamt fyrirtæki, sem fjárveitinganefnd leggur til, að ríkissjóður styrki með fje og ábyrgð, nærri því eins miklu og jeg bið um til klæðaverksmiðju á Austurlandi. Jeg verð að taka í sama streng og álíta það fyrirtæki vafasamara en ullariðju.

Nokkur reynsla er þegar fengin fyrir loðskinnasútun hjer á landi, í Reykjavík, Akureyri og Seyðisfirði, Og þó að sútun loðskinna framan af virtist gefa nokkurn árangur, þá eru horfur um markað þeirra skinna engan veginn glæsilegar nú. Ef þetta væri eins álitlegur iðnaður og talað hefir verið um hjer í umræðunum, þá yrði hann að byggjast á annarskonar skinnavöru, einkum sútun lambskinna, og svo þeirri meðferð skinnanna yfirleitt, að nota mætti þau til fíngerðari smávarnings.

Enn sem komið er virðist ómögulegt að segja, hverjar líkur eru fyrir markaði þvílíkrar skinnavöru, og mjög óvarlegt er að byggja á því, að hann sje þegar til og viss. Þess vegna álít jeg nokkuð djarft að kasta miklu fje úr ríkissjóði, bæði sem styrk og láni, til fyrirtækja, sem eigi eru meira þekt og reynd Það má vel vera, að súta megi skinn á þennan hátt og að fyrirtækið verði arðvænlegt; en jeg tel allsendis óviðeigandi að halda því fram, að þetta sje ábyggilegt eða trygt meðan alla reynslu vantar, og að betra sje að verja fje í það en ullarverksmiðju. Ef jeg ætti fje fyrirliggjandi, mundi jeg telja það tryggara í ullariðjufyrirtæki en í sútunarverksmiðju.

Jeg skal ekki þreyta háttv. deildarmenn með lengri ræðu, en vil þó aðeins bæta því við, út af till. á þskj. 330, að ef háttv. flm. (EE) vill lýsa því yfir, að þessi upphæð, sem þar er tiltekin, geti fallið til hvaða ullariðjustofnunar sem væri og stjórnin mælti með og sæi um að fullnægði þeim skilyrðum, sem hún mundi setja, þá gæti það, ef til vill, leitt til þess, að jeg fjelli frá ósk minni um lánsheimild handa verksmiðju á Austurlandi. Háttv. flm. (EE) virðist að vísu hugsa sjer fjárveitinguna í sambandi við allsherjarfyrirtæki það, sem ullariðjunefndin telur álitlegast. En tillagan er þannig orðuð, að hún getur alveg eins átt við ullariðjustofnun þá sem jeg hefi fyrir augum. En jeg er áður búinn að láta í ljósi álit mitt á slíkri allsherjarstofnun, sem nefndin heldur fram, og tel engar líkur til, að hún komist í framkvæmd fyrst um sinn.

Háttv. þm. Dala. (BJ) var í ræðulokin að þakka öllum þingdeildarmönnum fyrir stuðning við brtt. hans í gær, og tek jeg það líka að sjálfsögðu til mín. (BJ: Sjálfsagt). Jeg dáist að þessari þakklátssemi hans og vil í viðurkenningarskyni láta þess getið, að jeg mun ekki síður styðja brtt. hans, þær sem eftir eru; það er að segja, þær sem jeg get skoðana minna vegna fallist á. En reyndar feldi nú deildin flestar till. hans í gærkveldi.