18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

1. mál, fjárlög 1924

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer nokkrar brtt., sem jeg vildi minnast á með nokkrum orðum.

Háttv. frsm. (MP) mintist á brtt. á þingskjali 385, og er jeg háttvirtri nefnd þakklátur fyrir undirtektir hennar þar. Það hefir annars komist inn prentvilla í þessa till. Þar stendur, að upphæðin sje 250, en átti að vera 350. Jeg álít, að þessi smástyrkur til Reykhólahjeraðs sje mjög eðlilegur, og þar sem svo stendur á, að hjeraðið er læknislaust og íbúar hjeraðsins verða að sækja lækni í aðra sýslu vona jeg, að háttv. deild verði ekki andvíg þessari till., enda upphæðin, sem veitt yrði í þessu skyni, alveg hverfandi móti því, ef læknir væri í hjeraðinu á fullum launum.

Þá vil jeg drepa á með nokkrum orð um brtt. mína á þskj. 369, við 18. gr. II. Fer hún fram á, að Sigríði Gísladóttur, ekkju Erlendar hreppstjóra Jafetssonar, verði veittar 250 kr. Þessi fátæka kona er mjög heilsulaus og illa stödd, og hefir hún í brjefi til mín óskað þess, að jeg bæri fram þessa styrkbeiðni. Að vísu fór hún fram á hærri upphæð en jeg geri hjer ráð fyrir, en sparnaðarins vegna sá jeg mjer ekki fært að fara fram á meira, enda því líklegra, að till. sje samþykt, sem hún hefir minni útgjaldaauka í för með sjer. Þótt mjer sje annars alt annað en ljúft að fara slíkum erindum, þá sá jeg mjer samt ekki annað fært en að verða við beiðni þessarar konu.

Kona þessi er ekkja eftir hreppstjóra, sem hafði gegnt því starfi í full 40 ár fyrir lítil og engin laun. Tel jeg þessa fátæku ekkju því engu ver að þessum styrk komna en marga, sem þegar eru komnir í 18. gr. Furðar mig á því, að háttv. fjvn. skuli hafa talið hana miður að styrknum komna. Skal jeg ekki ræða þetta frekar, en vil leggja það undir dóm hv. þingdeildarmanna, hvernig þeir líta á beiðni þessa, og munu þeir sýna það með atkv. sínu, hvort sanngirni þingmanna nær ekki nema til embættismanna og ekkna þeirra eða allir njóta sama rjettlætis.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 385, sem jeg hefi flutt ásamt háttv. þm. Dala. (BJ), um að veita Sigurði Magnússyni, lækni á Patreksfirði, 600 kr. í viðbót við eftirlaun hans. Þessi maður hefir látið af embætti sökum þess, að hann treystist ekki til að þjóna lengur jafnerfiðu hjeraði og hann er í nú og hefir verið í síðastliðin 20 ár. Viðleitni hans að fá ljettara embætti — og má í því sambandi nefna bæjarlæknisembættið í Reykjavík, — hafði engan árangur, og var miklu yngri maður tekinn í þá stöðu, eins og kunnugt er, sem jeg og aðrir hafa ekki getað skilið í, hvernig stóð á, þrátt fyrir góða hæfileika þess manns, er stöðuna hlaut. Hann er nú á efra aldri, og eru eftirlaun hans 1100 krónur. Það segir sig sjálft, að efnalaus maður kemst ekki af með slíkan styrk, og er því síst vanþörf við að bæta. Það er því ekki af því, sem við höfum komið fram með þessa brtt., að við lítum svo á, að þessi litli styrkur muni hrökkva til nauðsynja hans, heldur vildum við sýna nokkurn lit á því, að sjeð væri við þennan mann, að hann hefir þjónað erfiðu og vandasömu starfi um fjölda ára með mestu atorku og samviskusemi. Er varla til minna að ætlast af því opinbera en það bæti við eftirlaun hans þessari litlu upphæð. Þessi maður er einn þeirra eldri embættismanna, sem hafa átt við talsvert lægri laun að búa en embættismenn nú. Að vísu veiða þeir sjálfir að borga nokkuð í lífeyrissjóð þann, sem þeir hafa svo ellistyrk sinn úr, en þeir eru nú þeim mun betur launaðir, að þeim er það tiltölulega ljett. Myndu þessir eldri embættismenn þakka fyrir, ef þeir hefðu átt við slík kjör að búa. (MJ: Þetta er öfugt. Laun embættismanna eru lægri nú en þau voru áður). Jeg tek það fram, að þótt jeg hafi ekki fyr haft ástæðu til að segja, að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hafi farið með vísvitandi rangt mál, þá hefi jeg það nú. Hann hlýtur best sjálfur að vita þetta, að laun embættismanna eru nú miklu hærri en áður. Hitt er annað mál, þótt yfirstandandi dýrtíð geri það að verkum, að þeim verður minna úr þeim. Mig furðar annars á því, að háttv. þm. skyldi ekki koma fram með þetta sem vörn í máli sínu í gærdag, að laun embættismanna væru nú lægri að krónutölu. (MJ: Jeg sagði ekki, að þau væru lægri að krónutölu). Það er í krónum, sem launin eru látin úti, en ekki í kjöti eða smjöri. Sjeu þau því minni nú, þá hlýtur krónutalan að vera minni.

Jeg býst annars við því, að hv. deildarmönnum sje svo ljóst það, sem hjer er farið fram á, að ekki sje þörf á að útlista það betur. Býst jeg við, að þeir verði færri hjer í hv. deild, sem líta sömu augum á laun embættismanna hjer fyr og nú sem háttv. 4. þm. Reykv. (MJ).