18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

1. mál, fjárlög 1924

Bjarni Jónsson:

Jeg býst við, að hv. þm. muni fyrirgefa mjer, þó jeg tali ekki um fjárhaginn að þessu sinni, þótt fjárlög sjeu á dagskrá; það er búið að gera mikið að því undanfarið í háttv. deild og minna gert úr honum en vert var.

Jeg held jeg verði að byrja með því að minnast á atriði, sem ekki er á dagskrá í dag, þar sem búið er að samþykkja þann hlut í háttv. deild við 2. umr. þessa frv. til fjárlaga. Það er lánsheimildin í 21. gr. staflið 14. þar sem stjórninni er heimilað að verja 20 þús. kr. til lána handa ungum og efnilegum mönnum til lokanáms erlendis.

Minnist jeg þessa eigi aðeins fyrir sjálfan mig, heldur og fyrir hönd allrar fjvn. Þar kom til umtals að veita Skúla Guðjónssyni styrk til náms í heilbrigðisfræði, en var horfið frá því vegna þessarar lánsheimildar til stjórnarinnar. Þá var það álit nefndarinnar, að þessi lán mætti eins vel veita til framhaldsnáms eins og lokanáms, og ættu því þeir menn, sem lokið hafa prófi, jafnt að geta komist undir þessi ákvæði, eða þannig skildi jeg nefndina að minsta kosti. Liggur það í hlutarins eðli, að þessi upphæð verður að vera áætlunarupphæð, sem megi fara fram úr þessari tilteknu upphæð, ef þörf gerist. Mun það fara svo sum árin, en önnur ekki. Í þetta sinn hafa um 10 menn sótt um styrk, sem því ætti nú að veita lán. Ef hæstv. stjórn vill hlusta á mig, ætla jeg að nafngreina nokkra þeirra eða alla.

Þar er fyrstur Skúli Guðjónsson, mjög efnilegur maður, og hefir hans þegar áður verið getið. Þá er næst Jón Helgason stud. mag., sem stundar norrænunám í Kaupmannahöfn; hafa þegar verið lögð drög fyrir, að hann hverfi ekki aftur á brott úr Danmörku; munu Danir ætla honum að verða eftirmaður Finns prófessors Jónssonar, og sýnir þetta ljóst, hvert mannsefni þarna er á ferðinni, er hann hefir þegar hlotið slíkt álit og traust fræðimanna þar suður frá. Því finst mjer, að við ættum að hafa ekki minni ástæðu til þess að halda í skækilinn á móti og styrkja manninn til námsins, er hann þarf þess með, og varna því, að hann verði dreginn úr höndum oss. Enn eru fleiri: Sigurður Guðmundsson húsgerðarnemi, Magnús Konráðsson stud. polyt., Árni Guðnason stud. mag., Þorleifur Eyjólfsson verkfræðinemi og Þórður Runólfsson vjelfræðinemi. Svo eru og nokkrir, sem sótt hafa um stuðning til lokanáms í sönglist, þar á meðal Þórður Kristleifsson og Einar Einarsson. Alt eru þetta hinir efnilegustu menn.

Síðast ætla jeg að víkja orðum mínum að umsókn Lúðvíks Guðmundssonar; hefi jeg talað um hana í fyrri umræðum mínum um þetta mál, en tók þá aftur tillögu mína um styrk til hans, er jeg treystist ekki til að koma henni fram. Einnig ætti hann, ásamt Skúla Guðjónssyni, að geta komist undir ákvæði fyrnefndar lánsheimildar.

Jeg hefi aldrei haldið því fram, að jeg væri eitthvert „autoritet“ í þessum málum, og það vita hv. þm., að jeg kann ekki þá list að teygja lopann, en segja þó ekki neitt, látast alt vita, en vilja ekkert hafa í hættu. Jeg fylgi fastlega fram mínu máli, eins og jeg hygg rjettast vera og best. En sje svo, að einhverjum háttv. þm. þyki þetta mál nýstárlegt, — um þýðingu skipulagsfræðinnar, — skal jeg leyfa mjer að sýna fram á, að fleiri menn líta eins á þetta mál og jeg. Skal jeg lesa upp fyrir háttv. deildarmönnum meðmælaskjal frá rector magnifieus háskóla Íslands, próf. dr. phil. Sigurði Nordal, og annað frá próf. dr. phil. Guðmundi Finnbogasyni, svo ljóst verði, hvernig þeir líta á þetta mál og mann þann, sem jeg áður nefndi:

„Það er alkunnugt, að stúdentalíf við háskóla Íslands hefir eflst mjög að fjöri og athöfnum síðustu árin, og hitt vita allir, sem nokkuð þekkja til, að herra Lúðvík Guðmundsson hefir þar verið lífið og sálin í flestöllu, sem til framkvæmda hefir horft.

Með utanförum, brjefaskriftum og starfsemi hjer heima hefir hann reynt að leysa íslenska stúdenta hjer í Reykjavík úr fyrri einangrun þeirra frá umheiminum og erlendum stúdentum, og má telja stúdentaskiftin og upplýsingaskrifstofuna stórt spor í þessa átt. Þá er og stofnun Mensa academica að mestu hans verk, eins og stúdentar hafa fyllilega viðurkent. En það fyrirtæki virðist hafa verið rekið með dugnaði og hagsýni og hefir haft ómetanlega þýðingu fyrir fjelagslíf stúdenta, auk þess sem það hefir að öðru leyti bætt hag þeirra. Loks má geta þess, að herra Lúðvík Guðmundsson hefir mjög beitt sjer fyrir stúdentagarðsmálinu, sem best af öllu sýnir stórhug og atorku forvígismanna stúdenta nú á dögum.

Í málum þessum hefir hann sýnt mikinn áhuga og framtakssemi, ósjerplægni og skipulagshæfileika. Í slíkri starfsemi mundi hann vera á sinni rjettu hillu og geta komið þjóðfjelaginu að miklum notum. Jeg get því af bestu samvisku mælt með því, að honum verði gefinn kostur á að kynna sjer slíka starfsemi erlendis, þar sem hún er lengra á leið komin.

Reykjavík, 16. apríl 1923.

Sigurður Nordal.

(sign.)“

„Jeg hefi kynst herra stud. med. Lúðvík Guðmundssyni bæði hjer á landi og erlendis. Hann hefir með frábærum áhuga, ósjerplægni, hagsýni og dugnaði átt mikinn og góðan þátt í öllum helstu fjelagsframkvæmdum stúdenta hjer síðustu árin: Stofnun stúdentaráðsins, leiðbeiningarstofu stúdenta, er mjög hefir greitt fyrir stúdentum, er erlenda háskóla sækja, stúdentaskiftum, Mensa academica, er bæði hefir verið stúdentum efnalegur styrkur og glætt fjelagslíf þeirra, Skipulagsskrá fyrir lánssjóð stúdenta, og síðast en eigi síst stúdentagarðsmálinu, er hann vinnur alt það gagn, er hann má.

Þekki jeg ekki annan ungan mann hjer, er mjer virðist betur fallinn til að starfa að því að koma skipulagi á frjálsa samvinnu að ýmsum fjelagsmálum, er þarfnast óeigingjarnar forgöngu hugsjónamanns.

Nú hefir herra Lúðvík Guðmundsson sótt til Alþingis um lán nokkurt til utanfarar í þeim tilgangi að kynna sjer skipulag og tæki ýmislegra fjelagsframkvæmda, er til þjóðþrifa horfa, og er það sannfæring mín, að hann á þeirri ferð gæti sjeð og lært margt, er hann síðar gæti hagnýtt og komið á framfæri hjer á landi. Og þar sem vjer eigum vissulega fátt af víðsýnum hugsjónamönnum með löngun og þreki til að starfa að margvíslegum fjelagsmálum, er bíða úrlausnar, þá vil jeg óska þess, að herra Lúðvík Guðmundsson fái lán það, er hann biður um. Jeg efast ekki um, að hann mundi verja því vel, og gef honum mín bestu meðmæli.

Reykjavík, 17. apríl 1923.

Guðmundur Finnbogason.

(sign.)“

Jeg hefi leyft mjer að lesa þessi meðmæli upp hjer, til þess að háttv. þm. sjái, að það er ekki jeg einn, sem tel þennan mann mjög efnilegan eða slíka starfsemi til mikils gagns; auk þess hefi jeg lesið þau hjer til þess að hæstv. stjórn viti, hver meðmæli hann hefir haft. Þau hafa ekki komið fyrir fjvn., en koma nú fram svo allir mega sjá.

Nú hefi jeg og lýst því fyrir nefndarinnar hönd, hvernig við skiljum ákvæðið „til lokanáms“, og að þessi upphæð á að vera áætlunarupphæð, sem stundum getur farið fram úr áætlun og stundum ekki.

Þessa aðferð, að veita lán fremur en styrki, tel jeg vera bæði mönnunum sjálfum happasælli og einnig hagfeldari ríkissjóði. Lánin verða greidd til hans síðar, en beinir styrkir ekki. Enda mundi slíkum styrkbeiðnum mjög fækka við þetta. Lán þessi eru auk þess svo trygg, að eigi mun þörf að gera ráð fyrir, að meira tapist en sem svarar 2% af þeim. (Atvinnumálaráðherra KIJ: Hvaða tryggingar eru fyrir þeim?) Þegar hæstv. ráðherra er búinn að koma mjer í sitt sæti, skal jeg ákveða tryggingarnar. Þangað til getur hann sjálfur ráðið þeim, þar sem svo er ákveðið í heimildunum fyrir lánunum, að þau skuli veita gegn tryggingum, sem stjórnin taki gildar.

Þá hverf jeg að nokkrum smábrtt., sem jeg hefi flutt. Það eru alt smáar upphæðir, sem þar er um að ræða, og ríkissjóðinn munar alls ekki um, en þá munar um, sem eiga að hljóta.

Sumar þessar upphæðir eru til hjálpar við nytsöm fyrirtæki, en sumar eru til að fyrra landið þeim vanheiðri, að veita ekki þá hjálp, sem skylt er að veita.

Þar er þá fyrst brtt. mín á þskj. 385, V. 1, um fjárveitingu til listaverkakaupa. Jeg hygg, að allflestir háttv. deildarmenn hafi verið mjer sammála um það við 2. umr. fjárlaganna, að þessi upphæð væri og lág, og því legg jeg til, að hún verði færð upp í 6 þúsund. Jeg hefi þegar áður tekið það fram, að það er ekki rjett að styrkja með fjegjöfum fullnuma mann, sem fyrir löngu hefir lokið námi, hefir farið til Ítalíu og náð fullum þroska í listinni. Þá er það auðnumissir fyrir hann að þurfa að leita sjer styrks. En það er gleði fyrir hann, ef keypt eru verk hans, og það er sómi landsins að gera það. Ekki vegna hans sjálfs, heldur vegna þess, að það er viturlegt og landinu hagur að kaupa meðan verkin eru ódýr. Því að það sannast æ, að þau verða margfalt dýrari síðar, þegar þau eru orðin annara manna eign, og eftirsóttari, er frá líður. Kostar þá oft tugi þúsunda, sem áður mátti fá fyrir eitt þús. krónur. Er þetta því bæði hagur landinu og listamanninum, sem það auk þess fær gleði, að verk hans eru keypt til minja handa landinu.

Þó jeg hafi sagt, að þingið tregðist við styrkveitingar til listamanna, er það þó íslensku þjóðinni til sóma, hvernig hún hefir farið að við listamenn sína. En það hefir kostað mörg og á stundum hörð orð, bæði mig og aðra.

Það er sómi hverrar þjóðar sem er að eiga slíkt safn sem er safn Einars Jónssonar. Enda eru allir útlendir menn, sem hingað koma og skyn bera á slíka hluti, á sama máli um það, að safnið sje hin dýrmætasta eign. Engu minni sómi er og að því, þegar sjest, að sú stjórn, sem auðnaðist að vera til, þegar miklir menn komu fram meðal þjóðarinnar, hefir styrkt þá til frama og haft þá forsjálni að kaupa dýrmæt listasöfn við litlu verði, en þó um leið hjálpað fátækum mönnum, sem voru að brjótast fram með framtíð landsins og sóma þjóðarinnar í fangi sjer.

Mun þetta vissulega síðar verða þjóðinni til engu minni frægðar og sóma en verk Snorra Sturlusonar, og fer hjer saman sómi landsins í nútíð og framtíð og hagur og gleði fátækra listamanna. Veit jeg því, að allir hv. deildarmenn munu nú vilja hækka lið þennan, svo að þó verði keypt eitt listaverk á ári, og eigi síst fyrir það, að nú hefir styrkurinn til listamanna verið færður svo niður, að hann er eigi 1/3 af því, er hann var fyrir styrjöldina miklu.

Svo hefi jeg komið með brtt. um fjárveitingu til Bókmentafjelagsins, á sama þskj., tölul. V, 2, til að gefa út Íslandslýsingu Þorvalds Thoroddsens, sem er hin mesta nauðsyn að haldið verði áfram. Tók jeg að mjer flutning þessarar tillögu, þar sem form. fjvn. mæltist til þess við mig, af því þetta mál var orðið of seint á ferðinni, er nefndin var búin að ljúka störfum sínum að öðru leyti. Sögufjelaginu ætla jeg einnig nokkru hærri styrk, vegna þess, hve dýrt er að fást við útgáfu bóka þeirra, er það gefur út. En það eru ýms merk og mikilsvarðandi heimildarrit, sem fáir kaupa, en eru vísindamönnum hin nauðsynlegustu. Er þessi styrkur ætlaður til þess, að fáein smárit geti komið út á ári. Veit jeg, að hæstv. atvinnumálaráðherra styður báðar þessar tillögur mínar.

Þá er næst styrkur til að gefa út Lög Íslands, 100 kr. á örk. Er það útgáfa sú, er Einar heitinn Gunnarsson byrjaði á; er lagasafnið saman tekið af Einari prófessor Arnórssyni, og því gott rit og merkt, en kom eigi nema lítið af því út. Sakir þess, að Einar Gunnarsson er nú dáinn, er þaðan eigi lengur að vænta framhaldsins, en börn hans öll of ung til þess að þau geti látið þetta mál til sín taka. Þó snertir þetta mál þau allmjög, er upplagið af því, sem þegar er út komið, er þeim verðlaust, ef verkinu verður eigi haldið áfram. Fáist samþykki hv. þings fyrir þessari fjárveitingu, hefir hr. Egill Guttormsson lofað að kaupa þetta upplag af búinu fullu verði, til þess að halda útgáfunni áfram. Jeg þykist vita, að menn muni ekki vilja veita munaðarleysingjum styrk, sem þeir ættu að fá annarsstaðar frá, en vart munu þó háttv. þm. letja, þó þeir njóti af, um leið og unnið er að nauðsynlegu verki. Auk þess var Einar Gunnarsson svo alkunnur og merkur maður, að það ætti fremur að greiða fyrir þessu máli. Hverf jeg svo frá þessu, en vænti þess fastlega, að háttv. þm. greiði þessu jákvæði.

Þá er 5. brtt., um Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Alþingi tók þennan öldung að sjer í því skyni, að hann fengi þá betur notið sín og ætti betri daga, það sem eftir væri æfinnar. En það var ekki tilætlunin að skera svo við nögl sjer fje við hann, að hann geti ekki lifað áhyggjulausu lífi. Það munu allir sjá, að 4000 kr. er fulllítið til að lifa af; 5000 kr. liggur nær því að vera boðlegt, þótt varla hefði mátt vera minna en 6000 kr. Jeg þorði þó eigi að fara svo hátt, af ótta við, að ekki fengist samþykt, og taldi þetta líklegra.

Þá hefi jeg lagt til, að Einar Jónsson fái sömu upphæð. Þó að hann lifi spart og hafi íbúð sjer að kostnaðarlitlu, þá veit jeg eigi, hvort afkoma hans er þó of góð. En hann vinnur og að því að skreyta húsið með verkum, sem eiga síðar að verða eign landsins, og mætti hann því fá eitthvert kaup þar fyrir, sem fyrir hvert annað verk. Auk þess er hann lítill fjesýslumaður, og því þess meiri nauðsyn að veita honum þetta. Sem dæmi þess, hve lítt honum er sýnt um að beiðast eða leita fjárstyrks, get jeg nefnt það, að eitt sinn kom til mín einn kunningi hans og bað mig að leita honum einhversstaðar fjár, þar eð mjög mundi þröngt í búi hjá Einari, þótt hann vildi eigi láta það vitnast. Spurði jeg þá, hvort Einar mundi hafa hafið þær 2 þús. kr., sem honum voru ætlaðar í fjáraukalögum það ár. Þetta vissi maðurinn eigi, en þegar jeg fór að grenslast eftir því, kom það í ljós, að Einar vissi alls ekki, að hann ætti fjárvon úr þeirri átt. Sýnir þetta ljóst, að honum er annað sýnna en að beiðast fjár. En hitt er enn kunnugra, að hann skapar unaðarstundir og hlátraheima, þeim er heimur grætir, með verkum sínum, sem seint munu fyrnast, og vænti jeg því, að háttv. þm. vilji gera mjer það til geðs, en sjálfum sjer til heiðurs, að samþykkja þetta.