18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

1. mál, fjárlög 1924

Hákon Kristófersson:

Jeg skal vera fáorður og vík mjer þá fyrst að hv. þm. V.-Sk. (LH). Hann sagði, að jeg hefði borið sjer á brýn, að hann hefði flutt till. í hefndarskyni. En jeg sló engu föstu um það, aðeins gat jeg ummæla annara um það, en gat ekki um mitt eigið álit. (LH. Jú!). Nei, jeg þarf engan að spyrji um mitt álit á því. Skal jeg svo ekki ráðast meira á þann sæmdarmann.

Frsm. samgmn. sagði, að jeg hefði ráðist á nefndina. (ÞorstJ: Jeg sagði, að þm. hefði ráðist á sjálfan sig!) Jeg hvorki rjeðist á sjálfan mig eða nefndina. Jeg aðeins ljet óánægju mína í ljósi yfir því, að háttv. þingmönnum hefðu ekki verið sýndar tillögur samgöngumálanefndar áður en áætlunin var prentuð. Að lofa ekki þingmönnum að sjá tillögur nefndarinnar, gæti litið út fyrir að væri af því, að þær væru á einhvern hátt svo úr garði gerðar, að betra væri að enginn sæi.

Það er rangt að bera þetta ekki undir þingmenn, en undir stjórnina þurfti ekki að bera það, því að hún hefir síst betur vit á þessu en við, sem ættum að vera kunnugri.