21.03.1924
Neðri deild: 29. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2043)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Bernharð Stefánsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs til þess að leiðrjetta misskilning, sem kom fram hjá háttv. 2. þm. N.-M. Hefði það ekki sakað, þó hann kæmi fram hjá einum, en þar sem hann virðist töluvert almennur, þá sýnist mjer rjett að leiðrjetta hann.

Háttv. þm. sagði, að ríkið gildi helming kennaralaunanna til sveita, en 1/3 af þeim í kaupstöðunum. En þess þarf að gæta, að sveitirnar sjá kennurum, auk ½ kaups, fyrir öllum þörfum, fæði, húsnæði, ljósi og hita. Verður því hlutfallið alveg öfugt, þannig, að jeg hygg, að ríkissjóður greiði kennurum til sveita aðeins af launum þeirra, og kostar þá því miklu minna en kennarana í kaupstöðunum.

Annars hefi jeg það um þetta frv. að segja, að mjer finst það hafa mistekist sem sparnaðarfrv. Mjer finst nefndinni, með því að bera það fram, ekki hafa farið ósvipað karlinum, sem sagði: „Hesturinn ber ekki það, sem jeg ber,“ og ljet mjölpokann á bakið á sjer áður en hann stje á bak. Því ef kenslan á að veiða jafnmikil og áður, þá er sparnaðurinn enginn fyrir gjaldendur, heldur gjöldin aðeins færð til, úr einum sjóði í annan. En þrátt fyrir það, að mjer þykir ekki mikið í frv. varið sem sparnaðarráðstöfun fyrir þjóðarheildina, mun jeg greiða því atkvæði mitt, að minsta kosti til 2. umr. Bæði er það, að eins og hv. fjvn. hefir sýnt ljóslega fram á, þá þarf eitthvað að gera fyrir ríkissjóð, og eins hitt, að hvað sem sparnaðinum líður, þá virðist mjer þó liggja töluvert rjett hugsun að baki frv., sú, að dýrtíðaruppbót launanna sje greidd af sömu aðiljum og í sama hlutfalli og frumlaunin sjálf, enda má ekki gleyma því, að sveitirnar bera nú þegar töluverðan hluta dýrtíðaruppbótarinnar, að því leyti sem fæði og þessháttar, sem sveitirnar leggja kennurum til, er nú dýrara en á eðlilegum tímum. Aftur eru kaupstaðirnir lausir við alla dýrtíðaruppbótina, og er það ekki rjett, samanborið við sveitirnar.

Hjer hefir töluvert verið rætt um gagn barnafræðslunnar yfirleitt, og mest sagt hið sama og áður, þegar frv. um kennaraskólann var til umræðu. Jeg mun einhverntíma, áður en þingi slítur, fara um það nokkrum orðum, enda vonast jeg eftir, að frv. um barnafræðsluna sjálfa komi bráðlega fram, og tel jeg þá eiga betur við að koma með slíkar hugleiðingar.

En úr því að þessu máli var hreyft, verð jeg að minnast lítið eitt á skoðanir mínar um það. Haldið var því fram af hv. 2. þm. N.-M., að núverandi fræðslumálaskipulag væri síst betra en þegar heimilin önnuðust algerlega um það að fræða börnin. En þó að gamla skipulagið hefði marga góða kosti, þá hygg jeg, að hv. þm. (ÁJ) geri fullmikið úr þeim, en helsti lítið úr kostum nýja fyrirkomulagsins. Hv. þm. hjelt því fram, að þeir unglingar, sem nú kæmu úr barnaskólunum, væru ver að sjer en unglingar þeir, sem áður komu frá heimilunum. Það kann að vera, að þeir sjeu ver að sjer en þeir, sem komu frá bestu heimilunum, en jeg held, að það leiki enginn vafi á því, að alment sjeu þeir miklu betur að sjer. En hvað sem gömlu heimilisfræðslunni liður og kostum hennar, þá er hjer aðalspurningin sú, hvort heimilin gætu nú tekið aftur að sjer sitt gamla verkefni, ef allir skólar væru lagðir niður. Jeg held, að þau gætu það ekki. Jeg held, að eina afleiðingin yrði sú, að börnin fengju flest enga fræðslu, því fólk er nú búið að venja sig við að láta skólana sjá fyrir þeim. Á sveitaheimilum er nú orðið svo fátt fólk, að allir eru önnum kafnir, og efast jeg því um, að heimilin geti kent. En hvað sem því líður, þá tel jeg rjettara, ef þingmenn vilja spara, að gera það, sem háttv. þm. Borgf. (PO) benti á, blátt áfram að leggja niður kenslu, einn vetur eða svo, heldur en að sporna gegn því, að nauðsynlegar umbætur á skipulagi fræðslumálanna nái fram að ganga.

Háttv. 2. þm. N.-M. hjelt því fram, að barnakennarar væru manna hæst launaðir. Skal jeg lítið um það segja, en ekki eru laun sveitakennara það mikil, að þeir sjeu öfundsverðir, og verða þeir þó að vinna allan daginn, þar sem bæði er kenslan og undirbúningur undir hana. Prestarnir hafa ólíkt hærri laun, og leggja þó margir þeirra lítið á sig, samanborið við kennarana.