14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

39. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Jeg vildi gera stutta aths. Háttv. þm. Ak. (BL) hafði það einkum á móti brtt. minni, að með því móti væri kjósandi neyddur til þess að kjósa andstæðing sinn, í mörgum tilfellum, og tók til dæmis kosninguna í Eyjafirði í haust. Þar var einn jafnaðarmaður í kjöri. Þm. (BL) spyr: hvernig á kjósandi, sem er jafnaðarmaður, að fara að, þar sem svo stendur á? Því er fyrst að svara, að tvímenningskjördæmi hlýtur að fá tvo þingmenn. Það er gefið. Nú kærir þessi maður sig ekki um nema einn af þeim, sem í framboði eru. En úr því kjördæmið hlýtur að fá tvo þingmenn, þá er einsætt fyrir hann að kjósa þann besta af hinum, þó hann sje ekki hæstánægður með neinn þeirra. En svo hefir hann fleiri úrræði: hann getur boðið sig fram sjálfur eða stuðlað að því, að flokkur hans hafi 2 menn í kjöri. Jeg þarf ekki að svara þessu frekar. Það verður ekki sjeð, að neinum sje gert nokkuð rangt til með því, þó þessu ákvæði sje haldið fast.