23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

1. mál, fjárlög 1925

Björn Kristjánsson:

Jeg á nokkrar brtt. á þskj. 417. Sú fyrsta er um skólagjöld, við 14. gr. B. VII. að þau verði lækkuð úr 150 kr. niður í 100 kr. Er jeg hræddur um, að það komi sjer heldur illa fyrir nemendur, verði skólagjöld hækkuð um 50%, þar sem dýrtíð er með mesta móti og alt útlit fyrir, að hún magnist enn á næsta ári. Þó að ríkissjóður þurfi tekna með, verður einnig að líta á hitt, hversu afarörðugt það er að sækja skóla undir slíkum kringumstæðum. Ef skólagjöld hækka svona mikið, óttast jeg, að það leiði til þess, að þeir, sem völdin hafa, gefi eftir meira og minna af þeim. Þá verður hækkunin aðeins kák og tekjur vaxa ekkert við hana. Mjer finst í alla staði ósanngjarnt að hækka skólagjöldin, og hefi því leyft mjer að skjóta brtt, um það efni undir dóm hv. þingdeildarmanna. Það væri verjanlegt að hækka gjöldin, ef verð á nauðsynjum væri að falla, en nú er það þvert á móti.

Næst er brtt. við 14. gr. B. XIV 3, um að liðurinn orðist svo: „Til lýðskólans í Bergstaðastræti 600 kr.“ Kemur þessi liður í staðinn fyrir þann, sem hv. Nd. setti inn í fjárlagafrv. við 3. umr. aðeins með 14 atkv. Þá var skólinn í Bergstaðastræti feldur úr frv., en stóð þó í stjórnarfrv. með 1000 kr. Hann hefir notið styrks frá þinginu síðustu 5 ár. Jeg vildi því bera undir hv. deild, hvort ekki væri tilhlýðilegt að veita styrk þessum skóla, sem starfað hefir alt frá 1909, heldur en að taka upp í fjárlög nýjan skóla, sem enginn þingmaður þekkir deili á. Að vísu er lítilfjörlegur styrkur nefndur til þessa nýja skóla; hann smeygir aðeins litlafingrinum inn í þetta skifti, en trúað gæti jeg, að hann færði sig upp á skaftið síðar meir. Verði þessi brtt. mín feld, legg jeg til, að allur liðurinn verði feldur burt.

Skólanum þarf jeg ekki að lýsa nú; jeg hefi gert það við 2. umr. og gat þess þá, hversu mikill elju- og áhugamaður skólastjórinn er og vandaður maður í alla staði. Það hefir ekki lítil uppeldisleg áhrif að nema hjá ágætum mönnum.

Þá kem jeg að brtt. við 15. gr. 15, um að færa launaupphæð sjera Jóhannesar L. L. Jóhannssonar úr 5 þús. kr. upp í 6 þús. kr.

Eins og menn muna, var Jóni heitnum Ólafssyni á sinni tíð falið að safna til og semja íslenska orðabók. En þegar hann var látinn, sóttu tveir menn 1917 um til Alþingis að mega halda starfi hans áfram, þeir Björn Bjarnason frá Viðfirði og sjera Jóhannes L. L Jóhannsson, báðir þektir miklir íslenskumenn. Niðurstaðan varð, að báðum þessum mönnum var falinn starfinn með 4000 kr. launum hvorum.

Þegar þeir fóru að athuga það, sem Jón Ólafsson hafði samið, sáu þeir, að á þeim grundvelli gátu þeir ekki bygt, sem hann hafði lagt. En Björns frá Viðfirði naut ekki lengi við, því hann dó fyrir jól 1917. Þá var Jakob Smári ráðinn í hans stað, og unnu feðgarnir saman um að búa til nýjan grundvöll, eða grundvöll þann, sem hv. 5. landsk. þm. lýsti svo ömurlega við 2. umr. Sjera Jóhannes er sem sje í óvinahóp hans. Hv. 5. landsk. þm. sagði, að í þennan grundvöll eða þetta sýnishorn hefði vantað 1000 orð; vísindamaður hjer hefði fundið það út í hendingskasti. En vitanlega er ekki hægt að ætlast til, að í sýnishorni á fyrirkomulagi á orðabók sjeu öll orð, sem þar gætu staðið. Öll orðin í orðabók geta ekki komið fram, eins og gefur að skilja, fyr en alt handritið er fullgert, að búið er að lesa allar bækur, rit og orðabækur, sem er efniviðurinn í orðabókina. En það tekur mörg ár og er venjulega margra manna verk erlendis, og skifta þeir þá með sjer verkum að lesa bækurnar og safna orðunum.

Samvinna feðganna varð stutt, því að Jakob Smári var skipaður íslenskukennari við mentaskólann 1920. Síðan hafa þeir sjera Jóh. L. L. Jóhannsson og Þórbergur Þórðarson unnið að starfinu hvor í sínu lagi, svo langt sem nú er komið, en Þórbergur vann einnig að tilbúningi sýnishornsins af orðabókinni, sem sent hefir verið víða um lönd og fengið skýlausa viðurkenningu.

Sjera Jóhannes hafði verið prestur í 30 ár og orðið að ala önn fyrir fjölda af börnum, og safnaði við það skuldum. 1920 var launalögunum breytt, svo nú myndi hann hafa 3000 kr. laun, auk dýrtíðaruppbótar og borgunar fyrir aukaverk. Honum mundi því nú líða mun betur efnalega sem prestur í sveit með sinn barnahóp en að hafa 6 þús. kr. hjer á mölinni, sem eru í raun og veru tæpra 3 þús. kr. virði. Erlendis er slíkum mönnum veitt ókeypis skrifstofa, hiti, ljós, nauðsynlegar bækur o. s. frv. En þetta verður sjera Jóhannes að leggja til sjálfur. Ekki er hægt að áætla það minna en 1000–1500 kr. virði, og skerðast þá launin. Þess utan þarf hann að afborga gamlar skuldir. Ef til vill má segja, að þingið hafi reist sjer hurðarás um öxl, þegar það stofnaði þetta embætti, og fráleitt hefðu menn lagt út í að stofna það nú á þessum sparnaðartímum. En nú er það einu sinni gert. Verslunin var gerð við sjera Jóhannes, og verslunarsamningana verður að halda. Og sjálft Alþingi má ekki bregðast sínum viðskiftamönnum, þótt því kunni að vera hagur að því í svipinn.

Launin, sem upphaflega var samið um 1917, Voru 4000 kr., en þá var mynt landsins ekki farin að falla neitt. Samkvæmt samningum þingsins við prestinn ætti hann því að fá dýrtíðaruppbót, 52%, eða 2080 kr. Svo má búast við, að verði enn dýrara að lifa næsta ár. Flutningsmenn hafa því ekki farið fram á dýrtíðaruppbót meiri en 50%, eða alls 6 þús. kr. Hann á áreiðanlega sama rjett á uppbót og allir aðrir starfsmenn ríkisins.

Jeg treysti hæstv. stjórn og hv. deild til að fallast á það, að við þetta verk, sem hann var ráðinn til — og honum gefið tilefni til að segja af sjer embætti, sem honum mundi nú líða betur við —, sje hann ekki ofhaldinn af 6 þús. kr.

Svo er örlítil brtt. við 23. gr. — Jeg skal taka það fram, að vegna misskilnings er hv. 1. landsk. þm. (SE) talinn meðflm. minn að þessari till.; en svo á ekki að vera, heldur flyt jeg till. einn. — Í greininni stendur: „Bankastjórninni er ennfremur heimilt að greiða til veðdeildarinnar af öðru fje bankans“, o. s. frv. — Jeg legg til, að orðið „öðru“ falli burt, vegna þess að veðdeildin hefir altaf verið sjerstök stofnun, þó henni hafi verið stjórnað af Landsbankanum. Meira þykist jeg ekki þurfa að skýra þá brtt.