23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg átti ekki von á því, að háttv. 1. landsk. (SE) færi við þetta tækifæri að halda langa varnarræðu fyrir fjármálastjórn ráðuneytis hans og þeirra þinga, sem þá áttu sæti. Jeg er því illa við því búinn að rökræða við hann einstök atriði þessu máli viðkomandi, enda álít jeg þýðingarlítið að fara langt í þær sakir að sinni.

Háttv. 1 landsk. byrjaði á því að beina ákúrum til núverandi stjórnar fyrir það, að hún hafi ekki borið fram brtt. við fjárlögin um fjárveitingu til sendimanns í Miðjarðarhafslöndunum, og bar hann það fyrir sig, að bankarnir hefðu æskt þessa. Þessu er því að svara, að þessi stjórn hefir ekki samið fjárlagafrv., og er því ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að hún geri brtt. um ný ákvæði, nema nýjar ástæður gefi tilefni til þess. En mjer er ekki kunnugt um, að neitt nýtt hafi komið fram á þessu máli síðan stjórnarfrv. til fjárlaga var samið, sem breytt gæti skoðun manna á því. Mun jafnvel hafa verið enn brýnni ástæða til að hafa sendimann þar suður frá á meðan fiskverðið var lágt og sala fiskjarins gekk illa, en þannig stóð einmitt á þegar fyrv. stjórn var að semja fjárlagafrv. Það var líka svo að heyra, sem hv. 1. landsk. fyndi þetta með sjálfum sjer, því að hann gat þess upp úr þurru, að hjer væri ekki um vanrækslusynd af hálfu fráfarandi stjórnar að ræða. Þessi yfirlýsing var alveg óþörf, því að enginn hefir ásakað þá stjórn í þessu efni, en hitt er annað mál, að það situr síst á honum að ámæla núverandi stjórn út af þessu máli, og enda er alveg þarflaust að gera þessa till. háttv. þm. Vestm. (JJós) að aðkastsefni, því að engin mótmæli hafa komið fram gegn henni frá stjórnarinnar hálfu.

Þá vildi háttv. 1. landsk. verja það, að stjórn hans hafi ekki lagt tekjuaukafrv.

fyrir þingið 1923, en gat þó um leið rjettilega um eitt slíkt frv., sem hafði verið felt. Og það var ekki nema eðlilegt, að það væri felt, eftir hugsanagangi þess meiri hluta, sem þá rjeði, og það jafnvel þó að frumvarpið væri borið fram af stjórn, sem studdist við þennan meiri hl. Auk þess hafði þingið afsökun í þessu efni, þar sem var yfirlýsing þáverandi fjármálaráðherra, Magnúsar Jónssonar, um, að tekist hefði að stöðva tekjuhalla ríkissjóðs á árinu 1922. Virtist því svo, sem ekki væri ástæða fyrir þingið að samþykkja ný tekjuaukafrv.

Háttv. 1. landsk. lýsti því yfir, að fjármálastefna fyrverandi stjórnar hafi verið hin sama, sem núverandi stjórn ætlaði sjer að fylgja.

Jeg skal ekki rengja það, að stjórn hans hafi viljað fylgja þeirri stefnu; en það verður jafnframt að segja sannleikann eins og hann er; henni hefir þá mistekist að fylgja stefnunni, sem sje þeirri, að stöðva tekjuhalla ríkissjóðs, en grynna í þess stað á skuldunum. Dæmin eru deginum ljósari: Árið 1922 var tekjuhallinn 2,6 milj. kr., þrátt fyrir yfirlýsingu Magnúsar Jónssonar, þáverandi fjármálaráðherra, og síðastliðið ár mun tekjuhallinn hafa verið um 2 milj. kr. En það er þessi stefna, sem núverandi stjórn vill fyrir hvern mun ekki fylgja lengur. Það verður að sýna sig, hvernig henni tekst þetta; en henni er ekki nægilegt eingöngu að hverfa frá þessari tekjuhallabraut, heldur líka reyna að rjetta eitthvað við. (SE: En tveir ráðherrarnir eiga langt starf að baki sjer frá tekjuhallaárunum). Núverandi stjórn er nýtekin við og á eftir að sýna, hverju hún fær áorkað.

Þá sagði hv. 1. landsk., að þjóðarbúskapurinn væri í lagi, ef verð innfluttrar vöru væri minna en verð útfluttrar, eða að minsta kosti, að greiðslujöfnuður við útlönd ætti sjer stað. Þetta er í rauninni rjett. En það má þó ekki nota þennan sannleika til þess að kasta skugga á hinn, sem er engu veigaminni, að þessari niðurstöðu verður ekki náð, nema því aðeins, að skilyrði fyrir henni verði til. Og fyrsta skilyrðið til þess er, að fyrirtæki þau, sem starfrækt eru í landinu, starfi hallalaust, og þá fyrst og fremst sjálfur ríkissjóðurinn. Því að rekstrarhalli á sjerhverju fyrirtæki innanlands skapar fyrir sitt leyti óhagstæðan greiðslujöfnuð við útlönd.

Þegar bóndi tapar á búi sínu, og enda þótt tap hans gangi til heimafólksins, þá kemur fram greiðsluhalli hjá heimilinu í heild, ef fólkið eyðir kaupi sínu, eins og oftast vill verða. Það eyðir þá eignum bóndans. Hið sama gildir um búskap landsins í heild, og það er því fyrsta skylda þingsins að vaka yfir því, að búskapur sá, sem það veitir forstöðu, ríkisbúskapurinn, sje rekinn hallalaust. Það duga heldur ekki neinar þvingunarráðstafanir til þess að framkalla greiðslujöfnuð við útlönd, ef stóru fyrirtækin innanlands eru rekin með halla. Það er að vísu rjett hjá hv. 1. landsk., að ef miklar sveiflur verða á atvinnulífi þjóðarinnar niður á við, þá verður af því hinn mesti tekjuhalli. En einmitt þetta ætti að reka enn fastar á eftir mönnum að fara varlega í áætlunum sínum við samningu fjárlaganna, bæði að áætla tekjurnar heldur lægri og gjöldin aftur á móti hærri heldur en máske frekast má búast við, að þau verði.

Þá sagði háttv. 1. landsk., að þing og stjórn hefðu enn lítið sem ekkert gert til þess að ráða bót á stóru málunum, sem hann kallaði. Jeg verð nú að segja, að eftir ummælum hans um fjármálastefnu fyrv. stjórnar, þá hefði mátt búast við því, að hún hefði lagt fyrir þingið ákveðnar tillögur til úrlausnar stóru málunum, sem vitanlega eru fjármálin.

Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að þingið geti, hinn stutta tíma sem það á setu, ráðið þessum málum til lykta undirbúningslítið, ef landsstjórninni þykir ekki ástæða til að leggja sinn skerf til slíks undirbúnings. En jeg verð nú að segja, að háttv. 1. landsk. hefir gert of lítið úr starfi því, sem þingið hefir unnið að þessum málum.

Það þarf ekki annað en benda á þær leiðrjettingar á rekstri þjóðarbúsins, sem þingið hefir gert og eru fyrstu skilyrði þess, að hagur ríkissjóðs verði rjettur við. Það hefir og verið talað um að hefta innflutning til landsins, og við verðum að játa, að allmyndarlegar ráðstafanir hafa verið gerðar í þá átt, og á fyrverandi stjórn sinn þátt í því. Innflutningshöft allvíðtæk hafa verið sett, þó að þar sje farið lengra í einstökum atriðum en rjett er til frambúðar. Meiri hluti þingsins hefir fallist á þessa stefnu og stjórnin lýst því yfir, að hún muni hindra innflutning eftir því, sem fjárhagur ríkissjóðs leyfir. En í þessu efni dugir ekki að loka augunum fyrir hag ríkissjóðs, að svo miklu leyti, sem hann byggist á tollum af aðfluttri vöru. Jeg get því ekki fallist á, að dómur hv. 1. landsk. um starfsemi þingsins sje rjettur, þegar hann segir, að það hafi kastað öllu í hendur forsjónarinnar. Að vísu má segja, að alt líf vort sje í forlaganna eða forsjónarinnar hendi, en þingið hefir gert sína skyldu, gert það, sem í þess valdi hefir staðið. Þó að enn sjeu einstaka atriði óútkljáð, þá er svo langt til þingloka, að enn er mögulegt að koma fram þeim málum, sem annars er unt að samþykkja án sjerstaks undirbúnings milli þinga, því það verður að segjast, að slíks undirbúnings hefir þingið ekki notið sem skyldi frá hendi fyrverandi stjórnar.

Þá vil jeg fara nokkrum orðum um örfáar brtt. frá einstökum hv. þm. Þær eru í raun og veru aðeins tvær, sem mjer finnast svo stórfeldar, að ástæða sje fyrir mig að andmæla þeim.

Fyrst er það þá XII. brtt. á þskj. 417, frá hv. 5. landsk. (JJ), sem jeg vil gera að umtalsefni. Samskonar tillaga var feld í hv. Nd. og var þar gerð sú skýra grein fyrir því, að hjer er um það að ræða að gera þar hafskipabryggju, sem einna best er höfn á landinu og þar að auki önnur mjög myndarleg bryggja til fyrir. Jeg skal nú ekki segja, að þessarar nýju bryggju kunni ekki að vera nein þörf, en þar sem þinginu hefir þótt nauðsyn bera til, bæði vegna fjárhags ríkissjóðs og þjóðarinnar, að fella niður allar verklegar framkvæmdir, sem ríkið annars lætur inna af hendi, þá er það jafnframt skylda þingsins að heimta það af Ísfirðingum, að þeir einnig skjóti byggingu þessari á frest, þar sem hún er ekki heldur svo aðkallandi. Er það beinlínis í samræmi við þá stefnu þingsins, að hindra sem mest aðflutning til landsins, því að vitanlegt er, að mestur hluti kostnaðar við slíkar byggingar liggur í erlendu efni.

Hin till. er um 3000 kr. styrkveitingu til Sigurðar prófessors Nordals, undir X. lið á sama þskj.

Ef skoða mætti, sem ætlast væri til þess, að þessi styrkur væri veittur í eitt skifti fyrir öll, þá hefði þetta atriði verið svo smávægilegt, að jeg hefði ekki sjeð ástæðu til þess að gera það að umtalsefni. En jeg heyri það á röksemdum hv. 1. landsk., sem talað hefir fyrir þessari till. af hálfu háttv. mentmn., að með þessu sje nefndum prófessor gefinn ádráttur um árlega launaviðbót til hans sem þessari upphæð nemur, kr. 2000 með dýrtíðaruppbót. Ef svo er, þá vil jeg benda á, hverjar afleiðingar það hefir á för með sjer að halda inn á þessa braut, sem sje þær, að hætt er við því, að margir embættismenn komi á eftir með kröfu um samskonar launaviðbætur. Nú stendur svo á, að dýrtíðaruppbót embættismanna er lægri heldur en dýrtíðaruppbót sú, sem flestir aðrir borgarar þjóðfjelagsins hafa orðið aðnjótandi, miðað við launakjör fyrir stríð. Dýrtíðaruppbót embættismanna er nú 52% af launaupphæðinni, og lægri af hæstu laununum, en á öðrum sviðum þjóðlífsins hefir kaupgjaldið hækkað enn meira, t. d. mun það nú vera hjer í Reykjavík upp og ofan þrisvar til fjórum sinnum hærra en það var fyrir stríð. Að vísu hefir því verið haldið fram, sem mun vera rjett, að embættismenn ríkisins hafi fengið hækkuð stofnlaun sín með launalögunum 1919. Hefi jeg heyrt, að þá hækkun mætti telja um 25% frá því, sem áður var. Ef það er rjett, og ef ennfremur má gera ráð fyrir því, að dýrtíðaruppbótin verði 60%, þá mun láta nærri, að launin hafi tvöfaldast á móts við það, sem þau voru 1914. En eins og jeg tók áður fram, þá hefir kaup og laun alls almennings í landinu að minsta kosti þrefaldast á sama tíma, og meira í ýmsum greinum.

Nú er það alveg auðsjeð og vitanlegt, að eina leiðin til þess að geta haldið launum embættismanna svo mikið niðri, er sú, að hins ýtrasta rjettlætis og samræmis sje gætt að því er launakjörin snertir innan þess sviðs, sem löggjafarvaldið á yfir að segja, svo að ekki verði hægt að byggja kröfur um launahækkun á skírskotun til ósamræmis innan þessa sviðs.

Ef einum manni er veitt hækkun slík sem þessi, þá er hætt við, að aðrir komi á eftir og biðji um hækkun. Og það er enginn efi á því, að svo fer, ef vjer veitum þessum embættismanni þá hækkun, sem hjer er farið fram á, og þá veit jeg ekki, hverju þingið á að svara öðru en því, að fella burtu þessa hækkun, sem það væri búið að veita, því að jeg býst ekki við, að næsta þing sjái sjer fært að hækka laun embættismanna yfirleitt svo, að samsvari þessari viðbót. Ef vjer ættum að geta hækkað við þennan embættismann án þess að hækka jafnframt við aðra, þá yrði að standa alveg sjerstaklega á um hann. Því hefir verið haldið hjer fram, að svo sje. Jeg viðurkenni það fyllilega, að þessi maður sje hæfileikamaður og alls góðs maklegur, en slíkt má segja um svo fjöldamarga aðra.

Þá hefir því verið haldið fram, að verkefni þessa manns sje svo þýðingarmikið, að hann hafi sjerstöðu vegna þess. Jeg veit vel, að það starf, sem þessi maður vinnur, er mikils vert, en svo er um svo marga aðra. Jeg viðurkenni fyllilega, að fornbókmentir vorar eru ein hin allradýrmætasta eign, sem við eigum, en menn verða að gæta þess, að þær bókmentir eru eitt, og ritstörf nútíðarmanna um þær eru alt annað. Þau ritstörf eru ekki nándarnærri eins þýðingarmikil. Jeg vil einnig benda á það, að til eru ýmsir menn, sem telja annað þýðingarmeira en fornbókmentir okkar. Jeg skal í því sambandi benda á, að margir kristnir menn, bæði hjer á landi og annarsstaðar, telja biblíuna miklu þýðingarmeiri bókment en fornsögur okkar. Frá sjónarmiði þeirra manna væri því engu minni nauðsyn, ef fram kæmi afburðamaður á því sviði, að veita honum sjerstakan styrk til þess að rita um þau fræði. Þannig mætti lengi halda áfram að telja. Það getur altaf verið álitamál, hvað þýðingarmest sje. En ef til þess kæmi, að veita ætti einhverjum embættismönnum launauppbót, þá verður þing og stjórn að skera úr því, hvaða störf sjeu þýðingarmest og hverja menn vjer megum síst missa, og það verður ókleift verk. Ef vjer lítum yfir embættismannahóp þjóðarinnar, þá verðum vjer þess brátt varir, að þeir eru fjöldamargir ómissandi, því skarð þeirra hvers um sig myndi vandfylt, ef þeirra misti við. Ef vjer því ættum að veita einhverjum embættismönnum launahækkun sökum verðleika þeirra, þá er hætt við, að vjer kæmumst ekki hjá að veita hana flestum eða öllum embættismönnum vorum.

Jeg hefi talið mjer skylt að segja þessi aðvörunarorð, þó að mjer hinsvegar þyki mjög leiðinlegt að þurfa að mæla á móti þessum manni, því að jeg kann vel að meta bæði hann sjálfan og starf hans.