23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurður Jónsson:

Það er ekki gustuk að auka umræður mikið frá því, sem orðið er. Hefir þessi dagur verið gerður að eldhúsdegi, og skal jeg engu þar við bæta.

En satt að segja furðaði mig á því, þegar jeg sá þskj. 417, hvað þar var mikið af brtt. Kom mjer til hugar, að ef fjárlögin ættu eftir að koma á ný fyrir deildina, þá myndi brtt. enn rigna. Um flestar er það svo, að jeg get látið mjer nægja að sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á þær, en vil aðeins með örfáum orðum minnast á tvær eða þrjár af þeim.

Háttv. þm. Snæf. (HSteins) sækir enn um styrk til sjúkraskýla og læknisbústaða. Hjelt jeg, að þessi brtt. myndi ekki rísa upp aftur frá 2. umr. Var hv. deild þar búin að láta í ljós vilja sinn í því máli. Mun jeg ekki fremur geta fylgt þessu nú en þá. Þá hjelt jeg líka, að óþarfi væri að fara að koma hjer fram með beiðni um 55 þús. kr. til hafskipabryggju á Ísafirði. Virðist það vel geta beðið. Jeg hefi sjálfur farið þar um nokkrum sinnum og veit af eiginni reynslu, að hægt er að leggjast þar að bryggju.

Þá kem jeg að þskj. 422. Þar býst jeg ekki við að geta greitt atkvæði mitt með breytingartillögu frá hæstv. forsrh. (JM), um 5600 kr. til Jóhannesar Lynge orðabókarhöfundar. Hjelt jeg, að það væri útrætt mál.

Annars skal jeg efna það, sem jeg lofaði, að stuðla ekki að því, að umræður lengist mikið. Og jeg vildi óska, að ekki þyrfti að geyma þessa umræðu langt fram á sumar.