23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

1. mál, fjárlög 1925

Björn Kristjánsson:

Aðeins örfá orð út af tillögum samgöngumálanefndar. Hv. nefnd hefir nú lagt til, að Hvalfjarðarbáturinn skuli ekki fá 1925 nema 600 kr. í styrk, en hefir á þessu ári 900 kr. Aftur hefir hún lagt til, að Grímseyjarbáturinn, sem nú hefir 750 kr., skuli fá á næsta ári 900 kr. Hvernig hún getur komist að þessari niðurstöðu, er mjer óskiljanlegt. Af Hvalfjarðarbátnum hafa eftirtaldir hreppar not: Hvalfjarðarstrandarhreppur, Kjósarhreppur, Skorradalshreppur, Skilmannahreppur, Innri Akraneshreppur og framhluti Lundarreykjadalshrepps. Þó að hreppar þessir sjeu allir í Borgarfjarðarsýslu nema Kjósarhreppur, vil jeg mælast til þess við hæstv. atvrh. (MG), að hann á sínum tíma láti báða þessa báta, Grímseyjarbátinn og Hvalfjarðarbátinn, njóta hins sama styrks og þeir hafa áður haft. Jeg vænti þess, að hæstv. atvrh. sjái sjer fært að kippa þessu í lag, sem hlýtur að stafa af ókunnugleika háttv. nefndar, sem mun hafa haldið, að aðrar samgöngur en þessar bátaferðir gætu bætt þetta upp í þessu hjeraði, en svo er ekki.

Þá voru það fáein orð, sem jeg þurfti að beina til háttv. 2. þm. S.-M. (IP) og hv. 5. landsk. (JJ), þótt sá síðarnefndi hv. þm. sje nú raunar „dauður“, en það var út af andmælum hans gegn dýrtíðaruppbót af fjárveitingunni til sjera Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Háttv. 5. landsk. taldi þetta vera að skoða sem eftirlaun, vegna þess að sjera Jóhannes starfaði nú ekkert framar. Jeg verð að mótmæla þessum orðum háttv. 5. landsk., að minsta kosti þangað til jeg heyri hæstv. stjórn, sem á að hafa eftirlit með starfsemi hans, lýsa því yfir, að hann hafi ekki leyst verk sitt vel og trúmannlega af hendi. Þessi hv. þm. hótaði því að sjá svo um, ef þessi dýrtíðaruppbót yrði samþykt hjer, að hún yrði feld niður aftur í hv. Nd. Það er þá ekki sök hv. Ed., ef honum tekst þetta. En jeg álít það tæplega vera sæmandi, að þessi fátæki fjölskyldumaður, sem vinnur baki brotnu að þessum störfum, fái ekki samskonar uppbót á launum sínum og aðrir starfsmenn ríkisins.

Háttv. 5. landsk. fór að blanda hr. Árna Theódór inn í þessa umræðu, þótt það kæmi málinu alls ekki við, og eins og vandi þessa hv. þm. er, náðir hann menn jafnt þó þeir sjeu ekki viðstaddir og fái því ekki borið hönd fyrir höfuð sjer. Hann sagði, að Árni Theódór hefði staðið illa í stöðu sinni, auk ýmislegs annars, sem hann bar á hann. Hið sanna er, að hr. Árni Theódór var um 30 ár barnakennari og ljet af því starfi með hinum besta vitnisburði frá öllum þeim, er við hann höfðu átt að skifta, eins og sjá má af Þingtíðindunum 1922.

Þá kem jeg að hv. 2. þm., S.-M. Hann spurði að því, hvort sjera Jóhannes L. L. Jóhannsson hefði „staðið í skilum“ með sína vinnu. Jeg svara því, sem jeg sagði áðan, að það er stjórnarinnar að sjá um, að þeir menn vinni sín verk, sem eru í stjórnarinnar þjónustu. Meðan stjórnin lýsir ekki yfir því, að hann hafi vanrækt verk sitt, verð jeg að álíta, að hann hafi leyst það svo vel af hendi, að vel sje við það unandi; ef svo er ekki, þá er það stjórnarinnar sök og ekki neinna annara. Þá álítur hv. þm., að af því að þessi maður hafi sótt um þetta starf, megi svifta hann því aftur umsvifalaust. (IP: Hann hefir alls ekki verið dreginn hingað til þessa starfs). Það er nú svo um flesta embættismenn ríkisins, að hver og einn hefir sótt um þá stöðu, sem honum hefir hlotnast, og þykir ekki hlýða að reka menn úr embættum fyrir þá sök. Það mun því gilda hið sama um þennan mann og alla aðra í opinberum stöðum. Þessi maður sótti um þetta starf og Alþingi samdi við hann um það, og er því órjett að rjúfa samninga þá, sem við hann hafa verið gerðir. Mjer finst, að sóma þingsins vegna verði þessa samningur að standa óhaggaður. Þá taldi hann þetta aðeins vera eftirlaun og át það eftir háttv. 5. landsk. En þessum hv. þm. er mjög svo gjarnt að vera sömu skoðunar og hv. 5. landsk. þm. og endurtaka hans röksemdafærslu, að jeg tel óþarft að svara þessu sjerstaklega, eða frekar en jeg hefi þegar gert.

Jeg er sjerstaklega þakklátur hæstv. fjrh. fyrir það, að hann mælti með skólanum í Bergstaðastræti, að hann fái að standa í fjárlögunum, og eins er jeg þakklátur hv. deild fyrir það, að engin rödd hefir þar heyrst á móti þessum skóla og ekki heldur nein meðmæli með því, að kvöldskóli verkamanna fái að standa. En vegna þess, að mörgum í þessari háttv. deild mun allókunnugt um þennan kvöldskóla verkamanna og ekki hefir áður verið neitt upplýst um það, hvernig hann er tilkominn, skal jeg skýra þetta dálítið nánar áður en atkvgr. fer fram, Það stendur svo á, að þessi skóli var stofnaður í vetur, 5. des. f. á., með auglýsingu í Alþýðublaðinu, og stóð skólinn eitthvað einn mánuð; síðan mun hann ekki hafa starfað. Auglýsingin, sem stóð í 288. tbl. Alþýðublaðsins, 5. des. í vetur, hljóðaði þannig:

„Takið eftir.

Kvöldskóli jafnaðarmanna.

Næstkomandi mánudag byrjar „Kvöldskóli jafnaðarmanna“. Allir alþýðuflokksmenn geta fengið inntöku í skólann. Mánaðargjald kr. 3,50 greiðist fyrirfram. Væntanlegir nemendur gefi sig fram í Alþýðuhúsinu frá kl. 2–8 á morgun og næstu daga.

Fjelag ungra kommúnista.“

Jeg hefi ennfremur fengið þær upplýsingar, að í þessum skóla átti að kenna íslensku, dönsku, ensku og reikning, og auk þess kommúnistafræði ýmisleg.

Nú hefir skólinn í Bergstaðastræti líka kvöldskóla, og gætu þá þessir ungu kommúnistar fengið þessa bóklegu fræðslu þar alla saman, að undanteknum kommúnismanum. Nú er það undir þessari hv. deild komið, hvort hún vill veita fje til þess að halda uppi kenslu í kommúnistafræðum, og fer atkvæðagreiðslan fram um það eingöngu. Óska jeg, að nafnakall verði viðhaft atkvgr.