26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Jón Kjartansson):

Jeg hefi lítið að athuga við ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Brtt. hans fara fram á að gera greinarmun á þingfararkaupi þingmanna utan Reykjavíkur og þeirra, sem búsettir eru hjer. Jeg skal ekki segja, nema þetta sje rjettmætt, og getur væntanleg nefnd tekið það til íhugunar. En það er ekki allskostar rjett, að þingsetan hljóti jafnan að verða þeim ódýrari, sem búsettir eru hjer í bænum, því að margir þeirra leigja mjög dýrt húsnæði.

Að þingfararkaupið verði lægra eftir frv. en lögunum frá 1922 er alveg rjett. En jeg gat þess áðan, að jeg væri fús á að fara miðlunarleið, ef þetta þætti ósanngjarnt gagnvart þingmönnum, miðað við þóknun annara starfsmanna ríkisins. Hitt get jeg ekki fallist á, að ekki sje rjett að ákveða hæstan ferðakostnað úr Vestur-Skaftafellssýslu. Svo sem jeg gat um, er ferðakostnaðurinn alstaðar miðaður við sjóleiðina, nema úr hjeruðunum á Suðurlandi. Úr Vestur-Skaftafellssýslu verður ekki miðað við sjóleiðina, en það er ljóst, að miklu kostnaðarsamara er að ferðast landveg. Það kann og að vera ástæða til að hækka eitthvað ferðakostnaðinn úr Austur-Skaftafellssýslu, ef þingmaðurinn býr það vestarlega, að hann á hægra með að komast landveg. Þar sem hv. þm. (SvÓ) taldi ekki rjett að gera mun á Múlasýslum í þessu efni, er því til að svara, að eftir lögunum frá 1912 er einnig áætlaður hærri ferðakostnaður frá Norður-Múlasýslu, enda geta þingmenn þar átt lengra til skips en í Suður-Múlasýslu.

Þá skal jeg gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hann vildi bera brigður á, að þeir reikningar, sem þingmenn hafa gefið undanfarin ár, hafi sumir verið handahófsreikningar. Jeg býst nú við, að ef hv. þm. ætlaði að ferðast á sinn eigin kostnað til Þorlákshafnar, þyrfti hann ekki 610 krónur báðar leiðir. En mjer skilst, að þegar menn fara ferðir á kostnað ríkissjóðs, eigi þeir að miða við, hvernig þeir mundu ferðast fyrir sinn eigin reikning. Það er sanngjarnara en þessir handahófsreikningar.

Jeg hefi athugað marga þingfararkaupsreikninga, og eru engin fylgiskjöl með mörgum þeirra, heldur einungis reikningur frá þingmanninum. Með öðrum eru fylgiskjöl fyrir allri reikningsupphæðinni, og verður þingfararkaupsnefndinni því ekki álasað, þó að hún ávísi þeim reikningum. En yfirleitt verður þingfararkaupsnefndin ekki ásökuð fyrir það, þótt hún samþykki reikningana, því hún hefir oftast lítil tök á að rannsaka þá. Jeg hefi hjer fyrir framan mig ritgerð eftir hæstv. atvrh. (KlJ), þar sem hann telur marga reikningana algera handahófsreikninga.

Þá mintist hv. 3. þm. Reykv. (JakM) á reikning þm. V.-Sk. 1921. Sje það rjett, að það sje ekki vegna veikinda þingm., að reikningurinn var svo hár þá, er því meiri nauðsyn á að fastákveða þingfararkaupið, því að það munu allir sjá, að 1488 kr. eru ekki sanngjarn reikningur fyrir ekki lengri ferð. En jeg veit um hitt, að það er vegna veikinda þm., að reikningurinn varð svo hár.

Eins og jeg gat um, er það aðalástæða vor flutningsmanna, að miða beri við, hvað hæfilegur ferðakostnaður sje þessar leiðir. Jeg tel það ekki sæmilegt að gera gys að þessari viðleitni okkar. Þá getum vjer alveg eins hætt við að ákveða kaup þingmanna, en greitt það, sem þeir geta eytt. Lofa þeim að gera reikninga eftir eigin geðþótta og láta þingfararkaupsnefnd ekki úrskurða þá, heldur einungis ávísa þeim.