18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í C-deild Alþingistíðinda. (2753)

88. mál, bankavaxtabréf

Flm. (Jón Kjartansson):

Jeg vil taka það fram — ef það annars skyldi valda misskilningi — að jeg legg ekkert kapp á að frv. mitt sje fremur valið en frv. hv. þm. Str. Jeg legg það aðeins á vald hv. landbn., hvort þeirra hún velur, er hún að sjálfsögðu hefir leitað álits Landsbankans um málið.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Str. sagði, að enn stæði eftir ein miljón kr. í 4. flokki og frv. mitt væri því ekki tímabært, verð jeg að segja það, að það er ekki rjett. Mikið af þessari miljón stendur fast í varasjóði, og eins tekur það nokkuð mikinn tíma að koma á þessum 5. flokki, og veitir því ekki af, að lögin komist strax á.

Þá tók sami hv. þm. (TrÞ) það fram, að aðeins hefði 1/10 af 4. flokki gengið til landbúnaðarins. Er það satt. En jeg tók það fram, að þessi 5. flokkur ætti allur að ganga til hans, og má þá verja því, sem eftir verður af 4. flokki, til húsakaupa. Það má vel vera, að þetta sje ekki nægilegt fyrir landbúnaðinn, enda er það aðeins bráðabirgðaráðstöfun, eins og frv. hv. þm. Str.

Hvað snertir það, sem hv. þm. (TrÞ) þykir of vægt orðað, þá er því til að svara, að það er reglugerðaratriði, sem ráðherra mun setja, og ber í þeirri reglugerð að kveða fastar að.

En sú var ætlun mín með frv. þessu að koma í veg fyrir, að samþykt yrðu pappírslög, sem að engu gagni koma, eins og t. d. lögin um Ríkisveðbankann. Og er jeg hræddur um, að svo yrði um frv. hv. þm. Str. Landbúnaðurinn hefir lítið gagn af slíkum lögum.