29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

1. mál, fjárlög 1925

Forseti (BSv):

Mjer þykir mjög sanngjarnt að verða við tilmælum hv. þm. Dala. (BJ), en hins vil jeg þó geta, að jeg hefi fengið erindi tvö frá allmörgum hv. þm., þar sem þess er óskað, að umræðum sje lokið í kvöld, en heyrst hefir mjer, að atkvgr. mætti þó gjarnan bíða morguns. Mjer væri engin óþökk í því, að umræðum yrði lokið á nótt, en ef atkvgr. verður frestað til morguns, hygg jeg, að það muni ekki þurfa að tefja þingið, þó að þá verði einnig nokkrar umræður. Ef hv. þm. er umhugað, að málinu verði lokið sem fyrst, vænti jeg þess, að þeir verði samtaka forseta um það, að umræður verði ekki langar á morgun. Þeir eru 14, sem hafa skorað á mig að halda áfram í nótt þangað til umræðum er lokið, en mjer heyrist þó á sumum, að þeir muni ekki halda þessu til streitu.